Nærri 90% landsmanna sögðust sofa að meðaltali 6-8 klukkustundir á nóttu, þar af nær helmingur í 7 klukkustundir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 26. júní til 3. júlí síðastliðinn.
Alls kváðust rúm 89% svarenda sofa að meðaltali í 6-8 klukkustundir á hverri nóttu en 44% sögðust sofa að meðaltali í 7 klukkustundir, 23% í 6 klukkustundir og 23% í 8 klukkustundir. Þá sögðust 6% sofa í 5 klukkustundir á nóttu, rúm 2% í 9 klukkustundir, tæp 2% í 0-4 klukkustundir og tæpt 1% í 10 klukkustundir eða meira.
Í tilkynningu á vef MMR kemur fram að nokkur breytileiki hafi verið á afstöðu svarenda eftir lýðfræðihópum. Konur (91%) voru líklegri en karlar (88%) til að segjast sofa að meðaltali 6-8 klukkustundir á hverri nóttu en hlutfall þeirra karla sem áætluðu svefntíma sinn að jafnaði vera 5 klukkustundir eða styttri (10%) var hins vegar hærra en kvenna (5%).
Þegar litið var til aldurs mátti sjá að svarendur 18-29 ára (9%) og 68 ára og eldri (9%) voru líklegri en aðrir til að segjast sofa 5 klukkustundir eða skemur á hverri nóttu en svarendur á aldrinum 50-67 ára voru líklegastir til að segjast sofa 6-8 klukkustundir á nóttu (94%). Lítill munur var á svörun eftir búsetu. Hlutfall þeirra svarenda sem sögðust að meðaltali sofa 6-8 klukkustundir á hverri nóttu fór hækkandi með aukinni menntun og heimilistekjum.
Einnig mátti sjá nokkurn mun á afstöðu svarenda þegar litið var til stjórnmálaskoðana þeirra. Stuðningsfólk Samfylkingar (96%), Sjálfstæðisflokks (94%) og Framsóknar (93%) var líklegast allra svarenda til að segjast sofa 6-8 klukkustundir að meðaltali á hverri nóttu. Þá var stuðningsfólk Viðreisnar (12,5%) líklegast til að telja meðalsvefntíma sinn vera 5 klukkustundir eða styttri en stuðningsfólk Flokks fólksins (6%) og Pírata (6%) var líklegast til að segjast sofa 9 klukkustundir eða lengur að meðaltali.