fbpx
Laugardagur 04.apríl 2020
Fréttir

Sigmundur Davíð segir Klaustursupptökuna hafa verið pólitíska aðgerð til að knésetja Miðflokkinn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 30. mars 2019 13:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Niðurstaðan er sú að ein mesta persónulega aðför sem gerð hefur verið opinberlega að stjórnmálamönnum og öðru saklausu fólki í seinni tíð var skipulögð aðgerð. Aðgerð sem svo var réttlætt og rekin áfram með blekkingum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í grein sem hann birtir á vef Fréttablaðsins í dag. Tilefni greinarinnar eru nýjar staðhæfingar um að gögn úr eftirlitsmyndavélum sýni að Bára Halldórsdóttir hafi skipulagt hlerun sína á samtölum þingmanna á Klaustur Bar í nóvember 2018 fyrirfram. Bára harðneitar þessu en farið var yfir málið í viðtali DV við Báru í morgun, sjá hér.

Sigmundur Davíð heldur því fram að sundurslitnir upptökubútar hafi verið birtir í fjölmiðlum og ummæli þingmanna hafi verið sett í ankannalegt samhengi til að þeir litu verr út en efni stæðu til. Hann skrifar:

Hinar illa fengnu upptökur voru svo unnar, klipptar til og framleiddar úr þeim ótal fréttir sem margar voru fyrst og fremst til þess ætlaðar að draga upp óviðurkvæmilega mynd af fórnarlömbum glæpsins en ekki að leiða fram eðlilega mynd af upptökunni. Torkennilegum hljóðum var jafnvel ljáð merking og notuð sem hluti frásagnarinnar.

Sigmundur heldur því fram að upptökurnar hafi verið pólitísk aðgerð í þeim tilgangi að knésetja Miðflokkinn:

Þetta var pólitísk aðgerð. Ekki verður annað séð en að markmið hennar hafi verið að knésetja Miðflokkinn, sama hversu margt saklaust fólk þyrfti að líða fyrir það. Og fólk hefur svo sannarlega liðið fyrir. Heilu fjölskyldurnar máttu þola angist vikum og mánuðum saman og grimmilega refsingu fyrir að á þeim hefði verið brotið. Enginn dómstóll hefði dæmt fólki slíka refsingu jafnvel þótt það hefði verið fundið sekt um alvarlegt afbrot í stað þess að vera þolendur þess.

Sigmundur segir enn fremur að pólitískir andstæðingar Miðflokksins á Alþingi hafi sýnt ótrúlega hræsni í málinu. Þingmenn Miðflokksins hafi mátt þola einelti innan veggja Alþingis í kjölfar málsins. Sigmundur hefur þetta að segja um pólitíkina í Klaustursmálinu:

Ætla hefði mátt að pólitískir andstæðingar á Alþingi hefðu brugðist við með því að fordæma brotið og krefjast þess að við því yrði brugðist á afgerandi hátt. Þrátt fyrir að oft sé hart tekist á í pólitíkinni væri eðlilegt að ætla að í slíku tilviki myndu flestir þingmenn hefja sig yfir ágreining um stjórnmálastefnu og gera kröfu um að grundvallarreglur réttarríkisins og almenn mannréttindi Alþingismanna yrðu varin.

Sú varð aldeilis ekki raunin. Sumir skriðu ofan í holur sínar en aðrir litu fyrst og fremst á þetta sem pólitískt tækifæri. Þó var ekki látið þar við sitja. Hópur þingmanna reyndi að nýta málið til að upphefja sjálfa sig og lentu þar í innbyrðis samkeppni þar sem þeir sem lögðust lægst töldu sig hafa skorað hæst.

Sumir þeirra þingmanna sem brotið var á hafa mátt þola hreint einelti innan veggja Alþingis og utan. Dæmi eru um að þingmenn hafi beitt áhrifum sínum til að hvetja utanaðkomandi aðila, meira að segja heilu samtökin, til að forsmá pólitíska andstæðinga sína. Í sumum tilvikum hafa aðferðirnar sýnt fram á ótrúlega fordóma og grímulausan vilja til mismununar.

Það hvernig Alþingi hefur verið misbeitt í pólitískum tilgangi er svo efni í aðra og lengri grein. Að sinni læt ég nægja að benda á fáránleika þess að fulltrúar löggjafarþingsins skuli hafa lagst svo lágt að taka við illa fengnum og ólögmætum upptökum og gert ítrekaðar tilraunir til að nýta þær í eigið pólitíska framapot. Í þeim efnum svifust menn einskis og fóru jafnvel í tráss við lög, hafandi þó áður þurft að lýsa sig vanhæfa til að fjalla um málið vegna framgöngu sinnar.

Grein Sigmundar er löng og hana má í heild lesa hér. Hann gerir meinta hræsni sumra þingmanna að umtalsefni, þar sem sérlega orðljótir þingmenn séu að fordæma talsmáta Klaustursþingmannanna:

„Eitt af því versta við þetta mál var að upplifa tvískinnungsháttinn og hræsnina sem sumir þingmenn leyfa sér. Ráðherrar og þingmenn sem ég hef hlustað á segja ótrúlega grófa hluti birtust skyndilega sem hvítþvegnir englar sem skildu ekki hvernig svona samtöl gætu átt sér stað.

Fólk sem leyfir sér ótrúlegan dónaskap í opinberri umræðu og talar reglulega af meinfýsni um pólitíska andstæðinga, og jafnvel samherja, sýndi sérstaka hneykslun og gagnrýnendur viðhöfðu margir hverjir orðbragð sem gaf verstu dæmunum úr einkasamtalinu ekkert eftir.

Raunar efast ég um að margir þingmenn kæmust í gegnum að vera teknir upp í fjóra klukkutíma við þessar aðstæður án þess að reynast töluvert gagnrýnni og litskrúðugri í orðavali en ég var þetta kvöld. Þó skal viðurkennt að í umræddu einkasamtali sagði ég um stjórnmálamann í öðrum flokki að honum væri ekki treystandi. Það mun víst teljast ofbeldi samkvæmt einhverju gildismati.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Margrét Gnarr sýnir hvernig er hægt að æfa með ferðatösku

Margrét Gnarr sýnir hvernig er hægt að æfa með ferðatösku
Fréttir
Í gær

Kolbrún segir að Áslaug hafi sýnt dómgreindarleysi: „Athugasemd hennar um að einmitt nú sé þörf á netverslun með áfengi lýsir léttúð“

Kolbrún segir að Áslaug hafi sýnt dómgreindarleysi: „Athugasemd hennar um að einmitt nú sé þörf á netverslun með áfengi lýsir léttúð“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ískyggilegt ástand hjá hjúkrunarfræðingum í COVID-faraldrinum – Sumir sofa aðeins tvo tíma á sólarhring

Ískyggilegt ástand hjá hjúkrunarfræðingum í COVID-faraldrinum – Sumir sofa aðeins tvo tíma á sólarhring
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Víðir kvíðir páskunum með tilheyrandi ferðalögum„Áhyggjuefni ef fólk fer að hópast mikið saman“

Víðir kvíðir páskunum með tilheyrandi ferðalögum„Áhyggjuefni ef fólk fer að hópast mikið saman“