Að jafnaði eru kynin aðskilin í daglegu lífi í Sádí-Arabíu en þar er strangri túlkun á íslamstrú fylgt út i ystu æsar en þó hefur slaknað aðeins á því að undanförnu.
Það er kínverska fyrirtækið AMC Entertainment Holdings sem á nýja kvikmyndahúsið. Fyrirtækið hefur samið við yfirvöld um að opna 40 kvikmyndahús til viðbótar á næstu fimm árum og 60 því til viðbótar fyrir 2030. Hið breska Vue International hefur samið um opnun 30 kvikmyndahúsa og fleiri fyrirtæki vilja gjarnan komast að á þessum markaði en talið er að hann muni velta milljörðum dollara á ári og að 30.000 ný störf verði til. Íbúar landsins eru um 33 milljónir og þar af eru tveir þriðju hlutar yngri en 30 ára. Það er því eftir miklu að slægjast.
Áratugum saman hafa nær öll form afþreyingar verið bönnuð í Sádí-Arabíu. Síðustu kvikmyndahúsunum var lokað í upphafi níunda áratugarins en þá reið holskefla íslamskrar íhaldssemi yfir landið. En í kjölfar þess að Mohamed bin Salman var útnefndur krónprins á síðasta ári hefur margt breyst.
Nú er verið að reisa fyrsta óperuhús landsins, teiknimyndasöguhátíðir hafa verið haldnar, danssýningar og tónleikar.
Allt er þetta liður í Vision 2030 sem er byggt á hugmyndum krónprinsins um efnahags- og félagslegar umbætur. Markmiðið er að nútímavæða Sádí-Arabíu og draga úr því hversu háð þjóðin er olíutekjum. Þess vegna á að byggja um geira á borð við ferðamanna- og skemmtanaiðnaðinn. Landsmenn eyða milljörðum dollara í allskonar afþreyingu utanlands, enda hefur nær allt sem heitir afþreying og skemmtun verið bannað í landinu, en nú vonast yfirvöld til að fólk eyði þessum peningum í afþreyingu heima við.
Lítið hefur heyrst í íhaldssömustu landsmönnunum yfir þessu aukna frjálsræði en þeir líta á jazztónlist, ballet og kvikmyndir sem beina ógn við einstaka íslamska ímynd landsins.
En það eru ýmsar hindranir sem þarf að yfirstíga, til dæmis hvað varðar aðskilnað kynjanna og hvaða myndir á að sýna. Mikil og ströng ritskoðun er í landinu og ástarsenur, kvenlíkamar og atriði þar sem áfengi og/eða eiturlyf sjást eru ekki heimil. Ritskoðunaryfirvöld hafa nú þegar sagt að aðeins kvikmyndir sem ekki stríða gegn sharíalögum og siðferði konungsríkisins muni sleppa í gegnum nálarauga ritskoðunar.
Það var Black Panther sem var sýnd í gær og næsta mynd sem verður tekin til sýninga er Avengers: Infinity War.