fbpx
Föstudagur 19.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Diamond Beach rokkar

Fréttir

Eastwood enn á ferðinni

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 1. maí 2018 20:30

Í höndum lögreglunnar Eastwood hafði ekki mikið upp úr krafsinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í lok sakamáls síðasta tölublaðs lá ljóst fyrir að mannræninginn Edwin John Eastwood var, árið 1974, dæmdur til 17 ára fangelsisvistar vegna mannráns hans og félaga hans, Roberts Clyde Boland. Síðla árs 1972 höfðu þeir félagarnir rænt sex ungum stúlkum og kennara þeirra, Mary Gibbs, og krafist milljón dala lausnargjalds. Þeir riðu reyndar ekki feitum hesti frá þeim gjörningi.

Umræddur Eastwood átti eftir að láta meira að sér kveða. Þann 16. desember, 1976, flúði hann við annan mann, Michael Pontic, 29 ára. Þeir höfðu af mikilli þrautseigju grafið göng og þannig komist út fyrir veggi Geelong-fangelsisins, þar sem þeir afplánuðu sína dóma.

Geelong-fangelsið
Eastwood og samfangi hans grófu sig út fyrir veggi fangelsisins.

Hlekkjaði börnin saman

Við hús þar skammt frá komust Eastwood og Pontic yfir jeppa og fatnað og síðan hurfu þeir út í veður og vind. Segir ekki frekar af Michael Pontic enda ekki miðpunktur þessarar frásagnar.

Um skeið virtist sem Eastwood væri horfinn af yfirborði jarðar, en 15. febrúar, 1977, lét hann á sér kræla. Greinilegt var að hann var við sama heygarðshornið. Vopnaður .38 kalíbera skammbyssu smalaði hann saman níu börnum af leikvelli við Wooreen-barnaskólann í Victoria-fylki og inn í kennslustofu.

Lagði áherslu á alvöruna

Þar inni sat kennarinn Robert Hunter við vinnu sína í mestu makindum.

Eastwood batt og keflaði Hunter og hlekkjaði öll börnin saman með keðju. Að því loknu dró hann allan hópinn út og neyddi inn í sendiferðabíl sem hann hafði skilið eftir við leikvöllinn.

Kennarinn og börnin
Robert Hunter með nemendum sínum. (mynd: Victoria Police)

Svo enginn færi í grafgötur um að ekki væri um neinn fíflaskap að ræða sló Eastwood eina ellefu ára stúlku í andlitið.

Eins og árið 1972 skildi Eastwood eftir miða, reyndar á hurð kennslustofunnar, en á honum stóð reyndar ekkert annað en að bekkurinn hefði farið í um klukkustundar gönguferð.

Gíslunum fjölgar

Foreldrar barnanna komu að mannauðri kennslustofu þegar sækja átti börnin síðdegis þennan dag. Eftir að hafa beðið í einhverjar klukkustundir brást þeim þó þolinmæðin og haft var samband við lögreglu. Leit var skipulögð án tafar.

Meðan á þessu gekk hafði heldur betur ýmislegt gerst á vegferð Eastwoods. Hann hafði lent í árekstri við timburflutningabíl skammt frá Boolarra. Ekki urðu slys á mönnum en aftur í sendiferðabílnum fjölgaði um tvo því hann tók bílstjórann og félaga hans í gíslingu.

Enn fjölgar gíslum

Eastwood bætti um betur síðar. Þá varð á vegi hans Volkswagen-húsbíll sem í voru þrjár aldraðar konur. Einhverra hluta vegna ákvað Eastwood að gera þær að föngum sínum og notaði tækifærið og smalaði öllum gíslunum, nú fimmtán talsins, úr sendiferðabílnum og yfir í húsbílinn.

Síðan ók hann sem leið lá út í óbyggðirnar skammt frá Woodside og var það náttstaður hersingarinnar þessa nótt.

Vörubíllinn og sendiferðabíllinn fundust báðir síðar og fékk lögreglan þar með einhvern útgangspunkt til að skipuleggja leit sína.

Lausnargjaldskrafa í mörgum liðum

Það gerði lögreglan svikalaust og um svipað leyti tókst Robin Smith, bílstjóra sendiferðabílsins, að flýja úr klóm Eastwoods. Af harðfylgi tókst honum að brjótast gegnum skógarþykknið og í húsi nokkru sem var á leið hans komst hann í síma og náði sambandi við lögreglu.

Eftir að Smith hafði upplýst lögregluna um raunir sínar setti hún upp vegatálma á öllum vegum á svæðinu.

Þegar þarna var komið sögu hafði borist krafa frá Eastwood. Krafan var í nokkrum liðum: Skilyrðislaus sakaruppgjöf Eastwood til handa, fjöldi skotvopna, 10.000 byssukúlur, 17 föngum yrði sleppt úr Pentridge-fangelsi, sjö milljónir Bandaríkjadala, 100 kíló af suðuramerísku kókaíni og 100 kíló af heróíni.

Krafan endaði á viðvörun um að gíslar yrðu teknir af lífi ef ekki yrði orðið við kröfunum.

Eastwood særist

Þegar bjarma fór af degi sást til ferða Eastwoods og við tók eltingarleikur. Eastwood greip til byssunnar og lögreglan svaraði í sömu mynt. Eastwood hallaði sér út um bílgluggann og sparaði ekki skotfærin, en lögreglumenn reyndu að hæfa dekk bifreiðar Eastwoods.

Að lokum tókst lögreglunni ætlunarverk sitt og hæfði annað afturdekkið. Eastwood neyddist til að stöðva bílinn, en hann var þó ekki á því að gefast upp, heldur tók á rás að runnaþykkni í vegkantinum og lét kúlunum rigna yfir verði laganna á hlaupunum.

Mannræningi með vafinn fót
Eastwood fékk skot í fótlegginn er hann reyndi að flýja.

Áður en langt um leið varð Eastwood þó að játa sig sigraðan, fékk enda skot í annan fótlegginn og frekari hlaup því úr sögunni.

Spjallaði glaður við börnin

Börn og fullorðnir sem höfðu verið prísund Eastwoods höfðu ýmislegt að segja í kjölfar björgunarinnar. Níu ára drengur, Brett Fisher, sagði að mannræninginn hefði verið undarlega útlítandi þegar hann gekk inn í skólastofuna: „Hann var með svartan og hvítan trefil sem huldi mestallt andlitið og byssan virtist ekki vera alvöru.“ Brett bætti við að þegar Eastwood hótaði að skjóta kennarann þá hefði alvara málsins orðið ljós.

Brett sagði enn fremur að Eastwood hefði spjallað við þau börnin og virst hafa gaman af, en annað hefði verið uppi á teningnum þegar fullorðnu gíslarnir spjölluðu saman, þá hefði hann orðið reiður mjög. Eastwood hefði hlekkjað kennarann og hina karlmennina við tré og sagt að þeir fengju það óþvegið ef þeir hefðu sig ekki hæga.

Ákæra í 25 liðum

Ein kvennanna þriggja, Joy Edward, sagði að Eastwood hefði sagst mjög glaður yfir að þær urðu á vegi hans; þær hefðu haft teppi og púða sem gerðu aðstæður barnanna þægilegri þegar útbúinn var næturstaður úti undir berum himni.

Frú Edward sagði að öllum hópnum hefði verið smalað inn í Volkswagen-húsbílinn um leið og Eastwood uppgötvaði að einum karlmannanna hafði tekist að losa sig og leggja á flótta. Það hefði verið um klukkan korter í sjö þennan morgun.

Ákæran á Edwin John Eastwood var í 25 liðum, þar á meðal vegna mannráns og lausnargjaldskröfu og fyrir morðtilraun.

Eftir að hann gafst upp var hann spurður hví hann hefði tekið jafn marga gísla og raun bar vitni og Eastwood svaraði: Ertu ekki búinn að sjá lausnargjaldskröfuna? Þegar þú hefur séð hana þá veistu svarið. Hún er einstök.“

Fyrir allt sem tengdist Wooreen-skólanum fékk Eastwood 21 árs dóm sem bættist við ellefu árin sem hann átti eftir að afplána fyrir Faraday-málið (sjá síðasta helgarblað), samtals 32 ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum