Karlmaður gerði tilraun til þess að lokka tvær stúlkur, 7 ára og 8 ára, upp í bíl til sín í Vesturbænum í gær. Reyndi hann að bjóða stúlkunum sælgæti. Atvikið átti sér stað á Bræðrarborgarstíg í grennd við gatnamótin við Sólvallagötu.
Bjarni Kristjánsson faðir annarrar stúlkunnar greinir frá þessu inni á opnum facebookhópi fyrir íbúa í Vesturbænum. Hann segir manninn líklega vera á milli fimmtugs og sextugs með grátt og nokkuð sítt alskegg. Hann var í flíspeysu með rennilás og húfu á höfði.
Fram kemur að dóttir Bjarna, sem er 7 ára gömul og vinkona hennar sem er 8 ára hafi verið á gangi á Bræðraborgarstíg í grennd við gatnamótin við Sólvallagötu um sex leytið í gær.
„Þá kemur maður akandi á bifreið sem hann stöðvar, skrúfar niður rúðuna og kallar til þeirra að hann sé með nammi handa þeim. Sem betur fer urðu þær skelkaðar og hlupu í felur á bakvið nærliggjandi bíl. Maðurinn bakkaði þá bifreiðinni og reyndi að sjá hvert þær hefðu farið en ók svo á brott.“
Samkvæmt lýsingu dóttur Bjarna var um að ræða nokkuð stóran bíl, ef til vill á stærð við lítinn sendibíl, þar sem ökumannshúsið var aðskilið frá aftara húsinu. Þetta gæti því vel hafa verið einhvers konar vinnubíll. Ökumannshúsið var hvítt en aftara húsið dekkra.
Bjarni hefur tilkynnt atvikið til lögreglu. Hann hvetur fólk til að hafa varann á og gera lögreglu viðvart ef það verður vart við atburði af þessi tagi í hverfinu.
„Og gleymum ekki mikilvægi þess að ræða við börnin okkar um rétt viðbrögð lendi þau í aðstæðum sem þessum.“