fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

„Það má enginn líta undan“

Velheppnaður viðburður Lögfræðingafélags Íslands – Agnes og Friðrik hefðu hlotið fangelsisdóma í dag

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 17. september 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um nýliðna helgi stóð Lögfræðingafélag Íslands fyrir afar áhugaverðri uppákomu þegar réttað var á nýjan leik í sakamálunum gegn Agnesi Magnúsdóttur, Friðriki Sigurðssyni og Sigríði Guðmundsdóttur. Agnes og Friðrik voru dæmd til dauða árið 1830, fyrir morðin á Natani Ketilssyni og Fjárdráps-Pétri. Sigríður var einnig dæmd til dauða en var síðar náðuð og dæmd til ævilangrar þrælkunarvinnu. Agnes og Friðrik voru síðan afhöfðuð á hrottafenginn hátt en um var að ræða síðustu aftökurnar á Íslandi. Agnes var 34 ára þegar hún var tekin af lífi en Friðrik aðeins 19 ára gamall.

Vonar að sálfræðingar taki sig til og gefi sitt álit á málinu.
Eyrún Ingadóttir Vonar að sálfræðingar taki sig til og gefi sitt álit á málinu.

Það var Eyrún Ingadóttir, framkvæmdastjóri Lögfræðingafélags Íslands, sem fékk þá hugmynd að rýna í söguslóðirnar með félagsmönnum, fara í vettvangsferð og endurvekja síðan réttarhöldin með nútíma réttarfari. Áhuga Eyrúnar má rekja til þess að hún er frá Hvammstanga og er að auki sagnfræðingur að mennt. „Fyrir nokkrum árum birti tímaritið Saga frábærar greinar eftir virta sagnfræðinga þar sem farið var yfir málið frá mörgum hliðum. Það varð kveikjan að þessari hugmynd sem ég bar undir stjórn félagsins og hlaut góðar undirtektir. Ég er afar ánægð með hvernig til tókst og núna óska ég þess að sálfræðingar landsins leggist yfir dómskjölin og gefi sitt álit á málinu,“ segir Eyrún glaðlega.

Ragnheiður Elín Clausen, Helga Vala Helgadóttir, Sólveig Pétursdóttir og Jóhanna Vigdís Arnardóttir voru ánægðar með hvernig til tókst.
Hlýddu á réttarhöldin Ragnheiður Elín Clausen, Helga Vala Helgadóttir, Sólveig Pétursdóttir og Jóhanna Vigdís Arnardóttir voru ánægðar með hvernig til tókst.

Taldi lærbrotið vera happ

Einn áhrifamesti viðburður dagsins var framsögn Magnúsar Ólafssonar, fyrrverandi bónda á Sveinsstöðum, á vettvangi aftökunnar, við Þrístapa í Vatnsdal. Fyrir utan þá staðreynd að Magnús hefur alla tíð alið manninn í sveitinni þar sem harmleikurinn átti sér stað þá tengist hann málinu á sérstakan hátt. Afi hans og faðir fundu höfuðkúpur og bein Agnesar og Friðriks eftir að maður að nafni Guðmundur Hofdal hafði fengið hjálparbeiðni að handan frá Agnesi sjálfri. Með leiðsögn Guðmundar fundust beinin fljótt en þau höfðu horfið eftir aftökuna.

Að sögn viðstaddra fór hún á kostum í hlutverki sínu sem saksóknari.
Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari Að sögn viðstaddra fór hún á kostum í hlutverki sínu sem saksóknari.

Þá lýsti Magnús aftökunum sjálfum og hversu mikil raun þær voru fyrir þá sem voru skikkaðir til þess að fylgjast með. Alls voru 150 bændur og vinnumenn úr nærliggjandi sveitum boðaðir á aftökustað og þeir látnir fylgjast með hryllingnum. Afar áhrifarík voru þau orð Magnúsar að ungur maður frá Guðlaugsstöðum í Blöndudal hafi síðar sagt frá því að hans mesta lán í lífinu hefði verið að hestur hans hnaut á leið til aftökunnar með þeim afleiðingum að maðurinn lærbrotnaði. Hann komst því ekki á aftökustað en að telja það lán að lærbrotna árið 1830 þegar lítið var um lækna og lækningar segir ýmislegt um þann hrylling sem þarna átti sér stað.

Alþingismennirnir fyrrverandi, Vigdís Hauksdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, létu sig ekki vanta.
Kjarnakonur Alþingismennirnir fyrrverandi, Vigdís Hauksdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, létu sig ekki vanta.

Þá lét Magnús gesti raða sér í þrefalda röð í kringum ímyndaðan aftökupallinn. Þá varð öllum ljóst hversu nærri menn stóðu þegar höfuð Agnesar og Friðriks fengu að fjúka. Blóð spýttist í allar áttir og hryllingurinn hefur verið óbærilegur. Það var skipun yfirvaldsins að enginn skyldi líta undan. Þegar einn viðstaddra gerði það þá laust sýslumaður hann kinnhesti með hanska sínum og hrópaði: „Það má enginn undan líta.“

Dómar mildaðir

Því næst var ferðinni haldið til Hvammstanga þar sem sjálf réttarhöldin fóru fram en þau voru, að sögn viðstaddra, allt í senn, fræðandi og skemmtileg. Lögmennirnir sem tóku þátt höfðu lagt mikla vinnu í undirbúning sinn en að sama skapi var reglulega slegið á létta strengi. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sóttið málið og fór ákæruvaldið fram á hámarksrefsingu, sextán ára fangelsi fyrir Agnesi og átta ára fangelsi fyrir Friðrik og Sigríði, fyrir morð, brennu og þjófnað.

Leikararnir Jóhann Sigurðarson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir hjálpuðu gestum í réttarsal að fá innsýn í málið.
Lögðu hönd á plóg Leikararnir Jóhann Sigurðarson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir hjálpuðu gestum í réttarsal að fá innsýn í málið.

Guðrún Sesselja Arnardóttir varði Agnesi og Sigríði. Hún fór fram á vægustu mögulegu refsingu og byggði vörnina á því að konurnar hafi búið við heimilis- og kynferðisofbeldi af hendi Natans. Þá hafi aðstöðumunur verið gífurlegur þar sem þær voru í lægsta þrepi samfélagsins. Guðrún Sesselja vísaði í fjölmörg dómafordæmi þar sem slíkar aðstæður leiddu til refsilækkunar. Gestur Jónsson varði Friðrik af krafti og benti meðal annars á ungan aldur hans og skýlausa játningu. Þessi atriði voru síðan metin til refsilækkunar og hlaut Agnes fjórtán ára dóm fyrir sína aðild að málinu en Friðrik sjö ára fangelsi. Sigríður, sem aðeins var sextán ára gömul, hlaut fimm ára dóm.

Gestur Jónsson og Ólafur Haukur hafa marga hildina háð í dómsal í tengslum við ýmis sakamál. Oft hafa þung orð fallið en kollegarnir heilsuðust kumpánalega á Hvammstanga.
Sögulegt handaband Gestur Jónsson og Ólafur Haukur hafa marga hildina háð í dómsal í tengslum við ýmis sakamál. Oft hafa þung orð fallið en kollegarnir heilsuðust kumpánalega á Hvammstanga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar