fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Íbúar vilja myndavélar vegna innbrota: „Slíkt ríki var til … hét Austur-Þýskaland“

Mynstur í innbrotum – Vélar hafa nýst – Dystópísk framtíð

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 30. janúar 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarið ár hefur borið á umræðu um innbrot innan margra hverfa höfuðborgarsvæðisins. Þetta birtist helst á svokölluðum Facebook-hverfasíðum þar sem margir íbúar hafa lýst áhyggjum sínum og tala jafnvel um innbrotahrinu í því samhengi – skipulagðan þjófnað utanaðkomandi aðila inn í ákveðin hverfi og inn á heimili, bílskúra og bifreiðar.

Kársnes í Kópavogi er eitt þessara hverfa eins og DV greindi frá síðastliðið haust. Þar hafa íbúar sagst viljugir til að taka upp eftirlitsmyndavélakerfi við jaðra hverfisins sem lögreglan hefði aðgang að. Íbúar margra annarra hverfa hafa einnig lýst sig viljuga til að taka upp slíkt kerfi, þar á meðal á Völlunum í Hafnarfirði og í Úlfarsárdal í Reykjavík. Nú þegar hafa slíkar vélar verið settar upp á Seltjarnarnesi og Álftanesi.

Vélar á Seltjarnarnesi hafa upplýst glæpi

Árið 2010 settu bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi upp myndavélar á báðum leiðunum inn í bæinn, á Nesvegi og Eiðsgranda. Gunnar Lúðvíksson, sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs, segir þetta hafa verið gert til að auka öryggi bæjarbúa. „Það var eitthvað um innbrot á þessum tíma en kannski enginn hátoppur. Hér var hins vegar mikil umræða um að auka hverfagæslu og við vorum í samstarfi við Securitas um það. Á íbúafundi kom upp sú hugmynd að setja upp myndavélar líkt og gert hefur verið sums staðar erlendis.“

Gunnar segir að bærinn greiði fyrir uppsetningu og endurnýjun en lögreglan skoði efnið ef þurfa þykir. Hann segir reynsluna af myndavélunum vera ágæta. „Ég hef ekki tölur yfir tíðni innbrota en þetta hefur klárlega fælingarmátt. Svo hafa þær nýst lögreglunni við leit og ég veit til þess að nokkur mál hafa verið upplýst vegna þeirra.“

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir að vélarnar á Seltjarnarnesi hafi nýst lögreglunni. „Til dæmis í sumar þegar bátur var tekinn úr höfninni þar. Við fórum í vélarnar og sáum þegar báturinn var dreginn í burtu. Einnig hafa þær nýst í sambandi við innbrot.“

Taka skartgripi en ekki Playstation-tölvur

Jóhann segir að það skipti miklu máli hvar vélar séu settar upp og hvað þær myndi út frá nytsemi og persónuvernd. Hann segir engar kvartanir hafa borist vegna myndavélanna. „Ég held að fólk sé almennt ánægt með þetta.“

„Ég held að fólk sé almennt ánægt með þetta“
Jóhann Karl Þórisson „Ég held að fólk sé almennt ánægt með þetta“

Eiga áhyggjur fólks um fjölgun innbrota við rök að styðjast?

„Já, það stendur yfir innbrotahrina núna. Ef við værum til dæmis með myndavélar í Fossvoginum, þar sem hafa verið innbrot, þá ættum við hugsanlega upptökur af þjófunum.“

Er um skipulagða glæpastarfsemi að ræða?

„Við höfum trú á að þetta sé skipulögð starfsemi og hugsanlega erlendir aðilar sem koma hingað í þeim tilgangi, við vitum það samt ekki. Við höfum séð einhverja tugi innbrota og öll með svipuðu mynstri. Alltaf er farið inn í svefnherbergi í gegnum glugga eða svalahurðir þar sem er ekki þjófavarnarkerfi og þar eru teknir skartgripir, úr og fleira. En fartölvur, Playstation-tölvur og annað sem er frammi í stofu er látið í friði. Yfirleitt er farið inn í hús í útjöðrum og við göngustíga en ekki við stórar götur.“

Stefnt á að fjölga vélum í Garðabæ

Undir lok ársins 2017 var komið upp myndavélum á hringtorginu við jaðar Álftaness, við Bessastaðaafleggjarann. Um tilraunaverkefni Garðabæjar, lögreglunnar og Neyðarlínunnar er að ræða og vélarnar ekki komnar í notkun en samstarfssamningur er í burðarliðnum.

Hulda Hauksdóttir, upplýsingastjóri Garðabæjar, segir: „Garðabær hefur reglulega staðið að íbúafundum um nágrannavörslu og eftirlitsmyndavélar hafa þar komið til tals á undanförnum árum. Svo kom áskorun um þetta frá íbúum á Álftanesi.“ Hún segir að ekki hafi verið sérstaklega mikið um innbrot á Álftanesi á þeim tíma en nú sé talað um eiginlega innbrotahrinu í Garðabæ.

„Gunnar [Einarsson] bæjarstjóri hefur óskað eftir fundi með lögreglustjóra og Neyðarlínunni til að fara yfir öryggismál almennt í framhaldi af fréttum um innbrotahrinuna með það fyrir augum að ræða um hvort fleiri vélar verði settar upp en engin ákvörðun hefur verið tekin um það.“ Hulda reiknar þó með að vilji íbúanna sé fyrir því. En jafnframt hafa komið fram athugasemdir frá íbúum um að vanda verði til verka og huga að friðhelgissjónarmiðum, til dæmis hvert myndavélum sé beint og hvernig þær séu merktar.

Eins og í Austur-Þýskalandi eða Kína

Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður hefur verið ötull talsmaður persónufrelsis og friðhelgi einkalífsins. Hún telur fjölgun eftirlitsmyndavéla varhugaverða þróun. Við DV segir hún: „Það hafa verið skrifaðar bækur og bíómyndir um hræðilegar dystópíur þar sem hið opinbera fylgist stöðugt með borgurunum. Þessar bækur og kvikmyndir áttu ekki að verða uppskrift að þjóðfélagi, heldur víti til varnaðar. Dæmi eru bókin 1984 eftir George Orwell og kvikmyndin The Terminator eftir James Cameron og Gale Anne Hurd. Slíkt ríki var til alveg til ársins 1989, það hét Austur-Þýskaland og fórnuðu margir lífi sínu við að reyna að flýja þaðan.“

Nefnir hún Kína til samanburðar þar sem milljónum myndavéla með andlitsgreiningarbúnaði hefur verið komið upp. „Ég efast ekki um að röksemdir alræðisstjórnvaldanna þar fyrir uppsetningu þessa verkefnis sé „til að koma í veg fyrir glæpi“, en leiðin til heljar er oftast vörðuð góðum ásetningi.“

„Það eina sem gerist er að almennir borgarar munu lifa við verulega skert mannréttindi og aukið eftirlit hins opinbera með þeim.“
Erna Ýr Öldudóttir „Það eina sem gerist er að almennir borgarar munu lifa við verulega skert mannréttindi og aukið eftirlit hins opinbera með þeim.“

Telur þú að eftirlitsmyndavélar breyti hegðun fólks?

„Ég efast ekki um það. En ég efast heldur ekki um að slíkar myndavélar muni ekki gagnast nema takmarkað þegar við skipulagða og vel undirbúna glæpamenn er að eiga. Það eina sem gerist er að almennir borgarar munu lifa við verulega skert mannréttindi og aukið eftirlit hins opinbera með þeim.“

Skipta rannsóknarhagsmunir lögreglu ekki meira máli en friðhelgi einkalífsins í þessum tilvikum?

„Rannsóknarhagsmunir lögreglu trompa ekki grundvallarmannréttindi, hvað þá mannréttindi allrar þjóðarinnar. Það væri að fórna meiri hagsmunum fyrir minni að taka rannsóknarhagsmuni lögreglu fram yfir mannréttindi allrar þjóðarinnar og þá er vægt til orða tekið.“ Nefnir hún Geirfinnsmálið í því samhengi. „Ég held að enginn vilji að svoleiðis hryllingur endurtaki sig, jafnvel þó að einstaka lögreglumál leysist ekki eða taki lengri tíma í vinnslu fyrir vikið.“

Erna segist vilja sjá allar opinberar eftirlitsmyndavélar hverfa úr borginni nema við opinberar byggingar ef stjórnvöld hefðu áhuga á því. Betri lausn væri ef borgarar og fyrirtæki kæmu upp sínum eigin upptökubúnaði og léti lögreglunni gögn í té við rannsókn glæpa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum
Enn einn Snapchat-perrinn
Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Í gær

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum