fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Bakkabræður tengdust Búnaðarbankafléttu

Líklegt að Lýður og Ágúst Guðmundssynir hafi átt félag sem tengdist leynisamningum

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 29. mars 2017 13:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leiða má að því líkur að aflandsfélagið Jeff Agents Corp. hafi verið í eigu þeirra bræðra Lýðs og Ágústs Guðmundssona, oftast kenndra við Bakkavör. Jeff Agents eignaðist Welling & Partners, afalndsfélagið sem var raunverulegur eigandi þess hlutar Búnaðarbankans sem þýski bankinn Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu. Snemma árs 2006 greiddi Welling & Partners 46, 5 milljónir Bandaríkjadala til enn eins aflandsfélagsins, Dekhill Advisors Limited, sem skráð var á Tortóla, líkt og Welling & Partners. Slóðin endar þar, rannsóknarnefnd Alþingis um söluna á Búnaðarbankanum gat ekki með óyggjandi hætti fullyrt um hverjir eigendur Dekhill voru eða hverjir nutu hagsbóta af fjármununum.

Óvíst hvert helmingur peninganna fór

Líkt og fram hefur komið var aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósenta hlut í Búnaðarbankanum blekking ein og raunverulegur eigandi hlutar bankans var Welling & Partners. Leynilegir baksamningar gerðu það að verkum að snemma árs 2006 voru 57,7 milljónir Bandaríkjadala greiddir af reikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited, stofnaðs af Mossack Fonseca í Panama og skráðs á Tortóla, en Ólafur Ólafsson, oftast kenndur við Samskip, var raunverulegur eigandi þess félags. Þeim fjármunum var komið í fjárfestingu í dreifðu safni erlendra hlutabréfa.

Hins vegar er óljóst hvað varð um þær 46,5 milljónir Bandaríkjadala sem Welling & Partners greiddi til Dekhill. Sem fyrr segir má leiða líkum að því að þeir Bakkavararbræður Lýður og Ágúst hafi verið raunverulegir eigendur Jeff Agents, sem aftur eignaðist Welling & Partners.

Skjal bendir á Bakkabræður

Meðal gagna rannsóknarnefndarinnar eru tvö skjöl er varða Jeff Agents, með yfirskriftinni „samkomulag við raunverulegan eiganda“. Fyrra skjalið er dagsett 16. september 2002 og undirritað af Karim Van den Ende af hálfu KV Associates S.A. en óundirritað af hálfu Kaupthing Bank Luxembourg S.S. sem raunverulegs eiganda. Van den Ende rak, og rekur enn, fyrirtækjaþjónustu í Lúxemborg sem m.a. útvegar og sýslar með aflandsfélög. Kaupthing Bank Luxemborg (KBL) sótti umtalsverða þjónustu til Van den Ende á því sviði, einkum í gegnum KV Associates S.A. í Lúxemborg.

Seinna skjalið ber með sér að vera samkomulagsdrög, dagsett 29. janúar 2003, milli annars vegar KV Associates S.A. og hins vegar þeirra Lýðs og Ágústs Guðmundssona. Kveða drögin á um að KV Associates stýri félaginu Jeff Agents fyrir raunverulega eigendur, sem þarna eru orðnir Lýður og Ágúst. Drögin eru aðeins undirrituð af Van den Ende en óundirrituð af hálfu þeirra Lýðs og Ágústs.

KBL kaupir hins vegar ekki Jeff Agents fyrr en í byrjun mars 2005 og því ljóst að umrædd samkomulagsdrög eru dagsett tvö til þrjú ár aftur í tímann. Í ljósi þess að þau eru óundirrituð af hálfu raunverulegra eigenda treystir rannsóknarnefndin sér ekki til að draga óyggjandi ályktanir um raunverulegt eignarhald Jeff Agents.

Bera við minnisleysi

Rannsóknarnefndin beindi fyrirspurnum til þeirra Lýðs og Ágústs og kallaði eftir öllum upplýsingum og vitneskju þeirra um Jeff Agents og Dekhill Advisors Limited, þar á meðal raunverulegt eignarhald. Í samhljóða svörum þeirra bræðra kom fram að þá ræki ekki minni til þess er fyrirspurnin tók til.

Jeff Agents eignaðist síðan Welling & Partners gegn greiðslu á 10.000 evrum til annars aflandsfélags, Huntsmead Marketing Limited, fyrir kaupréttinn á Welling & Partners en Huntsmead var sagt 100 prósent eigandi að Welling & Partners. Frá 2. apríl 2004 er Jeff Agents skráð eini eigandi Welling & Partners. Samningurinn er dagsettur aftur í tímann í ljósi þess að KBL keypti Jeff Agents, og raunar einnig Huntsmead, í byrjun mars 2005.

Engar upplýsingar um Dekhill

Welling & Partners greiddu í janúar 2006 46,5 milljónir Bandaríkjadala til Dekhill. Þeir fjármunir voru sendir í gegnum tilgreindan bankareikning í útibúi svissneska bankans Julius Bär & Co í Zürich til endanlegs viðtakanda, Dekhill, hjá útibúi sama banka í Genf. Rannsóknarnefndin fann engar upplýsingar frekar um félagið Dekhill, hvorki um stjórn þess, eignarhald eða afdrif umræddra 46,5 milljóna Bandaríkjadala.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, og Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður nefndarinnar, kynntu skýrslu nefndarinnar um söluna á Búnaðarbankanum í Iðnó í morgun. Niðurstaðan er sú að stjórnvöld, fjölmiðlar og Alþingi hafi verið blekkt.
Blekkingarvefur Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, og Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður nefndarinnar, kynntu skýrslu nefndarinnar um söluna á Búnaðarbankanum í Iðnó í morgun. Niðurstaðan er sú að stjórnvöld, fjölmiðlar og Alþingi hafi verið blekkt.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fengu sinn skerf í gegnum félagið

Rannsóknarnefndin hefur því ekki óyggjandi gögn um hvað varð um þennan hluta hagnaðar af viðskiptum Welling & Partners á grundvelli leynilegra baksamninga um viðskiptin með Búnaðarbankann. Í ljósi þess að rúmur helmingur rann til Marine Choice, og þar með Ólafs Ólafssonar, segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að telja megi ljóst að þeir aðilar „sem njóta áttu þessa hagnaðar á móti Ólafi Ólafssyni hafi fengið skerf sinn í gegnum Dekhill Advisors Ltd. með einhverjum hætti.“ Rannsóknarnefndin setur fram þá afstöðu að „telja megi annað verulega ólíklegt en að sá hagnaður af viðskiptum á grundvelli baksamninganna sem skyldi heyra til Welling & Partners, og var ráðstafað til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Ltd. samkvæmt framangreindu, hafi endanlega runnið til aðila sem tengdust Kaupþingi hf. eða KBL eða að minnsta kosti að starfsmenn Kaupþings hf. og KBL hafi á einhverju stigi haft vitneskju um hverjir nutu þessa ávinnings sem rann til Dekhill Advisors Limited.“

Bakkabræður, Lýður og Ágúst, voru einir helstu eigendur Kaupþings. Í ljósi þess að líkum má einnig leiða til að þeir hafi átt Jeff Agents Corp, félagið sem eignaðist Welling & Partners, sem aftur greiddi Dekhill umræddar 46,5 milljónir Bandaríkjadala, vaknar óhjákvæmilega grunur um að þeir bræður hafi verið meðal þeirra sem fengu, í það minnsta að hluta, þá fjármuni í sinn hlut. Um það er þó ekki hægt að fullyrða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fréttir
Í gær

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi