fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Fertugasta ár Arinbjarnar í ferðaþjónustu

Skipuleggur göngu- og hestaferðir víða um land – Arnarvatnsheiðin er lykillinn

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 17. nóvember 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að bænum Brekkulæk í Miðfirði hefur Arinbjörn Jóhannsson rekið ferðaþjónustu í fjörtíu ár og séð tímana tvenna. Þar gerir hann út á hesta- og gönguferðir fyrir þýskumælandi Evrópubúa auk þess sem nýársferðir hans njóta mikilla vinsælda. Um helmingur viðskiptavina hans hefur komið áður í ferðir hjá honum sem er að mörgu leyti einstakt. Arinbjörn þakkar það einstöku starfsfólki auk þess sem leyndardómar Arnarvatnsheiðarinnar, sem er nánast við bæjardyrnar, hafa reynst honum vel. „Íslendingar höfðu auðvitað um langt skeið farið með útlendinga í ferðir um landið. Ég veit ekki betur en ég hafi verið sá fyrsti sem bauð upp á skipulagðar ferðir á tilteknum dagsetningum,“ segir Arinbjörn sem fór sína fyrstu ferð á Arnarvatnsheiði sumarið 1979.

Á æskuslóðunum

Arinbjörn er borinn og barnfæddur að Brekkulæk en eftir menntaskólaárin á Akureyri stefndi hugur hans til útlanda. „Mig langaði mikið til þess að búa erlendis og horfði þá til þriðja heimsins. Ég hafði safnað peningum og gat því farið í smá ferðalag sumarið eftir fimmta bekk. Úr varð að ég heimsótti vin minn í Danmörku og þaðan fórum við Póllands. Eftir stutta dvöl þar fórum við til Berlínar og þar heillaðist ég alveg af borginni og menningunni,“ segir Arinbjörn. Líf og fjör var í Berlín og þar með kom ekkert annað til greina en Þýskaland eftir að menntaskólanámi lauk.

„Ég flutti til Freiburg og lærði þýsku og vann fyrsta árið en skráði mig síðan í háskóla með mannfræði sem aðalfag,“ segir Arinbjörn. Hann segist ógjarnan halda því fram að hann hafi stundað námið vel. „Til þess að búa erlendis þá var rökréttast að fara í nám þótt hugurinn hafi ekki verið við það öllum stundum,“ segir Arinbjörn. Hann hafi þó haft gaman af því og sérstaklega hafði einn áfangi mikil áhrif á hann. „Sá áfangi fjallaði um menningarlega litun ferðamanna. Þá voru ævintýraferðir til Afríku að hefja göngu sína og vísindamenn höfðu miklar áhyggjur af því að vestræn menning og neysluhyggja myndi valta yfir fornar menningar sem hefðu ekki komist í kynni við vestrið. Þetta hafði talsverð áhrif á mig og ég fór að hugsa um okkar íslensku menningu og hvað væri einstakt við hana,“ segir Arinbjörn.

Skipulagði ferðirnar frá Þýskalandi

Niðurstaða vísindamanna var á þá leið að þar sem heimamenn væru stoltir af sinni menningu og héldu upp á hana væri engin hætta á ferðum. „Þannig kviknuðu hugmyndir um að gefa útlendingum innsýn í íslenska menningu. Fyrir utan náttúruna hef ég alltaf eingöngu boðið upp á íslenskan mat, matinn sem ég borðaði sem krakki, og það fellur í mjög góðan jarðveg,“ segir Arinbjörn og nefnir þar sérstaklega lambakjötið og soðna ýsu með lauksmjöri.

Eins og fram hefur komið lék Arnarvatnsheiðin lykilhlutverk í ferðaþjónustu Arinbjarnar. „Þessi náttúruperla er nánast við bæjardyrnar og ég þekkti svæðið vel. Ég hafði fengið vini mína í heimsókn og farið með þeim í veiðiferðir upp á heiði og í gegnum þá fékk ég að upplifa áhrifin sem þetta svæði hafði á þá sem þekktu ekkert til þess. Ég vissi því að þetta var sérstakt og gæti fallið í kramið,“ segir Arinbjörn. Þá hafði hann einnig unnið fyrir sér sem leiðsögumaður fyrir laxveiðimenn í Miðfjarðará um sumur og hafði því fengið smjörþefinn af sérhæfðri ferðaþjónustu.

Lokapúslið var síðan andi 68-kynslóðarinnar sem sveif yfir vötnum þar sem sjálfstæður rekstur, helst á sviði einhvers konar þjónustu, var litinn hýru auga. Arinbjörn ákvað að slá til og bjóða upp á ferðir á Íslandi. Hann var enn búsettur í Þýskalandi þegar fyrstu ferðirnar voru skipulagðar. „Ég bjó í Þýskalandi í átta ár en síðustu þrjú árin dvaldi ég ytra yfir vetrartímann en bjó á Íslandi yfir sumrin og skipulagði þessar ferðir. Ég auglýsti fyrst í ýmsum hesta- og borgarblöðum en var fljótlega kominn í samband við ferðaskrifstofur ytra,“ segir Arinbjörn.

Í dag treystir hann á ferðaskrifstofur erlendis auk þess sem hann sendir veglegan bækling á um 6.000 heimili í Evrópu. „Við notum fornar markaðsaðferðir en þær virðast virka,“ segir Arinbjörn og hlær.

Arnarvatnsheiðin lykillinn

Fyrstu árin bauð hann upp á hestaferðir um Arnarvatnsheiði þar sem gist var við frumstæðar aðstæður á nærliggjandi eyðibýli og gestir veiddu sér til matar. „Ég fékk afnot af eyðibýlinu Aðalbóli í Austurárdal fyrstu árin áður en starfsemin færðist alfarið að Brekkulæk,“ segir Arinbjörn. Einn af fyrstu gestum hans var Árni Björnsson þjóðháttafræðingur sem skrifaði um reynslu sína af ferðinni í Helgarpóstinn í september 1979. Fór Árni lofsamlegum orðum um ferðina sem hann taldi þó Arinbjörn selja á alltof lágu verði.

Fljótlega fór Arinbjörn að fjölga ferðum og árið 1986 fór hann að bjóða upp á gönguferðir upp á Arnarvatnsheiði og víðar, sem hafa notið mikilla vinsælda. Í dag er svo komið að hestaferðirnar eru einungis um 30 prósent af ferðunum sem fyrirtæki Arinbjarnar skipuleggur. „Í dag bjóðum við upp á rútuferðir víða um land og í bland við krefjandi göngur inn á milli. Ég hef svolítið verið á Vesturlandi og Vestfjörðum þar nýtur Rauðisandur mikilla vinsælda,“ segir Arinbjörn. Arnarvatnsheiðin er þó krúnudjásnið í því sem hann býður upp á og hann gefur ekkert upp um hvaða leiðir eru farnar. „Þetta er sannkölluð draumaveröld þarna uppi á heiði og ég þekki þetta orðið eins og handarbakið á mér. Þetta er ósnortið land og í vikulöngum gönguferðum hitta ferðamennirnir ekki nokkurn mann á ferli. Það finnst fólki alveg einstakt,“ segir Arinbjörn.

Hann fer núorðið sjálfur aðeins stuttar hestaferðir með túrista en treystir á öflugt starfsfólk í öðrum ferðum. „Ég hef verið mjög heppinn með starfsfólk. Ég hef eingöngu ráðið Þjóðverja sem hafa verið búsettir hér á Íslandi eða þá Íslendinga sem hafa verið í námi úti í Þýskalandi,“ segir Arinbjörn. Að auki hefur fjölskylda hans stutt hann með ráðum og dáð sem og sveitungar hans.

Sveitungarnir hjálpsamir

„Ég var heppinn að því að leyti að sveitungar mínir tóku mér afar vel og hjálpuðu mér mikið. Mögulega hafa þeir kennt í brjósti um mig,“ segir Arinbjörn og hlær. Það góða samstarf er enn við lýði og Arinbjörn heimsækir fjárhús hjá bændum í nágrenninu með hópa auk þess sem hann kynnir íslenskt handverk, sem unnið er í sveitinni, fyrir þeim. „Gestum mínum þykir mjög gaman að fá þessa innsýn í lífið í sveitinni. Þá gleymum við því oft að það er einstakt að gestir geti heimsótt fjárhús eins og hér heima. Erlendis er öllu lokað út af smithættu. Útlendingunum finnst alveg einstakt að heyra um hversu lítið af lyfjum er notað í landbúnaðinum hér heima. Það er eitthvað sem við þurfum að hreykja okkur meira af,“ segir Arinbjörn.

Hann fann ekki fyrir sama velvilja hjá ferðamálayfirvöldum og þaðan var litla hjálp að fá. „Ég var náttúrlega ungur og óreyndur þegar ég var að stíga mín fyrstu skref og strax fyrsta árið fékk ég kæru á mig frá Samtökum ferðaþjónustunnar því ég var ekki með tilskilin leyfi. Einar Þ. Guðjohnsen, hjá Útivist, hljóp þá undir bagga með mér og tók reksturinn undir sinn verndarvæng. Hann reyndist mér afar vel,“ segir Arinbjörn.

Stressaður yfir genginu

Einn viðsjárverður þáttur í rekstrinum frá upphafi hefur verið íslenska krónan og telur Arinbjörn að útlitið hafi aldrei verið dekkra en nú. „Þessar miklu sveiflur í gengi eru ekki nýjar af nálinni. Það hafa verið ótal lægðir á þessum fjörtíu árum en líka góðir tímar,“ segir Arinbjörn. Hann nefnir til að mynda árin milli 1990 og 1994, árin upp úr 2000 og síðan árin eftir hrun. „Gengið er orðið alltof sterkt núna. Rúmlega helmingur þeirra sem heimsækja mig ár hvert hefur komið áður í ferð til mín og þetta fólk hefur því góðan samanburð. Skilaboðin sem ég fæ frá þessu fólki er að verðið sé orðið of hátt. Þetta er orðið mjög alvarlegt að mínu mati og ég er stressaður. Þessi óstöðugleiki er gjörsamlega óþolandi,“ segir Arinbjörn.

Það er þó enginn bilbugur á okkar manni. „Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að þetta yrði ævistarfið þegar ég skipulagði mínar fyrstu ferðir. Ég hef stundum sagt að ég hafi ekki unnið ærlegt handtak síðan 1986,“ segir Arinbjörn og hlær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni