fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Þessir Íslendingar hafa horfið erlendis – Þjóðin harmi slegin

Auður Ösp
Sunnudaginn 10. mars 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska þjóðin hefur fylgst harmi slegin með leitinni að Jóni Þresti Jónssyni sem hvarf í Dyflinni fyrir tæpum mánuði. Jón Þröstur er fjögurra barna faðir og er angist fjölskyldu hans allt að því áþreifanleg, eins og von er. Fátt er jafn óhugnanlegt og þegar einstaklingar hverfa sporlaust af yfirborði jarðar. Frá því um miðja síðustu öld hafa hátt á annan tug Íslendinga horfið á erlendri grundu. Í sumum tilfellum hafa jarðneskar leifar viðkomandi fundist mörgum árum síðar en önnur tilfelli teljast óupplýst.

Hjörtur Bjarnason

Hjörtur Bjarnason.

Það var aðfaranótt mánudagsins 26. febrúar árið 1951 að vélskipið Víkingur frá Seyðisfirði lagðist að bryggju í hafnarborginni Aberdeen á austurströnd Skotlands. Einn sjómaðurinn um borð hét Hjörtur Bjarnason. Þetta var hefðbundin ferð, aflinn var seldur á mánudeginum, olía tekin og síðan gert klárt fyrir brottför. Vitaskuld fóru skipverjar í land til þess að lyfta sér örlítið upp fyrir áframhaldandi veiðar.

Þrír skipverjar fóru á hótelið Stanley til að borða um sjöleytið; Björn Einarsson, fyrsti vélstjóri, og hásetarnir Þorgeir Jónsson og Hjörtur Bjarnason. Eftir tæpa tvo klukkutíma vildu Þorgeir og Hjörtur út en Björn ákvað að sitja áfram. Þegar átti að sigla daginn eftir var Hjört hvergi að finna. Í kjölfarið var skipulögð leit um alla borgina. Leitin bar ekki árangur og var skipstjóranum á Víkingi gert að fresta siglingunni um tvo daga á meðan hvarfið yrði rannsakað. Þegar Hjörtur fannst ekki að þeim tíma liðnum fékk skipstjórinn heimild til að sigla og hélt þá til Íslands.

Hjörtur var fimmtugur að aldri, ókvæntur og barnlaus. Hann var talinn hið mesta prúðmenni og hafði oft verið gerður að formanni á bátum. Skipverjunum þótti ósennilegt að Hjörtur hefði fallið í höfnina og drukknað. Þá var talið útilokað að Hjörtur hefði fyrirfarið sér, þar sem ekkert benti til þess í fari hans. Leit var hætt í Aberdeen þann 8. mars 1951.

Ragna Esther Sigurðardóttir

Ragna Esther Sigurðardóttir var ung Reykjavíkurmær á stríðsárunum þegar hún varð ástfangin af bandarískum hermanni, Emerson Lawrence, eða Larry eins og hann var kallaður. Þau gengu í hjónaband á Íslandi árið 1946 og fluttust síðan búferlum til Portland í Oregon-fylki, þar sem Ragna tók upp nafnið Esther Gavin. Þegar til Ameríku var komið missti Ragna fljótlega tengslin við fjölskyldu sína. Hjónin ættleiddu síðar meir tvö börn saman en eiginmaður Rögnu reyndist vera úlfur í sauðargæru og mátti hún þola hrottalegt ofbeldi af hans hálfu. Hjónin skildu og fékk Ragna þá fullt forræði yfir börnunum en árið 1951 var þeim komið fyrir hjá fósturforeldrum.

Ragna Esther Sigurðardóttir

Árið 1952 hvarf Ragna sporlaust , þá 23 ára gömul, en lengi vel var talið að Larry hefði ráðið henni bana. Árið 2011 greindi RÚV frá því að ættingjar Rögnu væru að reyna að komast að því hver örlög hennar hefðu orðið. Í ljós kom að Ragna upplifði meiri viðbjóð en nokkurn hefði órað fyrir. Dóttir Larry lýsti föður sínum sem skrímsli og kynferðislega brengluðum og fram kom að eitt sinn hefði Ragna legið  í hálfan mánuð á spítala eftir ofbeldi af hálfu eiginmanns síns.

Í janúar 2012 var rannsókn málsins tekin upp á ný hjá lögreglunni í Portland. Sama ár  fékk fjölmiðlakonan Lillý Valgerður Oddsdóttir áhuga á málinu og lagðist í mikla rannsóknarvinnu. Í kjölfarið kom í ljós að Ragna hafði mörgum árum áður breytt nafni sínu í Ragna E. Íshólm, af ótta við fyrrverandi eiginmann sinn. Hún hafði gifst á ný og eignast tvö börn með seinni eiginmanni sínum. Áttu þau langt og farsælt hjónaband en Ragna hélt sorglegri fortíð sinni ávallt leyndri fyrir börnum sínum. Hún lést af völdum lungnakrabba árið 2002.

Halldór Halldórsson

Í mars 1960 greindi Lögberg-Heimskringla frá því að blaðinu hefði nýlega borist úrklippa úr morgunblaðinu Province í Vancouver, þar sem sagt var frá undarlegu hvarfi 62 ára íslensks karlmanns að nafni Halldór Halldórsson. Halldór var á þessum tíma búsettur ásamt systur sinni, Önnu Halldórsdóttur, í fátækrahverfi í borginni Burnaby, austan við Vancouver, en hverfið var þekktur samastaður heimilislausra einstaklinga.

Að kvöldi 1. apríl 1959 fór Halldór til nágranna síns, Dans Morgan, og var í miklu uppnámi. Hann greiddi Morgan tíu dollara sem hann skuldaði honum og sagði síðan:

„Dan, nú hef ég loksins eftir allan þennan tíma komist að því, hver myrti dóttur mína. Ég ætla upp í borgina að gera eitthvað í því máli.“

Halldór hvarf því næst út í myrkrið og hefur ekki sést síðan.

Fram kemur í frétt Province að ekkert hafi verið tilkynnt um hvarf Halldórs á sínum tíma og að engar skýrslur væru til hjá lögreglu um hann eða dóttur hans. Nágrannar Halldórs lýstu honum sem „hæglátum manni“ og voru áhyggjufullir yfir hvarfi hans. Flestir þeirra töldu þó líklegt að lögreglan hafi ekki viljað snerta á málinu þar sem yfirvöld „létu sig lítið skipta um afdrif fólksins í þessi hverfi.“

Blaðamaður Province ræddi einnig við systur Halldórs, Önnu, sem þá var á sjötugsaldri og kvaðst hún vera viss um bróðir sinn hefði verið numinn á brott eða þá myrtur. Sagði hún að Halldór hefði fyrr um daginn farið og keypt matvæli, málingarbursta og málningu. Hann hefði síðan komið til baka en Anna var þá ekki heima. Þegar hún kom heim, voru matvælin og málningarvörurnar þar, en bróðir hennar var horfinn. Þá sagðist Anna hafa tilkynnt hvarf bróður síns til lögreglunnar í Vancouver en málið hefði þó aldrei verið rannsakað.

Jón Gunnar Pétursson

Árið 1930 hófu íslenskir togarar fyrst sölu á ísfiski í Cuxhaven í Þýskalandi, þegar togarinn Gyllir seldi þar fyrsta farminn sinn. Um 35 árum síðar,  þann 6. febrúar árið 1965,  hvarf ungur sjómaður af togaranum Skúla Magnússyni sem var í söluferð í Cuxhaven. Um var að ræða Jón Pétursson tvítugan pilt frá Hólmavík. Vitað er að Jón fór ásamt tveimur skipsfélögum sínum að skoða bæjarlífið en varð viðskila við þá og sást ekki eftir það. Vikulöng leit lögreglu bar engan árangur.

Í Morgunblaðinu var hvarfinu lýst á þennan hátt:

„Hann kom ekki til skips á fimmtudaginn, er togarinn skyldi sigla heim. Var beðið eftir honum á aðra klukkustund. En síðan var hvarf mannsins tilkynnt umboðsmanni skipsins og ræðismanni Íslands í Cuxhaven. Gerði hann lögreglunni aðvart og hefur verið leitað síðan, án árangurs.“

Guðný Helga Hrafnsdóttir Tuliníus

Aðfaranótt 17. júní 1986 hvarf Guðný Helga Hrafnsdóttir Tuliníus í Noregi. Guðný var einungis 19 ára gömul og hafði dvalið í Noregi í skamman tíma. Þrátt fyrir víðtæka leit á sjó og landi fannst ekkert sem gat staðfest lát hennar og er hvarfið enn í dag óupplýst.

Í júní 1988 rituðu systkini Guðnýjar minningargrein í Morgunblaðið þar sem þau sögðust hafa gefið upp alla von um að finna systur sína lífs eða liðna „eftir tveggja ára örvæntingarfulla leit“:

„Guðný hafði um skeið þjáðst af sálrænum erfiðleikum, en virtist vera á góðri leið með að sigrast á vanda sínum og við erum sannfærð að ef Guðný hefði þraukað aðeins lengur hefði hún getað ráðið niðurlögum hans.“

Fram kom að Guðný var fjórða barn foreldra sinna og fyrsta dóttir þeirra. Hún hafði hæfileika á mörgum sviðum, þótti afbragðs píanóleikari, fyrirmyndarnemandi og með mikla skáldskaparhæfileika. Unglingsárin reyndust henni erfið en hún blómstraði að sögn systkina sinna þegar hún var við nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð, tók þátt í margs konar menningar- og félagsstarfi og eignaðist fjölmarga vini meðal nemenda og kennara „sem margir áttu eftir að reynast henni vel í erfiðleikum hennar síðasta æviárið.“

Halldór Heimir Ísleifsson

„Halldór Heimir Ísleifsson, læknissonur frá Hvolsvelli, var í hagfræðinámi í Bandaríkjunum um miðbik níunda áratugar síðustu aldar. Árið 1987 kom hann heim og vann hér í einn vetur. Árið eftir hélt hann aftur út og ákvað að halda áfram námi í North Texas University. Hann var þá 25 ára gamall. Hann tjáði fjölskyldu sinni að hann ætti gamlan og góðan bíl vestan hafs og hygðist aka um Bandaríkin áður en hann byrjaði í skólanum.“

Þannig hefst grein eftir Björn Jón Bragason sem birt var í DV um eitt sérstæðasta mannshvarf Íslendings í útlöndum. Fjölskylda Halldór hafði af því áhyggjur að hann væri einn á ferð í ókunnugu landi, en Halldór kvaðst þekkja vel til vestanhafs og sagði enga ástæðu til að örvænta. Skömmu eftir að Halldór kom út hafði hann samband við fjölskyldu sína.

Þann 14. mars 1988 hringdi Halldór frá Kaliforníu til skólafélaga síns í Texas og bað hann um að senda sér peninga fyrir flugfarseðli svo hann gæti flogið til baka til Texas. Bíl Halldórs hafði þá verið stolið og öll skilríki hans voru horfin. Skólafélagi hans símsendi peningana en þegar Halldór birtist ekki fóru menn að hafa hafa af honum áhyggjur.

Bíll Halldórs fannst í smábæ, þrjá kílómetra frá landamærum Mexíkó, og taldi lögreglan í San Diego að hann hefði jafnvel farið suður yfir landamærin. Upplýsingum um Halldór var dreift víðs vegar um Bandaríkin og Kanada, en ekkert fannst sem varpað gat ljósi á hvarf hans. Á endanum drógu ættingjar þá ályktun að Halldór væri látinn. Kristín Ísleifsdóttir, systir Halldórs, sagði:

„Við upplifðum þá sorg sem flestir upplifa sem misst hafa náinn ættingja.“ Annar ættingi sagði:  „Við vonuðum en það má segja að vonin hafi ein verið eftir og bænin. Óvissan var hræðileg.“

Dag einn í október árið 2000 hringdi síminn á heimili fjölskyldu Halldórs. Mágur hans svaraði í símann og hinum megin á línunni var Halldór. Hann hafði þá verið týndur í 12 ár og var orðinn 38 ára gamall. Afráðið var að kalla fjölskylduna saman, sem hringdi aftur til hans þremur klukkustundum síðar. Urðu miklir fagnaðarfundir meðal foreldra hans og fjögurra systkina.

Halldór flutti svo um haustið til Íslands og hóf störf sem byggingaverkamaður. Þótti hann ósérhlífinn, duglegur og hvers manns hugljúfi. Í gegnum tíðina hafa íslenskir blaðamenn ítrekað reynt að fá Halldór til að tjá sig um hvarfið en hann hefur ávallt gefið þau svör að um sé að ræða einkamál hans og fjölskyldu hans.

Friðrik Kristjánsson

Friðrik Kristjánsson hvarf sporlaust í Paragvæ vorið 2013, þá þrítugur að aldri. DV hefur fjallað töluvert um málið síðustu misseri en ýmsar sögur hafa verið uppi um hvarf Friðriks, sem talið er tengjast fíkniefnaheiminum hér á landi.

Friðrik Kristjánsson

DV greindi frá hvarfi Friðriks í maí 2013 þar sem fram kom að lögregluyfirvöld hér á landi hefðu rannsakað málið í samvinnu við fjölskyldu og vini Friðriks. Þá leituðu íslensk lögregluyfirvöld liðsinnis lögregluyfirvalda í Brasilíu og Paragvæ við leitina og fór Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ásamt öðrum manni til Paragvæ í lok árs 2013 til að aðstoða við leit að Friðriki.

Í maí 2017 ræddi DV við vini og félaga Friðriks sem umgengust hann seinustu mánuðina fyrir hvarfið. Sögðu þeir að síðustu mánuðir Friðriks á Íslandi hefðu einkennst af gífurlegri fíkniefnaneyslu og ofbeldi. Einn af félögum hans sagðist telja fullvíst að Friðrik hefði verið þvingaður til að fara til Suður-Ameríku til að vinna upp í fíkniefnaskuld.

Síðast er vitað um ferðir Friðriks þann 27. mars 2013 en þá hringdi hann í vin sinn og sagðist vera á rútustöð í Brasilíu. Hann sagði vini sínum að hann væri á leiðinni yfir landamærin til Paragvæ en ekkert gaf þá til kynna að hann væri í vandræðum. Nokkrum dögum síðar hringdi hann þrisvar með stuttu tímabili í fyrrverandi kærustu sína sem náði ekki að svara.

Á 33 ára afmælisdegi Friðriks birti Vilborg Einarsdóttir, stjúpmóðir hans, færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún sagði fjölskylduna halda enn í vonina um að hann fyndist. Fjölskylda og vinir Friðriks hafa lýst honum sem „hugljúfum, framúrskarandi námsmanni og öflugum íþróttamanni.“ Hann er sagður hafa verið metnaðarfullur og með allt á hreinu þar til hann leiddist út í neyslu fíkniefna.

Zaki Ibrahim Hala Mohamed

Zaki Ibrahim

Hala Mohamed Zaki Ibrahim hvarf sporlaust í júníbyrjun 2016. Hala fæddist í Egyptalandi en hafði verið búsett á Íslandi í fjölda ára, var komin með íslenskan ríkisborgararétt og starfaði sem leiðbeinandi á leikskóla.

Lýst hefur verið eftir Hala á vef Interpol en ekkert hefur til hennar spurst. Á vef Interpol kemur fram að Hala hafi horfið á Íslandi en þegar Fréttablaðið ræddi við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í mars 2017 fengust þau svör að málið væri úr höndum embættisins þar sem talið væri að Hala væri stödd í Egyptalandi. Þá kom jafnframt fram að ekki væri uppi grunur um saknæma háttsemi í tengslum við hvarf hennar, og að lýst hefði verið eftir henni að beiðni fjölskyldumeðlima.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum