Óskað var eftir aðstoð lögreglu á veitingastað í miðbænum um fimm-leytið í dag. Mjög drukknar konur á sextugsaldri neituðu að greiða reikninginn og voru með almenn leiðindi og uppsteyt. Þær greiddu samt reikninginn þegar lögreglan kom á staðinn og gáfu upp persónuupplýsingar að kröfu lögreglu en þó með miklum semingi.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.
Þar greinir einnig frá því að umferðarslys varð í hádeginu á Reykjanesbraut við Álverið í Straumsvík. Bíll valt en stór vindhviða varð til þess að ökumaður missti stjórn á bílnum og endaði hún utan vegar og á hliðinni. Erlendir ferðamenn voru þarna á ferð og meiddist enginn þeirra.
Á fjórða tímanum í dag varð árekstur í hverfi 201 og stakk ökumaður af frá vettvangi. Vitni töldu ökumanninn vera ölvaðan. Ökumaðurinn fannst skömmu síðar ölvaður heima hjá sér. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu.
Um hálfþrjúleytið í dag var tilkynnt um að ekið hefði verið á gangandi vegfaranda í hverfi 110. Vinnuvél var bakkað á unga konu sem var að ganga á gangstétt. Konan var flutt með sjúkrabíl á slysadeild. Nokkrir áverkar en talið minniháttar á þessu stigi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur vinnuvélar án tilskilinna réttinda.