fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Nýtir sér neyðina og selur líffæri úr fólki

Svartamarkaðsbrask með líffæri eykst – Skjótfenginn gróði fyrir flóttamenn í fjötrum fátæktar

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 29. apríl 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég nýti mér neyð fólks en á sama tíma hagnast það einnig,“ segir Abu Jaafar, ungur karlmaður sem búsettur er í Beirút, höfuðborg Líbanons. Abu þessi hefur lifibrauð sitt af því að sýsla með líffæri á svörtum markaði og nýtir hann sér neyð fólks, einkum og sér í lagi flóttamanna.

Síðan borgarastyrjöldin braust út í Sýrlandi hafa hundruð þúsunda Sýrlendingar flúið yfir landamærin til Líbanons. Breska ríkisútvarpið, BBC, ræddi við Abu fyrir skemmstu. Tekið er fram í umfjölluninni að Abu sé ekki hans rétta nafn og þá vildi Abu ekki þekkjast á mynd. Ástæðan er einföld: Svartamarkaðsbrask með líffæri er lögbrot og Abu væri í vondum málum ef upp um hann kæmist.

Ólöglegt, en hjálpar fólki

„Ég veit að það sem ég geri er ólöglegt en ég er að hjálpa fólki. Ég lít þannig á það,“ segir Abu en hann starfaði sem öryggisvörður áður en hann komst í kynni við hóp manna sem kaupa líffæri af flóttamönnum. Hann hefur aðstöðu undir vinnu sína í bakherbergi lítils kaffihúss í úthverfi Beirút. Þar hefur hann samið um kaup og sölu á líffærum yfir þrjátíu einstaklinga á síðustu þremur árum. „Flestar beiðnirnar snúa að því að útvega nýru, en ég get einnig útvegað önnur líffæri,“ segir hann og bætir við að eitt sinn hafi hann verið beðinn um að útvega auga. Abu fór á stúfana og fann skjólstæðing sem var tilbúinn að selja úr sér annað augað.

Hér má sjá einn ungan mann sem lét fjarlægja annað nýrað úr sér. Fyrir það fékk hann rúmar 850 þúsund krónur.
Aðgerð Hér má sjá einn ungan mann sem lét fjarlægja annað nýrað úr sér. Fyrir það fékk hann rúmar 850 þúsund krónur.

Engra annarra kosta völ

Líbanon er ekki sérstaklega fjölmennt ríki, en talið er að íbúar þess séu rúmlega sex milljónir. Sýrlendingar í landinu eru taldir vera allt að ein og hálf milljón talsins sem þýðir að hátt í fjórðungur íbúa landsins er frá Sýrlandi. Þá eru margir flóttamenn frá Palestínu í landinu, einstaklingar sem voru með stöðu flóttamanna í Sýrlandi en flúðu borgarastyrjöldina þar. Þar sem þetta fólk var þegar með stöðu flóttamanns í Sýrlandi gat það ekki fengið skráningu sem flóttamaður í Líbanon og þar af leiðandi ekki fengið atvinnuleyfi. „Þeir sem hafa ekki stöðu flóttamanns eru í mestri neyð. Hvað getur þetta fólk gert? Sumir eiga engra annarra kosta völ en að selja úr sér líffæri,“ segir Abu. Aðrir, sér í lagi börn, sjá fyrir sér með betli, önnur pússa skó eða selja tyggjó. Þá eru þess mýmörg dæmi að fólk hafi leiðst út í vændi. Öruggasta leiðin til að fá borgað hratt og örugglega er með sölu líffæra.

„Það hefur aldrei verið meira að gera.“

Alveg sama um viðkomandi

Í umfjöllun BBC sagði Abu að þegar hann finni hentugan kandídat sé viðkomandi ekið á afvikinn stað þar sem aðgerðin fer fram. Læknar sjá um skurðaðgerðina og að henni lokinni ekur Abu með sjúklingana til baka. „Ég fylgist með þeim í viku eftir aðgerðirnar en þegar búið er að fjarlægja saumana hætti ég öllum afskiptum af viðkomandi. Mér er í raun alveg sama hvað verður um viðkomandi, hvort hann lifi eða deyi,“ segir hann.

Fékk 850 þúsund fyrir nýrað

Síðasti skjólstæðingur Abu var 17 ára sýrlenskur piltur sem yfirgaf heimaland sitt eftir að faðir hans og bróðir voru drepnir. Pilturinn hefur verið í Líbanon í þrjú ár án vinnu. Með aðstoð Abu Jaafar gat pilturinn selt úr sér hægra nýrað fyrir upphæð sem nemur rúmum 850 þúsund krónum – sem er stórfé í Líbanon. Sjálfur segist Abu ekki vilja gefa upp hvað hann fær út úr viðskiptunum, en gera má ráð fyrir að hann fái vel greitt enda er áhættan talsverð. Þá kveðst hann ekki vita hvað verður um líffærin en segist gera ráð fyrir að þau séu seld til sjúklinga erlendis. „Það hefur aldrei verið meira að gera,“ segir hann og ítrekar að enginn sé neyddur til að selja úr sér líffæri. Hann sé aðeins milliliður og hjálpi þeim sem eiga bágt til að ná endum saman – jafnvel þótt fórnarkostnaðurinn geti verið mikill.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni