fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Jakob Smári opnar sig um fallið – Tilraun sem endaði með ósköpum: „Frábær hugmynd fyrir mann sem hafði verið gardínufyllibytta “

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. október 2018 12:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bassaleikarinn Jakob Smári Magnússon, sem hefur spilað með hljómsveitum svo sem Tappi Tíkarass, Grafík og SSSól, opnar sig um alkahólismann og fall sitt árið 2011 á bloggsíðu sinni. Hann fer yfir það hvernig alkahólisminn vatt upp á sig og þrátt fyrir að ná árangri í edrúmennsku þá hafi hann fallið oftar en einu sinni.

„Hæ, ég heiti Jakob og er alkóhólisti. Ég fór í mína fyrstu meðferð árið 1992. Ég var 28 ára. Það var bæði erfið og stór ákvörðun fyrir mig að fara inná Vog og játa fyrir sjálfum mér og öðrum að ég réði ekki við áfengisdrykkjuna. Ég hafði vitað innst inni í einhvern tíma að drykkjan væri orðin vandamál en það var eitthvað svo fjarri mér að fara í meðferð. Ég drakk „bara“ um helgar en um leið og fyrsti sopinn var kominn inn fyrir mínar varir var ég stjórnlaus og drakk mikið og illa. Á Vogi hitti ég allskonar fólk sem var að koma úr alls konar neyslu og margir að mínu mati verr settir en ég. Fólk sem var í dagneyslu, búið að drekka sig úr vinnu og frá fjölskyldu. Ég fékk svokallaðan minialka komplex en lét það ekki stoppa mig. Mitt vandamál var til staðar og ég ætlaði að sigrast á því. Eftir því sem leið á meðferðina varð ég sannfærðari um að ég ætlaði aldrei aftur að drekka,“ segir Jakob Smári.

Hann segir að ráðgjafi sinn hafi mælt með því að hann hætti að vinna við tónlist. „Ég lærði margt í meðferðinni og þetta var þroskandi tími. Eitt af því sem ráðgjafinn minn á Staðarfelli sagði við mig var að ég myndi aldrei ná að verða edrú nema ég myndi skipta um vinnu, eða allavega skipta um hljómsveit. Ég starfaði nefnilega sem tónlistarmaður á þessum tíma og var í einni vinsælustu hljómsveit landsins. Róleg, hugsaði ég. Mér fannst hugmyndin fáránleg og var fullviss um að ég gæti nú alveg haldið áfram að spila þó ég væri orðinn edrú. Ég ætlaði nú ekki að fara að umbreyta lífi mínu þó ég væri hættur að drekka. Það eitt að hætta að drekka var nú alveg nóg fannst mér. Ég gerði mér nefnilega enga grein fyrir því þá hversu öflugur andstæðingur fíknisjúkdómurinn er. Ég vanmat andstæðinginn og ofmat sjálfan mig,“ segir Jakob Smári.

Datt í það eftir ár

Hann segir að fyrst um sinn hafi honum liðið illa án áfengis. „Ég kláraði meðferðina og við tók raunveruleikinn. Ég hélt mínu striki og fljótlega eftir að ég útskrifaðist af Staðarfelli var ég kominn í hljómsveitarrútuna og farinn til Akureyrar. Þar hafði maður nú oft verið fullur. Maður minn lifandi. Þegar við komum norður fórum við á sama veitingastað og venjulega og ég pantaði mér sömu pizzuna og ég hafði alltaf pantað og stóran bjór. Nei, reyndar ekki. Enginn bjór, en allt annað var eins og áður. Svo var spilað og svo farið að sofa, sennilega á sama hóteli og síðast,“ segir Jakob Smáir.

Hann segir að líf hans hafi verið þannig næstu mánuði. „Alveg eins og það hafði alltaf verið nema enginn bjór og enginn Jack Daniels. Ég fór svo bara á mánudögum á fund hjá samtökum sem kenna sig við fyrsta bókstafinn í stafrófinu til að rétta kúrsinn eftir helgina. Vikan fór svo oftast í ekki neitt. Mér leið oftast illa. Það vantaði eitthvað. Ég var tómur inní mér. En ég var viss um að það myndi lagast með tímanum. Tíminn leið og mér leið illa. Eftir rúmt ár datt ég í það og skildi ekkert hvað hafði gerst. Hvað gerði ég vitlaust?,“ segir Jakob Smári.

Skipti um hljómsveit

Jakob Smári segist hafa náð sér á strik og þá skipt loksins um hljómsveit.  „Ég náði að stoppa með hjálp Göngudeildar SÁÁ og fyrrnefndra samtaka sem kenna sig við stafinn A. Áfram leið tíminn og mér leið áfram ekkert sérstaklega vel. Þá tók ég ákvörðun. Ég ákvað að skipta um hljómsveit. Ég frétti að það vantaði bassaleikara í aðra hljómsveit og ég sótti um. Ekki það að gömlu félagarnir væru svona slæmir. Mér þótti vænt um þá og hljómsveitina, en ég þurfti bara að breyta til. Ég þurfti að komast í annað umhverfi. Það var nefnilega sagt mér í meðferðinni að ég þyrfti að gera breytingar á þessu sviði og nú ætlaði ég að hlýða. Ég var ekki tilbúinn að hlýða að öllu leiti og fá mér nýja vinnu. Ekki einu sinni tímabundið meðan ég væri að ná jafnvægi. Mér tókst að halda mig frá áfengi í einhverja mánuði eða ár eftir hljómsveitarskiptin. Svo bankaði Bakkus uppá. „Þetta var nú ekki svo slæmt“. „Manstu hvað það var oft gaman?“  Ég notaði öll vopn sjálfsblekkingarinnar sem ég hafði til að sannfæra mig um að byrja aftur. Sem ég og gerði. Nú ætlaði ég bara að passa mig,“ segir Jakob Smári.

Hann segist flakkað á milli vinna og yfirgefið sambýliskonu sína. „Næstu árin drakk ég og fór fljótlega í sama stjórnlausa farið og áður. Eða bíðum nú við. Sama farið ? Jú, til að byrja með. Svo varð þetta bara verra. Helgardrykkjan breyttist á dagdrykkju. Ég hafði gengið aftur til liðs við gömlu félaga í mína í hljómsveitinni sem mér þótti svo vænt um en ég drakk mig útúr henni. Þeir nenntu mér ekki. Ég reyndi að fá mér dagvinnu en stoppaði stutt á flestum vinnustöðum ýmist af því ég hætti að mæta eða var rekinn. Ég yfirgaf sambýliskonuna mína og börnin okkar tvö. Ég var orðinn eins og fólkið sem var svo langt gengið í meðferðinni um árið. Ég var ekki lengur neinn míníalki. Enda er það ekki til,“ segir Jakob Smári.

Árið 1999 fór hann svo aftur í meðferð og þá tvisvar. „Fyrst á Teiga og svo á Vog og á Vík í framhaldinu. Þarna var ég ekki á góðum stað og hvorug þessara meðferða dugði til að bjargar mér uppúr þeim pytti sem ég var í. Ég var ekki tilbúinn að gefast upp. Ég fór fljótlega að drekka aftur eftir báðar meðferðirnar. Það voru ekki föll af því ég náði aldrei neinu flugi. Ég náði ekki flugtaki,“ segir Jakob Smári.

Tíu ár edrú

Jakob Smári segir að eftir þetta var hann edrú um nokkurt skeið. „Í byrjun ársins 2000 ákvað ég að reyna að fara í mánaðarbindindi. Ég hafði kynnst konunni sem ég er giftur í dag og var orðinn ástfanginn. Við höfðum verið að hittast í sirka 3 mánuði og hún sá fljótlega að ég var ekki alveg í lagi og skoraði á mig að vera edrú í mánuð og svo skildum við tala saman og sjá til. Þetta var einn erfiðasti mánuður lífs míns en þessi mánuður varð að rúmum 10 árum edrú. Mér fór að líða vel og var sáttur við Guð og menn og þessa frábæru konu sem ég hafði kynnst. Ég var ekkert að spila á þessum tíma enda búinn að klúðra því. Ég fékk mér því „venjulega“ vinnu og fór að lifa reglubundnara lífi en áður og komst í gott jafnvægi. Eftir einhvern tíma fór ég að spila aftur með gamla bandinu mínu sem mér þótti alltaf svo vænt um. Var búinn að ná ágætis jafnvægi og taldi mig ráða við þetta og félagarnir töldu sennilega að nú væri mér treystandi. En það gaf mér ekki neitt að spila aftur nema smá peninga. Ég fann fljótt að þarna var ég í aðstæðum sem voru mér erfiðar. Þegar það var ball framundan fylltist ég af kvíða og á sviðinu leið mér illa og beið eftir að þetta væri búið. Sem betur fer komu stundum verkefni í tónlistinni sem voru skemmtileg. En þessi ballspilamennska var að gera mig brjálaðan. Þarna var ég að gera eitthvað sem ég í raun höndlaði engan veginn,“ segir Jakob Smári.

Hann komst að því að honum þótti erfitt að spila á sveitaböllum. „Það hvarflaði ekki að mér á þessum 10 árum að fara að drekka. Mér fannst eins og löngunin hefði verið tekin frá mér og ég væri frjáls. Ég var líka skíthræddur við áfengi og hvert það gæti leitt mig. Erfiðustu stundirnar voru þegar ég var að spila á böllum og þegar ég var innan um fólk sem var að drekka. Mig langaði til að geta breytt þessu. Mér fannst eðlilegt að ég gæti verið innan um drukkið fólk en samt liðið vel og skemmt mér. En að eiga svona erfitt með þetta fannst mér óeðlilegt. Mér fannst ég oft standa utan við lífið á slíkum stundum og vera veikgeðja og skrýtinn,“ segir Jakob Smári.

Tilraunin endaði með ósköpum

Jakob Smári segist hafa orðið þreyttur á að vera skrýtni maðurinn sem drakk ekki. „En einn góðan veðurdag þegar ég var nýbúinn að ná rúmlega 10 ára edrúmennsku fékk ég þá hugmynd að gaman væri að gera smá tilraun á sjálfum mér og sjá hvort ég gæti drukkið eðlilega. Ég var orðinn þreyttur á að vera skrýtni gaurinn með sódavatnið. Ég ætlaði að bara að drekka léttvín og bjór og ekki vera fullur. Right. Frábær hugmynd fyrir mann sem hafði verið gardínufyllibytta 10 árum áður. En ég trúði að ég gæti þetta og var til í að taka sénsinn. „Það var bara erfitt hjá mér þarna um árið og þess vegna drakk ég svona illa,“ hugsaði ég,“ segir Jakob Smári.

Þessi tilraun endaði með ósköpum. „Þessi tilraun stóð í eitt ár og var satt að segja oft á tíðum erfið. Fyrir mann eins og mig að ætla að gerast einhver hófdrykkjumaður drekkandi rauðvín úr fínum glösum með litlafingur útí loftið var absúrd. Þetta var eins og að keyra um á 500 hestafla bíl með annan fótinn á bensíngjöfinni og hinn á bremsunni. Ekkert gaman og eitthvað hlýtur að gefa sig að lokum. Og það gerðist. Ég held það hafi verið bremsurnar sem gáfu sig fyrst og ég klessti á vegg ef svo má segja,“ segir Jakob Smári.

Að lokum endaði þetta með því að hann átti í engin hús að vernda. „Þarna erum við komin til ársins 2011 og síðan þá er ég búin að eiga tvö hressilega fyllerí. Bæði áttu sér stað árið 2012 með mánaðar millibili. Það fyrra var ein helgi en hið síðara stóð yfir í viku og endaði föstudaginn 13. apríl 2012. Þann dag stóð ég á Skólavörðuholtinu með bassa í annarri hendinni og ferðatösku í hinni og átti í engin hús að venda. Algjörlega búinn. Síðan þá hef ég ekki drukkið áfengi,“ segir Jakob Smári.

Hann ákvað því að gera róttækar ráðstafanir. „Í framhaldi af þessum síðustu fylleríum fannst mér nóg komið og ákvað að gera róttækar breytingar á lífi mínu. Ég ákvað að fara að ráðum ráðgjafans á Staðarfelli 20 árum áður og skipta um vinnu, ekki bara hljómsveit. Ég gat þetta ekki lengur. Ég fór að vinna sem sölumaður og var sáttur. Ég tók mér frí frá tónlistinni, ætlaði helst að hætta alveg en tónlistin togaði fljótlega í mig aftur. Ég fékk tilboð sem ég gat ekki hafnað. Ég fann aftur ástríðuna í að spila tónlist og geri það enn,“ segir Jakob Smári.

Þarf ekki að læra að skemmta sér

Jakob Smári reynir að svara þeirri spurningu um hvers vegna hann hafi fallið. „En af hverju féll ég? Það er sennilega ekkert einfalt svar við því. Ég held að aðalatriðið fyrir mig var að ég var ekki tilbúinn að fórna neinu. Vildi engu breyta. Ég ofmat sjálfan mig og vanmat sjúkdóminn. Ég gat ekki viðurkennt að sumar aðstæður réð ég bara ekki við. Breytt hugarfar er lykillinn held ég. Það að játa vanmátt sinn gagnvart áfengi er eitt en að játa vanmáttinn á öðrum sviðum er annað og jafnvel erfiðara. Ég verð að horfast í augu við þá staðreynd að það eru aðstæður í lífinu sem ég ræð ekki við. Sá hluti vafðist lengi fyrir mér,“ segir Jakob Smári.

Hann segist hafa lært að skemmta sér án áfengis. „Ég þarf ekki að læra að skemmta mér innan um drukkið fólki. Það er allt í lagi að mæta bara ekki eða mæta og fara snemma. Ég nota það síðarnefnda. Ég hef lært að skemmta mér í lífinu. Og þegar ég segi skemmta mér hefur það ekkert með djamm að gera. Bara gera eitthvað skemmtilegt. Ég reyni að koma vel fram við fólk og forðast að gera allt sem veldur slæmri samvisku eða slæmri líðan. Ég reyni að vera heiðarlegur og einlægur og njóta lífsins eins og það kemur til mín. Það er ekkert alltaf auðvelt en það er ekkert í þessum heimi sem áfengi lagar. Ég velti mér ekki uppúr fortíðinni. Hún er liðin og ég er sáttur við hana. Ég er ekki fullkominn og ég get bara gert mitt besta,“ segir Jakob Smári.

Hann segist þess vegna reyna að vanda sig í dag: „Ég þarf að passa mig að koma mér ekki á þann stað að það verði góð hugmynd að fá sér einn skítkaldan. Því ef ég fer að drekka missi ég allt sem skiptir mig máli. Ég man þegar ég datt í það síðast þá spurði konan mín mig  „hvað varstu að hugsa? Þú varst nú edrú þegar þú fékkst þér fyrsta glasið og vissir alveg hvaða afleiðingar þetta myndi hafa“. Ég gat ekki svarað henni. Jú jú, auðvitað var ég ekki drukkinn þegar ég fékk mér fyrsta glasið, það segir sig sjálft, en ég var ekki með sjálfum mér. Alkóhólgeðveikin hafði tekið yfir. Það er jú nefnilega þannig að þegar fíknin hefur tekið yfir þá er ekkert sem skiptir meira máli en að fá sér. Þegar ég er kominn á þann stað fer öll skynsemi og rökhugsun. Ég vil bara fá mér. Og enginn skilur af hverju. Á þann stað vil ég ekki fara. Þess vegna verð ég að vanda mig. Þetta er í mínum höndum og ég verð að taka ábyrgð á eigin lífi.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar