Nunnur eru meðal þeirra sem handteknir hafa verið í tengslum við rannsókn skoskra yfirvalda á barnamisnotkun á Smyllum Park-munaðarleysingjahælinu. Um er að ræða heimili sem rekið var af kaþólsku kirkjunni og var lokað árið 1981.
Alls voru tólf handteknir í aðgerðum skosku lögreglunnar í gær, ellefu konur og einn karl en fólkið er á aldrinum 62 til 85 ára. Rannsóknarnefnd hefur unnið að málinu undanfarin misseri og rætt við börn sem bjuggu á staðnum á sínum tíma.
Börnin á heimilinu voru í umsjá nunnanna og bárust nefndinni margar hryllingssögur. Börn hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi, þau lamin, neydd til að borða ælu og niðurlægð ef þau pissuðu undir. Þá eru grunsemdir um að barn hafi dáið á heimilinu eftir að það var skilið nakið eftir úti í rigningunni í þrjá klukkutíma í refsingarskyni. Þá líkti einn heimilinu við útrýmingarbúðir nasista.
Í frétt breska blaðsins Independent kemur fram að til viðbótar við þessa tólf einstaklinga sem voru handteknir verði fjórir tilkynntir til saksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákæra skuli gefin út. Lafði Smith, hæstaréttardómari sem hefur farið með rannsókn nefndarinnar, mun að líkindum birta skýrslu um munaðarleysingjahælið á næstu vikum.
Um ellefu þúsund börn bjuggu í Smyllum Park meðan það var starfrækt á árunum 1864 til 1981.