fbpx
Sunnudagur 23.janúar 2022
Fréttir

Sigurður réðst á starfsmenn með grófu ofbeldi: Ætlaði að „stúta“ þeim

„Það var búið að lofa okkur því að hættulegir einstaklingar yrðu ekki vistaðir þarna“

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 10. október 2017 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta eru fullkomin svik við íbúa. Það var búið að lofa okkur því að hættulegir einstaklingar yrðu ekki vistaðir þarna. Núna þurfa íbúar hverfisins að horfa upp á heimsóknir lögreglu og sérsveitar. Það voru ung börn sem urðu vitni að því þegar vistmaður var dreginn handjárnaður upp í sérsveitarbíl. Þessi starfsemi á ekki heima í rólegu íbúðarhverfi,“ segir afar ósáttur íbúi í grennd við íbúðakjarna í Rangárseli þar sem Reykjavíkurborg hefur byggt upp svokallaða öryggisvistun. Á dögunum féll dómur þar sem eini vistmaðurinn í Rangárseli var dæmdur fyrir gróf ofbeldisbrot, meðal annars gegn forstöðumanni og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar. Starfsemin hefur verið umdeild frá fyrstu tíð og eru íbúar afar ósáttir við skort á upplýsingum frá yfirvöldum.

Gróf svik Reykjavíkurborgar

Íbúar hafa kært uppbygginguna við Rangársel. Byggingarleyfa var ekki aflað auk þess sem ekki var kynnt nein breyting á deiliskipulagi.
Telja uppbygginguna ólöglega Íbúar hafa kært uppbygginguna við Rangársel. Byggingarleyfa var ekki aflað auk þess sem ekki var kynnt nein breyting á deiliskipulagi.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Íbúðarkjarninn við Rangársel var um árabil í eigu Öryrkjabandalags Íslands. Þar dvöldu einstaklingar með ýmsar fatlanir og í góðu sambýli við nágranna sína. Það breyttist þegar Félagsbústaðir keyptu fasteignina í nóvember 2014. Fljótlega var húsnæðið rýmt og tilkynnt um þau áform velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að í húsnæðið myndu flytja einstaklingar með margs konar fötlun, sem glímdu við vímuefnavanda, aðallega ungir karlmenn. Íbúar mótmæltu fyrirætlununum hástöfum og sauð meðal annars upp úr á íbúafundi í Seljakirkju. Á honum héldu borgaryfirvöld því fram að vímuefnaneytendur yrðu ekki markhópur starfseminnar.

Fljótlega fluttu síðan tveir menn með alvarleg geðræn vandamál í íbúðakjarnann. Þurftu íbúarnir fljótlega að þola margs konar uppákomur tengdar vistmönnunum. Meðal annars gerðist annar þeirra sekur um grófa líkamsárás gegn íbúa í næsta nágrenni og hinn fletti sig klæðum fyrir framan nærliggjandi leikskóla.

Tæpum tveimur árum síðar, þann 28. mars síðastliðinn, fjallaði DV um áhyggjur íbúa vegna öryggisgirðinga sem risu í kringum íbúðakjarnann í skjóli nætur. Íbúar í hverfinu voru afar ósáttir við feluleik Reykjavíkurborgar í málinu enda hafði íbúum ekki verið kynnt hvaða starfsemi yrði í húsinu. Þegar íbúar gengu á borgaryfirvöld kom í ljós að um svokallaða öryggisvistun var að ræða. Aftur var ítrekað að engir hættulegir einstaklingar yrðu vistaðir á þessum stað enda eru skólar, leikskólar og dvalarheimili aldraðra í næsta nágrenni. Þá var því heitið að upplýsingaflæði til íbúanna yrði aukið. Þau loforð telja íbúar að borgaryfirvöld hafi gróflega svikið.

Kæra virt að vettugi

Í vor kærðu nágrannar við Rangársel 16–20 framkvæmdirnar við húsið til Byggingarfulltrúa Reykjavíkur. Að þeirra mati aflaði velferðarsvið sér ekki tilskilinna byggingarleyfa áður en farið var í stað með uppbyggingu við húsnæðið auk þess sem hönnuður hússins var ekki hafður með í ráðum. Þá telja þeir að breytt nýting húsnæðisins kalli á breytingu á deiliskipulagi auk tilheyrandi grenndarkynningar. Það var ekki gert og telja íbúarnir því að um klárt lögbrot sé að ræða.

Lúbarði starfsmenn

Nýfallinn dómur yfir Sigurði Almari Sigurðssyni opinberar hvers konar starfsemi á að reka í Rangárseli. Sigurður Almar er fyrsti og eini einstaklingurinn sem hefur verið vistaður að Rangárseli 16–20. Hann hlaut 12 mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað og margs konar ofbeldisbrot, meðal annars gegn unnustu sinni og starfsmönnum öryggisvistunarinnar í Rangárseli og var honum gert að greiða þeim miskabætur.

Í húsnæðinu er búið að koma fyrir stálhurðum auk þess sem ofnar og innréttingar eru sérstaklega klæddar þannig að ekki sé hægt að skaða sig á þeim. Þá er búið að styrkja gler í húsinu og koma fyrir rimlum. Innandyra eru þrjár myndavélar en talsvert fleiri utan hússins.
Öryggisfangelsi Í húsnæðinu er búið að koma fyrir stálhurðum auk þess sem ofnar og innréttingar eru sérstaklega klæddar þannig að ekki sé hægt að skaða sig á þeim. Þá er búið að styrkja gler í húsinu og koma fyrir rimlum. Innandyra eru þrjár myndavélar en talsvert fleiri utan hússins.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sigurður Almar réðst tvisvar gegn starfsmönnum að Rangárseli. Fyrri árásin átti sér stað um miðjan dag, þriðjudaginn 14. júní, þegar Sigurður Almar var nýfluttur inn í öryggisvistunina. Starfsmennirnir, sem voru þrír saman, tilkynntu þá skjólstæðingi sínum að hann þyrfti að greiða húsaleigu og matarkostnað. Því tók Sigurður Almar illa og réðst hann að starfsmönnunum með grófu ofbeldi. Meðal annars skallaði hann einn þeirra og lét högg og spörk dynja á öllum þremur. Tveir starfsmenn náðu við illan leik að læsa Sigurð Almar inni. Það fór þó ekki betur en svo að þriðji starfsmaður varð eftir í rýminu með Sigurði Almari sem réðst að viðkomandi með höggum og hrákum. Loks tókst að bjarga þessum starfsmanni frá vistmanninum en allir þrír starfsmennirnir þurftu að leita sér læknisaðstoðar eftir árásina.

Tveimur dögum síðar varð önnur uppákoma þar sem Sigurður Almar sturlaðist í íbúð sinni vegna ósættis varðandi lyfjagjöf. Réðst hann með afli á stálhurð sem skildi vistarverur hans og aðstöðu starfsmanna að. Í dómnum kemur fram að hurðin hafi verið við það að gefa sig og dyrakarmurinn hafi verið nálægt því að losna. Starfsmennirnir hafi lagst á hurðina til þess að varna því að Sigurður Almar brytist í gegn. Meðan á þessu stóð á ofbeldismaðurinn að hafa kallað ókvæðisorð að starfsmönnum, meðal annars að hann hafi ætlað að „stúta“ þeim. Í báðum tilvikum var lögreglan kölluð á vettvang og horfðu íbúar í hverfinu á Sigurð Almar dreginn út í járnum.

Tilraun í íbúðabyggð sem misheppnaðist

Fyrsti vistmaðurinn á Rangárseli. Hann hlaut nýlega 12 mánaða fangelsisdóm, meðal annars fyrir ofbeldi gegn starfsmönnum.
Sigurður Almar Sigurðsson Fyrsti vistmaðurinn á Rangárseli. Hann hlaut nýlega 12 mánaða fangelsisdóm, meðal annars fyrir ofbeldi gegn starfsmönnum.

Þá kemur fram Sigurður Almar hafi glímt við mikla erfiðleika frá unga aldri. Í áliti geðlæknis kemur fram að hann hafi upphaflega stutt eindregið þær hugmyndir að honum yrði fundin vist í öryggisvistuninni að Rangárseli sem Reykjavíkurborg hafi verið með í undirbúningi. Þessi tilraun hafi hins vegar ekki gengið upp og hann teldi rétt að Sigurður Almar yrði vistaður í fangelsi þar til dómur yrði á enda runninn. Dómurinn tók undir það.

Óvíst er hvort félagsmálayfirvöld taki tillit til þess álits. Í dómsorði kemur fram að verið sé að koma fyrir öflugri stálhurð en þeirri sem fyrir var, húsgögn yrðu fest við gólf og þá væri starfsfólk að sækja námskeið í sjálfsvörn hjá Mjölni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Danska pressan segir að markvarðaskiptin hafi ráðið úrslitum í erfiðum leik

Danska pressan segir að markvarðaskiptin hafi ráðið úrslitum í erfiðum leik
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjarta þjóðarinnar slær með strákunum á ögurstundu – Þetta hafði fólk að segja um leikinn við Dani

Hjarta þjóðarinnar slær með strákunum á ögurstundu – Þetta hafði fólk að segja um leikinn við Dani