Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti alls átta útköllum, frá klukkan sjö í gærkvöldi til fimm í morgun, vegna fólks í andlegu ójafnvægi víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Þetta kemur fram í skeyti sem lögregla sendi frá sér um verkefni gærkvöldsins og næturinnar.
„Lögregla fór í öllum tilfellum að vettvangi og reyndi eftir fremstu getu að aðstoða einstaklingana. Bæði með því að stilla til friðar og aðstoða einstaklinganna við að leita sér viðeigandi aðstoðar innan geðheilbrigðiskerfisins,“ segir lögregla.
Þá hafði lögregla afskipti af tveimur einstaklingum í Breiðholti laust fyrir klukkan 21 í gærkvöldi. Þeim var gefið að sök að hafa tekið vörur ófrjálsri hendi úr verslun. Lögregla tók niður framburð þeirra á vettvangi og var þeim gefið leyfi til að fara að svo búnu.
Um hálf tíu í gærkvöldi var tilkynnt um slagsmál í Kópavogi og mætti lögregla á vettvang til að stilla til friðar. Upp úr miðnætti var par handtekið í hótelherbergi í austurborginni, en greitt hafði verið fyrir gistinguna með stolnu greiðslukorti. Parið var vistað í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.
Þá stöðvaði lögregla akstur fjögurra ökumanna í nótt en þeir eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.