fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Maðurinn sem er gangandi kraftaverk

Alcides Moreno lifði af fall af 47. hæð – Tæplega tvöföld hæð Hallgrímskirkju

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 16. mars 2017 21:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég elska hreina glugga og mér fannst vinnan mjög skemmtileg. Við byrjuðum efst og fikruðum okkur svo niður,“ segir gluggaþvottamaðurinn Alcides Moreno sem komst í heimsfréttirnar í desember árið 2007 þegar hann lenti í skelfilegu vinnuslysi.

Moreno var við vinnu ásamt bróður sínum við háhýsi í New York, Solow-bygginguna, þegar ósköpin dundu yfir. Þeir voru við 47. hæð hússins þegar vinnupallurinn gaf sig með þeim afleiðingum að þeir bræður féllu til jarðar. Yngri bróðir hans, Edgar, lést samstundis en þótt ótrúlegt megi virðast var Moreno enn með lífsmarki þegar hann var fluttur á sjúkrahús.

Haldið sofandi í þrjár vikur

BBC rifjaði þennan óhugnanlega atburð upp og ræddi við Moreno um lífsreynslu hans. Í umfjöllun BBC kemur fram að fáheyrt sé að einstaklingar lifi af fall af 10. hæð.

Edgar og Moreno voru mjög nánir. Þeir deildu sömu áhugamálum, bjuggu saman um tíma auk þess að vinna saman.
Nánir bræður Edgar og Moreno voru mjög nánir. Þeir deildu sömu áhugamálum, bjuggu saman um tíma auk þess að vinna saman.

En Moreno féll eins og áður greinir af 47. hæð hússins og slasaðist býsna alvarlega; hann hlaut mikla og alvarlega höfuðáverka, rifbeinsbrot, fótbrot, handleggsbrot auk þess sem hann hryggbrotnaði. Honum var haldið sofandi á sjúkrahúsi í þrjár vikur eftir slysið. Á þeim tæpu tíu árum sem liðin eru frá slysinu hefur Moreno þó náð undraverðum bata.

144 metra fall

Þessi dagur, 7. desember 2007, hófst í raun eins og aðrir dagar hjá þeim bræðrum. Þeir tóku lyftu upp á efstu hæð Solow-byggingarinnar og komu sér því næst fyrir á vinnupallinum. Þegar þeir voru tiltölulega nýbyrjaðir gáfu öryggisfestingar sig með fyrrgreindum afleiðingum. Talið er að fallið hafi verið 144 metrar en til samanburðar er Hallgrímskirkjuturn 74,5 metrar. Og útreikningar gáfu til kynna að yngri bróðir hans, Edgar, hafi verið á 190 kílómetra hraða þegar hann skall til jarðar. Moreno virðist hafa farið hægar þar sem honum tókst að skorða sig við vinnupallinn þegar slysið varð.

Bræðurnir voru við 47. hæð hússins þegar ósköpin dundu yfir. Talið er að fallið hafi verið um 144 metrar.
Hátt fall Bræðurnir voru við 47. hæð hússins þegar ósköpin dundu yfir. Talið er að fallið hafi verið um 144 metrar.

Æðri máttarvöld?

Í umfjöllun BBC kemur fram að Moreno hafi reynt að standa upp eftir slysið, en ekki haft erindi sem erfiði. Hann gekkst undir nokkrar aðgerðir, meðal annars uppskurð á höfði til að minnka bólgumyndun í heilanum. Fyrstu dagana eftir slysið var mjög tvísýnt um líf hans en þvert á allar væntingar náði Moreno bata. Dr. Herbert Pardes, forstjóri New York-Presbyterian-sjúkrahússins, sagði við blaðamenn á sínum tíma að það gengi kraftaverki næst að læknum hafi tekist að bjarga lífi Moreno. „Lífslíkur eftir fall af fjórðu hæð eru ekki ýkja miklar,“ sagði Glenn Asaeda hjá slökkviliði New York-borgar. „Þarna virðast æðri máttarvöld hafa gripið inn í,“ bætti hann við.

Ýmsar vangaveltur

Það var svo á jóladag árið 2007 að Moreno vaknaði á sjúkrahúsinu með eiginkonu sína, Rosario, sér við hlið. „Ég á mjög óskýrar minningar frá þessum tíma. Ég mundi ekkert eftir sjálfu fallinu og vissi ekki hvað hafði komið fyrir bróður minn,“ segir hann við BBC.

Vinnueftirlit New York-borgar komst að þeirri niðurstöðu að slysið hefði orðið vegna ófullnægjandi öryggisbúnaðar og vegna þess að festingar, sem halda áttu vinnupallinum uppi, voru ekki rétt festar.

Ýmsir sérfræðingar hafa velt vöngum yfir því hvernig í ósköpunum Moreno lifði fallið af. Bróðir hans, Edgar, var staddur vinstra megin á pallinum þegar festingin þeim megin gaf sig. Hann féll rakleitt niður og gat enga björg sér veitt. Moreno var hins vegar staddur hægra megin á pallinum og tókst að skorða sig við hann þegar hann féll til jarðar. Hann féll því til jarðar með pallinum og hefur því verið velt upp að pallurinn sjálfur hafi tekið á sig mesta höggið. Þá geti verið að pallurinn hafi rekist utan í bygginguna á leiðinni niður og þannig hafi dregið úr hraða hans. Hvað sem öllu því líður er Moreno á lífi á dag og fyrir það er hann þakklátur.

Þakklátur fyrir að geta gengið

Þeir bræður voru nánir en þeir fluttu til Bandaríkjanna frá Ekvador á sínum tíma. Í viðtalinu við BBC segir hann að það hafi verið sér mikið áfall að missa bróður sinn. Þeir bjuggu saman um tíma og áttu sameiginleg áhugamál, auk þess að vinna saman.

Moreno, sem er 46 ára, býr í dag ásamt fjölskyldu sinni í hitanum í Phoenix í Arizona. Hann á fjögur börn, þar af eitt sem kom í heiminn árið 2016. Hann segir að ef hann gæti myndi hann starfa við gluggaþvott – en slysið varð til þess að hann þurfti að snúa sér að annarri vinnu. „Ég er ekki sami maður og ég var. En, þökk sé Guði, ég get gengið. Það er kraftaverk.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum