„Það dynur á okkur að kaupmáttur lægstu launa hafi hækkað, það hefur ómað í eyrum okkar að takist hafi að hækka lægstu laun sérstaklega umfram aðra hópa. Slíku er ekki til að dreifa en máttur blekkinga prósentuhækkana er gríðarlegur,“ segir Vilhjámur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við DV.
Vilhjálmur birti athyglisverðar færslur á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hann gagnrýndi ráðamenn þjóðarinnar fyrir að tala um að tekist hefði að hækka lægstu laun sérstaklega umfram aðra hópa. Kaupmáttur lægstu launa hefði einnig hækkað mjög mikið.
Vilhjálmur sagði í færslu sinni telja nauðsynlegt að sýna staðreyndir um samanburð á hækkun á lægsta launataxta verkafólks og hækkun á þingfararkaupi frá árinu 1998 til 2018. Þá sýndi Vilhjálmur aðra mynd sem varpaði ljósi á launahækkanir hjá nokkrum forstjórum miðað við hækkun á lægsta launataxta verkafólks frá 1998 til 2017 í krónum talið.
„Eins og kemur fram á þessari mynd (sjá fyrir neðan) þá var lægsti launataxti verkafólks fyrir 20 árum síðan 63.399 kr. en er í dag 266.735 kr. og hefur því hækkað um 203.336 kr. eða sem nemur 320%. Árið 1998 var þingfarakaupið 220.168 kr. en er árið 2018 komið í 1.101.194 kr. og hefur því hækkað um 881.026 kr. eða sem nemur 400%.“
Þá bætir Vilhjálmur við að lægsti launataxti verkafólks hafi hækkað um 194 þúsund krónur frá 1998 til 2017. Bendir Vilhjálmur á að forstjóri N1 hafi hækkað um 4 milljónir króna, forstjóri Eimskips um 3,6 milljónir, forstjóri Samskipa um 3,4 milljónir, forstjóri Icelandair Group um 3,3 milljónir og forstjóri Olís um 2 milljónir króna.
„Svo koma þessir snillingar og segja að tekist hafi að hækka lægstu laun umfram aðra í þessu þjóðfélagi en hérna sjáum við svart á hvítu blekkingarnar í kringum prósentuhækkanir,“ sagði Vilhjálmur í færslu sinni.
Spurður nánar út í þetta segir Vilhjálmur að hægt sé að blekkja mjög með öllu tali um prósentur. Ef þú leggur eina krónu ofan á aðra krónu er það 100 prósenta hækkun. Prósentur eru að blekkja gríðarlega. Ekkert okkar fer með prósentur út í verslun og brauðfæðir sig og sína eða greiðir reikninga með prósentum. Við þurfum öll að borga með krónum og því skiptir litlu máli hvort prósentur hafi hækkað.“
Miðað við framangreindar upplýsingar sendir Vilhjálmur ráðamönnum þjóðarinnar skýr skilaboð: „Ég bið því þá ráðmenn sem eru að halda þeirri skefjalausu þvælu fram að lægstu laun hafi hækkað sérstaklega umfram aðra að steinhætta slíku bulli,“ sagði Vilhjálmur í færslu sinni.