fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Ólafur tjáir sig um tíðindi dagsins: „Ríkið bar ekki skertan hlut frá borði“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 29. mars 2017 17:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í ljósi þess að Rannsóknarnefnd Alþingis hefur birt skýrslu um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands í ársbyrjun 2003 tel ég mikilvægt að fram komi eftirfarandi:“

Þannig hefst yfirlýsing frá Ólafi Ólafssyni fjárfesti vegna tíðinda dagsins. Rannsóknarnefnd Alþingis greindi frá því fyrr í dag í glænýrri skýrslu um söluna á Búnaðarbankanum að stjórnvöld hefðu verið skipulega blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar. Þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hefði í reynd aldrei verið fjárfestir í bankanum, þó 45,8% hlutur ríkisins í Búnaðarbankanum hafi verið seldur félaginu í janúar 2003. Það sé þvert á það sem haldið var fram frá upphafi. Sagði rannsóknarnefndin að gögn sýndu slíkt með óhyggjandi hætti „að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu.“

Sjá einnig: Bakkabræður tengdust Búnaðarbankafléttu

Vakti fréttin mikla athygli og sagði Valgerður Sverrisdóttir, sem var ráðherra bankamála þegar Búnaðarbankinn var seldur árið 2003 í samtali við DV:

„Ég held að öll þjóðin standi á öndinni [ … ] Maður trúði því lengi vel að þetta hefðu verið eðlileg viðskipti. Maður hafði engar aðrar upplýsingar.“

Valgerður benti á að stjórnvöld hefðu fengið alþjóðlegt fyrirtæki, HSBC, til að ráðleggja sér varðandi söluna.

„Og við greiddum fúlgur fjár fyrir þær ráðleggingar. En þetta virðist ekkert hafa verið skoðað.“

Þá hefur Geir H. Haarde fyrrverandi fjármálaráðherra sagt að málið sé dapurlegra en orð fá lýst og að stjórnvöld hefðu ekki getað varist blekkingum.

Yfirlýsing Ólafs

Ólafur Ólafur hefur nú sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem hann rekur sína hlið og hvernig málið allt horfir við honum. Hann kveðst þó þurfa tíma til að kynna sér skýrsluna betur. Hann hefur þó ýmislegt við rannsóknina að athuga. Ólafur segir:

„Bjóðendur voru metnir af HSBC bankanum, sem var ríkinu til ráðgjafar, og kom S-hópurinn best út úr því mati. Hann fékk flest stig og tekið var fram að það væri óháð hugsanlegri erlendri þátttöku í kaupunum. Það er í samræmi við bókuð ummæli Ólafs Davíðssonar, formanns einkavæðingarnefndar á fundi nefndarinnar 28. ágúst 2002, að ekki væri áskilið að erlendir aðilar kæmu að viðskiptunum. Það er óábyrgt af Kjartani Bjarna Björgvinssyni, stjórnanda rannsóknarinnar, að segja að erlend aðkoma hafi verið grundvallarforsenda þegar það liggur alveg ljóst fyrir að hún var ekki skilyrði.“

Sjá einnig: Æfingabúðir fyrir Al-Thani fléttuna

Þá segir Ólafur:

„Í framhaldi var gerður kaupsamningur eins og komið hefur fram. Kaupverð samkvæmt kaupsamningnum var að fullu greitt til íslenska ríkisins og staðið við öll þau skilyrði, sem sett voru í samningnum. Ríkið bar ekki skertan hlut frá borði, eins og einhver kynni að álykta af umræðu um skýrsluna fyrr í dag.“

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:

Yfirlýsing frá Ólafi Ólafssyni:

Í ljósi þess að Rannsóknarnefnd Alþingis hefur birt skýrslu um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands í ársbyrjun 2003 tel ég mikilvægt að fram komi eftirfarandi:

S-hópurinn með hæsta boðið

S-hópurinn var með hæsta boð í 45,8% hlut í Búnaðarbankanum í ársbyrjun 2003. Bjóðendur voru metnir af HSBC[1] bankanum, sem var ríkinu til ráðgjafar, og kom S-hópurinn best út úr því mati. Hann fékk flest stig og tekið var fram að það væri óháð hugsanlegri erlendri þátttöku í kaupunum. Það er í samræmi við bókuð ummæli Ólafs Davíðssonar, formanns einkavæðingarnefndar á fundi nefndarinnar 28. ágúst 2002, að ekki væri áskilið að erlendir aðilar kæmu að viðskiptunum. Það er óábyrgt af Kjartani Bjarna Björgvinssyni, stjórnanda rannsóknarinnar, að segja að erlend aðkoma hafi verið grundvallarforsenda þegar það liggur alveg ljóst fyrir að hún var ekki skilyrði.

Í framhaldi var gerður kaupsamningur eins og komið hefur fram. Kaupverð samkvæmt kaupsamningnum var að fullu greitt til íslenska ríkisins og staðið við öll þau skilyrði, sem sett voru í samningnum. Ríkið bar ekki skertan hlut frá borði, eins og einhver kynni að álykta af umræðu um skýrsluna fyrr í dag.

Ríkið fékk allt sitt greitt

Óumdeilt er að ríkið gekk til samninga við hæstbjóðendur, fékk kaupverð að fullu greitt, sem á endanum var hærra en upphaflegt kauptilboð hljóðaði upp á. Kjartan Bjarni Björgvinsson staðfesti aðspurður á blaðamannafundi í Iðnó að nefndin ályktaði ekki sem svo að ríkið hefði skaðast í viðskiptunum.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er lýst aðkomu þýska bankans að kaupum á 16,28% hlut í Búnaðarbankanum í gegnum Eglu hf. Samkvæmt lögum var þýski bankinn lögmætur hluthafi í Eglu hf., hann innti af hendi hlutafjárframlag sitt eins og áskilið var og bar skyldur samkvæmt gerðum samningum.

Það sem á fundi rannsóknarnefndar voru nefndir baksamningar voru samningar milli einkaaðila og höfðu engin áhrif á niðurstöðu í sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum. Hvorki ríkissjóður né almenningur voru verr settir vegna þessara samninga, sem rannsóknarnefndin kýs að kalla blekkingu. Samningarnir, eins og þeim er lýst í skýrslunni, snúa að fjármögnun á hlut Hauck & Aufhäuser í þessum viðskiptum, áhættu og hvernig hagnaði, ef af yrði en ekkert lá fyrir um, væri skipt. Hagnaðurinn kom til vegna hækkunar á hlutabréfaverði á tveggja ára tímabili en ekki vegna meintra blekkinga.

Til að koma í veg fyrir ágreining um eignasölu ríkisins í 15 ár eins og í þessu tilfelli skulu stjórnvöld standa þannig að málum, bæði gagnvart kaupendum og almenningi, að leikreglur séu fyrir fram ákveðnar og atriði, sem ekki skipta máli, verði ekki gerð að aðalatriðum máls síðar.

Að svo stöddu mun ég ekki tjá mig nánar um efni skýrslunnar fyrr en ég hef haft tækifæri til að kynna mér efni hennar og forsendur betur.

([1]) Í niðurstöðu HSBC segir m.a: „In making the assessment, the uncertainty surrounding the involvement of the international financial institution(s) has been taken into account and it has been concluded that the S-Group submission is marginally more attractive, even in the event that an equity investment by an international financial institution would not be part of the final deal.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum