Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður og þúsundþjalasmiður er hálf orðlaus yfir þeirri ákvörðun Björgólfs Jóhannssonar að hætta sem forstjóri Icelandair Group.
Greint var frá því í gærkvöldi að Björgólfur myndi hætta og er ákvörðunin rakin til nýrrar afkomuspár félagsins sem lækkaði frá því sem áður var.
Í tilkynningu var haft eftir Björgólfi að ákvarðanir hans hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni og hann beri ábyrgð á því gagnvart stjórn félagsins og hluthöfum.
Ómar segir á bloggsíðu sinni að þetta sé í raun einsdæmi í íslensku efnahagslífi.
„Þeir frammámenn í íslensku efnahagslífi, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera, sem og stjórnmálum, sem hafa oft talið sig eiga kröfu á svimandi háum launum og sporslum, hafa venjulega gert það með þeim rökum að svo mikil áhætta og ábyrgð fylgi þessum störfum þeirra og stöðu, að launin verði að vera svona há,“ segir Ómar og bætir við að hingað til hafi ástandið hér á landi verið þannig að það marki tímamót í íslensku viðskiptalífi að forstjóri Icelandair segi af sér, eða láti af störfum, vegna atburða sem urðu á hans vakt.
„Þetta er nokkuð, sem varla hefur nokkurn tíma gerst í áratugi hér á landi, á sama tíma sem þetta hefur verið alsiða í öðrum löndum. Það segir sína sögu um margt í þjóðlífi okkar, að Bjögólfur Jóhannsson teljist vera brjóta blað í íslenskri viðskiptasögu.“