Nýtt tæki gerir símnotendum kleift að tala í símann án þess að það heyrist í þeim. Þrátt fyrir að flestir sem vilja ekki láta heyra í sér láti sér einfaldlega nægja að senda SMS eða Facebook-skilaboð þá eru sumir hlutir alltaf best sagðir í gegnum síma en það getur verið erfitt þegar setið er í strætisvagni, kaffihúsi eða á fjölmennum vinnustað. Til þess er Hushme-gríman.
Gríman tengist við símann í gengum Bluetooth og hylur munninn þannig að ekki heyrast orðaskil. Gríman mun þó vera nógu stór til að sá sem talað er við skilji hvað er sagt. Til að auka öryggið er hægt að kveikja á sérstökum hljóðum þannig að sá sem reynir að hlusta heyrir bara fuglahljóð, suð eða píp. Græjan er framleidd í Úkraínu og var þróunin fjármögnuð í gengum Kickstarter.
Blaðamaður BBC prófaði Hushme á CES-tæknisýningunni í Las Vegas á dögunum og líkti hann græjunni við grímuna sem illmennið Bane var með á sér í The Dark Knight Rises.
Hvort þetta slái í gegn verður hins vegar tíminn að leiða í ljós.