fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Inga Sigrún Atladóttir: Sumir innflytjendur með ólíðandi viðhorf til heimilisofbeldis

Hefur upplifað nýnasisma en engan íslamisma á Akureyri – Fékk ofanígjöf fyrir pistil um innflytjendamál

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 25. júní 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef í nokkrum tilvikum orðið vör við viðhorf hjá innflytjendum sem eru ósamrýmanleg okkar grunngildum. Mér dettur t.d. í hug ólík viðhorf gagnvart heimilisofbeldi og ofbeldi gagnvart börnum. Mér dettur líka í hug ólík viðhorf um hlutverk kynjanna og mikið valdaójafnvægi sem ég hef stundum orðið vör við,“ segir Inga Sigrún Atladóttir, skólastjóri við Álfaborg/Valsársskóla.

Inga Sigrún segir að mikilvægt sé að ræða mál af þessu tagi hreinskilnislega við innflytjendur og gera þeim ljóst hvaða lög og venjur ríkja á Íslandi:

„Ræða á hreinskilinn hátt að á Íslandi sé ofbeldi gagnvart barni eða maka ólöglegt og tilkynningaskylt og láta vita að allt slíkt sé tilkynnt til barnaverndarnefndar. Líka er mikilvægt að upplýsa um að barnaverndarnefnd sé aðili sem sé í stakk búinn til að leiðbeina þeim og styrkja í því uppeldi sem tíðkast hér á landi. Varðandi viðhorf til kynjanna er líka mikilvægt að láta vita ef okkur er brugðið vegna þess hvernig faðir talar við móður eða bróðir við systur. Ekki vegna þess að við séum eitthvað betri – heldur bara til þess að innflytjendur geri sér grein fyrir þessum óskrifuðu reglum í okkar samfélagi og geti þá tileinkað sér þær. Það er mín reynsla að innflytjendur séu í meira mæli en Íslendingar tilbúnir að taka slíkum leiðbeiningum og breyta hegðun sinni í átt að því sem kemur öllum vel.“
Inga Sigrún segir jafnframt verða vör við gildi hjá innflytjendum sem séu til fyrirmyndar:

„Ég hef oft rekið mig á að innflytjendur búa að grunngildum sem við gætum vel tekið upp eftir þeim. Þeir eru oft mjög samviskusamir með það sem þeim er ætlað að gera og halda oft mikilli tryggð við þá sem reynast þeim vel. Þeir bera oft mjög mikla virðingu fyrir námi og skólastarfinu almennt sem stundum skortir aðeins á í íslenskri menningu. En auðvitað er ekki hægt að alhæfa um hópa, Íslendingar eru misjafnir og innflytjendur eru misjafnir – það er kjarni málsins.“

Eiginmaðurinn varð fyrir fordómum

Skólinn sem Inga Sigrún stýrir er sameinaður leik-, grunn- og tónlistarskóli á Svalbarðseyri en sjálf býr hún á Akureyri og er í skólanefnd fyrir hönd VG. Inga Sigrún hefur lengi haft áhuga á málefnum innflytjenda, ekki síst vegna reynslu sinnar af því að vera í hjónabandi með erlendum manni og þekkir hún kynþáttafordóma á Íslandi af eigin raun:

„Ég var gift erlendum manni í 16 ár og hann er mjög ólíkur hinum venjulega Íslendingi í útliti. Á þeim árum tók ég margoft eftir fordómum í hans garð og barnanna okkar. Þessir fordómar voru ekki endilega svo greinilegir á yfirborðinu heldur komu frekar fram yfir lengri tíma. Maðurinn minn átti t.d. alltaf erfitt með að mynda djúp vinatengsl við Íslendinga sem varð til þess að hans bestu vinir á íslandi voru yfirleitt af erlendu bergi brotnir. Ég tók nokkrum sinnum eftir því að hann varð fyrir því að talað var niður til hans eða honum sýnd valdníðsla og fordómar beinlínis vegna þess að hann var ekki íslenskur. Fólk missir líka oft úr úr sér í hugsunarleysi eitthvað sem bendir til þess að því þyki útlendingar á einhvern hátt hættulegir íslenskri menningu.“

Meira frjálsræði á Íslandi en í löndum flestra innflytjenda

Inga Sigrún birti um daginn pistil um innflytjendamál á Akureyri í Akureyri Vikublað og á Eyjunni sem vakti töluverða athygli. Reifaði hún þar niðurstöður rannsóknar um aðlögun innflytjenda í grunnskólum á Akureyri sem Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við HÍ, kynnti á skólanefndarfundi. Í pistlinum segir Inga Sigrún áhugaverðar mótsagnir koma fram í niðurstöðum rannsóknarinnar:

„Innflytjendum er vel tekið í skólum á Akureyri…… en þó eru samskipti heimilis og skóla treg. Foreldrar eru jákvæðir gagnvart skólanum…..en þó er íslenskt skólastarf mörgum foreldrum erlendra barna framandi. Það ríkir traust milli skólanna á Akureyri og foreldra barna af erlendum uppruna…….en þó hefur skortur á samtali og vantraust á skólanum hindrað foreldra í að fylgjast með námi barna sinna. Starfsfólk skólanna er jákvætt gagnvart innflytjendunum og foreldrum þeirra…… en telja sig þó skorta bæði hvatningu og heildarsýn til að sinna verkefninu sem skyldi.“

Inga Sigrún segir jafnframt í pistlinum að niðurstöðurnar sýni að nú sé mikilvægt að grípa í taumana, koma í veg fyrir síbreikkandi bil milli innflytjenda og íslenskra skólanemenda og stýra þróuninni þannig að hún verði samfélaginu hagstæð.

Um þetta segir hún við dv.is: „Þetta finnst mér t.d. koma fram í því að íslenska skólakerfið er ekki útskýrt nógu vel fyrir foreldrum, heimanámið er ekki útskýrt nógu vel og til hvers er ætlast af foreldrum. Kennarar fá ekki stuðning til að sinna þessu eins vel og þeir þurfa, því auðvitað verður að vera skilningur á því hjá skólayfirvöldum að svona flókin mál taka tíma frá öðru. Það þarf heildarsýn, stuðning og tíma til að byggja markvisst upp góð tengsl við foreldra barnanna því þarna er mikilvægt tækifæri til að ná til þessa fólks. Sem undantekningalítið er allt af vilja gert.“

Gott starf hjá Alþjóðastofu

Inga Sigrún segir að Akureyri hafi sýnt mikinn metnað í því að taka vel á móti innflytjendum og flóttamönnum og hafi það meðal annars sýnt sig er tekið var á móti hópum sýrlenskra flóttamanna í fyrra og á þessu ári. Nefnir hún starf Alþjóðastofu á Akureyri sem sé mjög gott og þar vinni frábært fólk: „Þar er upplýsingaþjónusta og ókeypis ráðgjöf um ýmis mál sem brenna á innflytjendum. Innflytjendurnir sjálfir fá mikið að ráða þjónustunni og starfsfólkið er vakandi fyrir því að það sé að þjónusta fólkið en ekki að stofnunin lifi sínu eigin lífi – ef svo má að orði komast. Það var mikil jákvæðni ríkjandi í samfélaginu þegar við tókum við hópnum frá Sýrlandi og margir sjálfboðaliðar buðu sig fram. Þess vegna gátum við haft fleiri stuðningsfjölskyldur fyrir hverja innflytjendafjölskyldu.“

„Hópar sem kannski eru ekki endilega fjölmennir hafa verið að halda uppi nasískum hreinleikaáróðri og talað gegn þeim sem eru af erlendum uppruna.“

Nýnasískar tilhneigingar meðal nemenda í Verkmenntaskólanum

Hryðjuverk íslamskra öfgamanna og öfgafull viðhorf meðal minnihluta múslímskra innflytjenda í Evrópu eru vandamál sem hafa verið mikið í fréttum undanfarið. Aðspurð hvort hún hafi orðið vör við íslamska öfgahyggju meðal einhverra múslímskra innflytjenda á Akureyri segir Inga Sigrún svo ekki vera:

„Ég hef aldrei orðið vör við slíkt meðal innflytjenda á Akureyri. Mín reynsla er sú að fólkið reynir eins og það getur að aðlagast og læra og vill kynnast því sem Ísland hefur uppá að bjóða. Kannski eru of fáir innflytjendur á Íslandi svo að slíkar hugmyndir geti verið áberandi og skotið rótum hér, en ég hef allavega aldrei séð neinn vott af slíku.“

Á hinn bóginn hefur Inga Sigrún orðið vör við útlendingaandúð og rasíska tilburði hjá vissum hópum á Akureyri:
„Ég hef hins vegar orðið vör við það að ákveðin öfgahyggja hefur sprottið upp í hópum íslenskra unglinga og líka stundum hjá eldra fólki. Hópar sem kannski eru ekki endilega fjölmennir hafa verið að halda uppi nasískum hreinleikaáróðri og talað gegn þeim sem eru af erlendum uppruna. Ég veit t.d. að í bekk sonar míns í Verkmenntaskólanum þurfti að vinna að sérstöku átaki til að berjast gegn slíkri hugmyndafræði hjá ungum piltum á síðasta ári – það var t.d. það slæmt að sonur minn skipti um deild því honum leið illa í því andrúmslofti þar sem litið var á litað fólk sem annars flokks þegna. Ég vil þó taka fram að yfirleitt eru þetta fámennir hópar og í þessu tilviki gerði Verkmenntaskólinn allt sem í þeirra valdi stóð til að kveða þetta niður – en án árangurs þó.“

Fékk ofanígjöf vegna pistilsins

Sem fyrr segir vakti pistill Ingu Sigrúnar mikla athygli en hann hefur ekki mælst vel fyrir hjá fræðsluyfirvöldum á Akureyri. Hefur henni meðal annars verið tjáð að Hermína Gunnþórsdóttir lektor sé ósátt við framsetninguna og að ekki hafi verið meiningin að sagt yrði frá rannsóknarniðurstöðunum opinberlega. Í svarbréfi sínu við bréfi frá fræðsluyfirvöldum segir Inga Sigrún hins vegar meðal annars:

„Ég lít þó á að gögn sem þessi sem lögð eru fram í nefndum séu opinber sjöl og sem slík til umræðu eins og hverjum þóknast. Í greininni minni segi ég frá minni upplifun af niðurstöðum hennar og þar sem trúnaður var ekki nefndur í framsögu hennar og hún sjálf hvatti okkur til að setja málið á dagskrá fannst mér eðlilegt að vekja athygli á málinu. Í gögnum kemur ekkert fram annað en að rannsókninni sé lokið og því ekki um nein drög að ræða.“

DV hafði samband við Hermínu og bað hana um að reifa niðurstöðurnar en hún telur ekki tímabært að fjalla um þær í fjölmiðlum. Hermína segir:

„Okkar rannsókn tekur til mjög afmarkaðs og lítils hóps, kennara og foreldra barna af erlendum uppruna á Akureyri, hún er eigindleg og hefur því ekki alhæfingargildi og er varla efni í mikla blaðaumfjöllun. Við erum ennþá að vinna með niðurstöðurnar og gera þær birtingarhæfar, en ég hef kynnt valdar niðurstöður fyrir fræðslustjóra, skólastjórum og fræðsluráði Akureyrarbæjar. Fræðsluráð hefur bókað að fela sviðsstjóra fræðslusviðs að hefja samtal innan skólanna um niðurstöður rannsóknarinnar með það að markmiði að auka enn frekar vitund og samvinnu um kennslu innflytjenda í leik- og grunnskólum Akureyrar.

Inga Sigrún valdi að nota titilinn „Innflytjendavandinn“ á Akureyri í pistli sínum á Eyjunni þegar hún lagði út af kynningu minni í fræðsluráði. Það eru ekki mín orð né sú framsetning sem ég hef notað í að kynna niðurstöðurnar fyrir fræðsluráði.“

Vill bæta stöðu innflytjenda og auka stuðning við þá í skólakerfinu

Inga Sigrún segist hins vegar standa við allt sem hún sagði í pistlinum. Það er líka ljóst að hún hefur margt jákvætt að segja um stöðu innflytjendamála á Akureyri en finnst mikilvægt að koma þessum málaflokki almennilega á dagskrá í umræðunni. Hún hefur ekki síst áhyggjur af fordómum í garð innflytjenda:

„Mér finnst vænt um að á Íslandi hafa öfgahyggja og rasismi ekki náð fótfestu í samfélaginu. Ég hef þó alvöruáhyggjur af því að svo geti farið ef við förum ekki að setja þetta mál á dagskrá þannig að rætt sé um dulda fordóma, raunverulegar rætur þess að aðlögun á sér ekki stað og hvers vegna t.d. brottfall innflytjenda er mikið í framhaldsskólum. Hvers vegna innflytjendur eru svo margir í neðstu tekjuhópunum og hvernig við viljum breyta því. Hvernig við getum stuðlað að því að innflytjendur geti nýtt menntun sína og hæfileika til jafns við þá sem fæddir eru á Íslandi. Það vantar dálítið upp á það núna.“

Hún segir jafnframt að verk sé að vinna í skólakerfinu með tilliti til innflytjenda:

„Við þurfum líka að nýta skólakerfið miklu betur fyrir innflytjendabörn og fjölskyldur þeirra. Við þurfum að viðurkenna að þær breytingar sem hafa orðið á síðustu árum vegna aukinnar fjölbreytni í nemendahópnum og nýrra kennsluhátta kallar á mun meiri stuðning inn í skólakerfið. Kennarar sem kenna blönduðum nemendahópum telja að starf sitt hafi tekið veruleikum breytingum síðustu ár og verði sífellt flóknara. Menningarleg fjölbreytni eykur álagið bæði á kennara og nemendur sem birtist m.a. í því að margir erlendir nemendur eiga í erfiðleikum með að tengjast íslenskum skólafélögum og með það vandamál þarf að vinna að í fullri alvöru. Kennarar eru í lykilhlutverki til að bregðast við flóknum félagslegum vanda nemenda sinna og því þurfa þeir að hafa bæði þekkingu og tíma til að tryggja að nemendum líði vel og þeir geti í öllum tilvikum nýtt hæfieika sína til góðs.

„Það eru svo margar vísbendingar um að við séum ekki að leggja nógu mikla og nógu góða vinnu í þessi mál en treystum því bara að þetta reddist einhvern veginn. Við verðum að skilja að í erlendu fólki er hafsjór af hæfileikum og sjónarhornum sem við sem samfélag yrðum svo rík ef við gætum nýtt okkur. Það væri líka svo gott fyrir okkur öll ef við gætum horft framhjá okkar eigin fordómum og óöryggi og kynnst innflytjendum eins og þeir eru á þeim forsendum sem þeir byggja líf sitt á.“

Almenn ánægja meðal innflytjenda og Akureyringa

Þess má að lokum geta að rannsókn sem framkvæmd var árið 2016 leiðir í ljós almennt mjög jákvætt viðhorf Akureyringa gagnvart flóttafólki og innflytjendum. Sjá nánar hér. Jafnframt leiðir könnun frá 2015 í ljós mikla ánægju útlendinga sem búsettir eru á Akureyri, eins og RÚV greindi frá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar