Erlendir ferðamenn á höttunum eftir ódýrri gistingu hér á landi eiga meðal annars þess kost að leigja fólksbíl og nýta hann þá bæði sem farartæki og náttstað. Líkt og fram kemur á vef Túrista er töluvert framboð af fólksbílum til leigu á heimasíðu Airbnb en bílarnir eru þá með dýnum í skottinu. Framboð á gistingu í fólksbílum fer vaxandi hér á landi en framkvæmdastjóri Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu bendir á að erfitt sé að hafa eftirlit með slíkri starfsemi.
Rætt er við Stefán Sigfússon og Þorek Þorkelsson hjá Black Sheep Campers en fyrirtækið er með fólksbíl skráðan til leigu á síðunni þar sem svefnpláss er fyrir tvo fullorðna og eitt barn og kostar nóttin 11 þúsund krónur. Sama fyrirtæki býður einnig upp á leigu á Ford jeppa þar sem nóttin kostar 25 þúsund krónur.
„Það fylgja hlýjar sængur og hitari, sem verður að tengjast rafmagni á tjaldsvæði, ásamt öðru með okkar bílum,“ segir Þorkell en þeir félagar fullyrða að þessi nýjung hafi gengið mjög vel og skilað sér í ánægju viðskiptavina.
Þeir sem leigja út gistirými í bílum eru ekki settar sömu skorður og þeir sem leigja út íbúðarhúsnæði á Airbnb, en til að leigja út bíl sem gistirými nægir að hafa bílaleiguleyfi frá Samgöngustofu.
Í samtali við Túrista segir Pétur Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu að í raun sé lítið sé ekkert eftirlit með þessari starfsemi. „Gjarnan eru keyptir í þetta sendibílar, sem eru lægri tollflokki, og þeim síðan breytt. Þeir eru svo leigðir út jafnvel sem sendibílar en ekki bílalaeigubílar eða húsbílar. Enginn fylgist með þessu.“