Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að forgangsraða 18 útköllum síðastliðið föstudagskvöld milli kl. 19:00 og 21:00 og gat því ekki komið íbúum í Asparfelli til aðstoðar vegna utangarðskonu, líklega sprautufíkil, sem herjaði á stigaganginn umrætt kvöld.
Líkt og DV greindi frá um helgina voru íbúarnir ekki sáttir við viðbrögð lögreglu. Lögreglan kom ekki á staðinn fyrr en tveimur til þremur klukkutímum síðar, þá var konan farin.
Sjá einnig: Utangarðskona herjar á stigagang í Asparfelli
Birgir Örn Guðjónsson, best þekktur sem Biggi Lögga, segir á Facebook að hann hafi verið varðstjóri umrætt kvöld og sé því ljúft og skylt að útskýra hvers vegna lögreglan hafi ekki komið konunni til aðstoðar. Þetta kvöld voru 18 útköll hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu milli kl. 19 og 21:30 og því hafi þurft að forgangsraða.
Rétt áður en íbúinn í Asparfelli óskaði eftir aðstoð lögreglu var nýafstaðin líkamsárás í Kópavogi þar sem tveir voru handteknir, annar þeirra handteknu þurfti yfirsetu á slysadeild vegna þess hve æstur hann var. Á nánast sama tíma og hringt var úr Asparfelli kom upp hnífsstungumál fyrir utan verslun Krónunnar í Grafarholti. Þrír voru handteknir og vistaðir í fangageymslu.
Á sama tíma barst svo lögreglu tilkynning um slagsmál og önnur tilkynning um að verið væri að ráðast inn í íbúð.
Biggi segir að hann geti ekki sagt annað en að lögreglan hafi staðið sig fáránlega vel miðað við mönnun líkt og oft áður. „Það þarf jú samt því miður að forgangsraða og sumum útköllum er hreinlega ekki sinnt. Það er vissulega slæmt. Lögreglumönnum finnst það líka. Við erum jú í þessu saman sem samfélag.“