Bandaríski þróunarsálfræðingurinn Gordon Gallup segir að afkvæmi simpansa og manns hafi fæðst á tilraunastofu í Orange Park í Flórída. Hann nefndi afkvæmið „humanzee“ sem er blanda af ensku orðunum „human“ (maður) og „chimpanzee“ (simpansi). Gallup er þekktur fyrir að hafa þróað „sjálfs-kennsla“ prófið sem sannaði að prímatar eru færir um að átta sig á að um þeirra eigin hreyfingar og viðbrögð er að ræða þegar þeir horfa í spegil.
Daily Mail skýrir frá þessu. Fram kemur að Gallup hafi í viðtali við The Sun sagt að afkvæmi manns og simpansa hafi fæðst í rannsóknarstofu þar sem fyrrum háskólakennari hans vann á árum áður. Gallup sagði að prófessorinn hafi sagt honum að afkvæmið hafi fæðst á þriðja áratug síðustu aldar í rannsóknarstöð í Orange Park.
Hann sagði að sæði karlmanns hafi verið notað til að frjóvga egg simpansa sem hafi gengið með afkvæmið og eignast það. Gallup sagði að skömmu eftir fæðinguna hafi vísindamennirnir farið að huga að siðferðilegum afleiðingum þess að hafa búið til blöndu af manni og simpansa. Þetta hafi á endanum leitt til þess að þessi blanda manns og simpansa hafi verið aflífuð.
Á vef Sciencealert.com er fjallað um málið í dag og ákveðnum efasemdum velt upp. Þar er til dæmis bent á að rannsóknarstöðin sem Gallup vísar til hafi ekki verið tekin í notkun fyrr en á fjórða áratugnum en ekki þeim þriðja þegar þessi meinta blanda manns og simpansa á að hafa fæðst.
En einnig er bent á að bæði sovéskir og kínverskir vísindamenn hafi gert álíka tilraunir en þær hafi mistekist.
Gallup heldur því þó fram að menn geti eignast afkvæmi með öðrum apategundum, það sé ekki eingöngu bundið við simpansa.