Laugardagur 06.mars 2021
Fréttir

Píratar og höfundarréttur

Þér að segja

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 12. ágúst 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og allir vita þá er gamla merking orðsins pírati: sjóræningi. Og gildir svosem enn. Jafnframt hefur komið fram önnur merking á síðustu árum; nú eru píratar líka þeir sem telja það sjálfsagðan rétt að fá að dreifa öllu efni á netinu, líka því sem nýtur höfundarréttar, og nota það endurgjaldslaust – „piracy“ er sú iðja og hugmyndafræði kölluð á ensku. Og merkilegt nokk er þannig „sjórán“ þá ekki skammaryrði, heldur sæmdarheiti sem þeir sem aðhyllast þessa hugmyndafræði hafa valið sér; þannig hafa verið stofnaðir pólitískir flokkar víða um lönd uppúr nefndri hugsun, og kalla sig þá „píratapartí“. Að sama skapi spretta upp víða um heim svokallaðar deilisíður á netinu, almennt kenndar við „piracy“, og þeir sem þeim stjórna og ráða kalla sig stoltir pírata.

Margir þeir sem aðhyllast hugmyndafræði pírataflokka eru gott fólk og hugsjónamenn sem vilja bæta heiminn, passa að tæknibreytingar leiði ekki til ófrjálsara lífs fyrir einstaklinga heldur, þvert á móti, opnara og lýðræðislegra samfélags. En þrátt fyrir allt það góða fólk þá er okkur sem eigum lifibrauð og tilveru undir vernduðum höfundarrétti skiljanlega órótt yfir því að hreyfing sem samkvæmt könnunum gæti orðið sú voldugasta í landinu telji óhjákvæmilegt að svipta okkur þeim rétti, og því hefur mig langað til að heyra nákvæmlega útfærða hugmynd flokksins í þeim efnum. Og sömuleiðis hefur mér þótt skorta að væntanlegir kjósendur viti af þessu grunnstefi í hugmyndafræði pírata – ég hef hitt fólk sem segist hiklaust ætla að kjósa þá næst, en hefur aldrei hugsað út í að þeir séu með einhverjar sérstakar áherslur í höfundarréttarmálum – þessir kjósendur hafa semsagt ekki velt því fyrir sér til hvers nafn flokksins vísar. Þessvegna fann ég mér á dögunum tilefni til að rifja það upp og setti því inn svohljóðandi status á fésbókina:

„Þeir hjá deildu.is settu inn merkileg skilaboð í framhaldi af dómi í máli sem STEF og fleiri höfðuðu, því hún minnir á að Píratar eru ekki bara einhverjir góðir krakkar með áhuga á framförum og mannréttindum, heldur samtök um þjófnað og gripdeildir, sem á uppruna sinn hjá illa innrættu fólki t.d. í Þýskalandi og Svíþjóð:
„Kæru notendur. Mig langar að biðja ykkur um að deila inn öllu íslensku efni sem þið mögulega getið. Allt sem þið finnið/eigið endilega setjið það inn á síðuna. Sýnið að við erum öll Pirates Yarr!“

Í framhaldi hafa stuðningsmenn á Facebook og víðar hellt sér yfir STEF og þannig samtök, og skipað þeim að skilja að 21. öldin sé upprunnin. Íslenskt efni hefur verið búið til með vinnu og eigum íslenskra listamanna og útgefenda, og að stela því og dreifa frítt er svipað og að hnupla launaumslögum vinnandi fólks. Píratar sökka!“

Krafa um málefnalega umræðu!

Í svona stuttu innleggi þarf maður helst að velja örlítið krassandi orðalag, í von um viðbrögð. Og þau komu strax á fjasbókina, margir fóru strax að þúa mig og þá sem tóku undir með mér, með óvöldu orðbragði. Einhverjir reyndu að gera gaman úr því að ég vissi greinilega ekki að það væru engin skipulagstengsl á milli píratasíðu eins og deildu.is eða piretebay.com og svo Pírataflokksins, eins og það skipti einhverju máli. Einhver fann að ég hafði deilt á sama stað ekki löngu fyrr lagi með íslenskri hljómsveit, og taldi það augljóst merki um tvískinnung, og kannski er það rétt; ég reyndar vísaði bara á lag á Youtube, sem þannig er þegar aðgengilegt öllum heiminum, svo það breytir lítið stöðu flytjendanna að vinum mínum á fésbókinni sé vakin athygli á því. Fyrrverandi alþingismaðurinn Þór Saari, sem ég vissi ekki að væri nú orðinn pírati, ákvað líka að ydda orðaforðann með svofelldri athugasemd: „Það er alveg ótrúlegt að sjá slúðrið og dylgjurnar sem koma fram hér að ofan hjá Einari Kára, Jakobi Magg, Elínu Hirst og fleirum. Tveir þeir fyrrnefndu eru að vísu lítilsigld fylgistungl Samfylkingarinnar sem virðist orðin örvæntingarfull í meira lagi, því ekki trúi ég að innrætið sé svona að jafnaði. Hvað Elín Hirst er að gera þarna er svo óskiljanlegt, að vísu sama hvar hún er, en hvað um það …“ Mér þótti þetta merkilegt, og sagði í athugasemd að það kæmi mér á óvart að Þór Saari væri að kalla menn lítilsiglda að fyrra bragði, og hann svaraði á ný og hvatti mig til að vera málefnalegur. Þá kom þessi sniðuga athugasemd frá Jóni Eiríkssyni á spjallþráðinn: „Makalaust! Einn og sami maðurinn skrifar: „ótrúlegt að sjá slúðrið“, „dylgjurnar“, „lítilsigld fylgistungl“, „örvæntingarfull í meira lagi“, „hvað Elín Hirst er að gera þarna er svo óskiljanlegt, að vísu sama hvar hún er“ (!!!) og svo nokkrum mínútum síðar: ”„Hvet þig til að vera málefnalegri og hætta dylgjum og óhróðri“!“

En hún kom líka

En það var ekki bara að þessi litla klausa mín kveikti umræður á fésbók, heldur líka í öðrum miðlum; sjálfur fór ég í útvarpsviðtal, og varð að afþakka fleiri viðtöl vegna ferðalaga, talsmenn Pírata voru fengnir í spjallþætti, og það voru umræður og viðtöl í fjölmiðlum um höfundarrétt næstu daga. Og sumpart skýrðust fyrir mér málin. Og ég sá að þótt sumir þeirra sem kalla sig pírata, hér og erlendis, sjái ekkert athugavert við það að stela eignarréttarvörðu efni, og þar með svipta höfunda tekjumöguleikum, þá eru aðrir sem líta málin öðrum augum: ýmsir góðir talsmenn Pírataflokksins íslenska segjast vera mjög hlynntir listum og skapandi greinum og vilja veg þeirra sem við það fást sem mestan, og er í sjálfu sér ekki ástæða til að efast um þann góða hug. Gallinn sé bara sá að höfundarréttur í hefðbundnum skilningi sé orðinn úreltur, og að lifibrauð af sköpun verði að koma úr öðrum áttum. Og þeir hvetja listamenn til að finna sér aðra tekjumöguleika. Ég fékk athugasemdir og tölvupóst frá vel meinandi og kurteisu fólki í þessa veru, án þess ég fengi margar tillögur um hvaðan tekjur ættu að koma í stað þeirra sem óhjákvæmilega hlytu að hverfa: einn bað mig þó í lengstu lög að koma með tillögu um það!

Einn þekktasti forystumaður Píratapartísins, Helgi Hrafn, sagði í blaðaviðtali að þótt reynt væri að loka fyrir veitur eins og deildu og piretebay, sem reynt er að stoppa vegna þjófnaðar, þá væru til hjáleiðir, sem hann telur greinilega ekkert athugavert við að nota: „Þingmaðurinn segist jafnframt ætla að deila sinni þekkingu til þess að leiðbeina fólki hvernig á að fara umræddar hjáleiðir. „Ég mun ekki hika við það í eina sekúndu að deila einfaldri tæknilegri þekkingu til þess. Enda er hún einföld, allir ætti að þekkja hana og hafa aðgang að henni.““

Hann er allavega ekki að reyna að fegra neitt.

Úreltur eignarréttur?

Aðrir sögðu að þetta snerist um eignarréttinn sjálfan, sem manni skilst þá að sé að verða úreltur, og spurning hvort veðbækur verði þá ekki eins og hver annar kínalífselexír, og það sama innistæður á bankabókum. Kristján Hafberg Elínarson sagði: „Nei það snýst held ég aðallega um frelsi á internetinu. Það að verndun hugverka á stafrænu formi geti verið of hamlandi fyrir samskipti á internetinu. En jú svo eru margir farnir að setja spurningarmerki við eignarréttinn sem er jú varinn af stjórnarskrá sem samin var af mönnum sem bjuggu í samfélagi sem var mjög ólíkt því sem við lifum í í dag.“

Svo skrifaði Þórólfur Beck mér elskulegt opið bréf á netmiðilinn Kvennablaðið, og byrjaði á að segja, svo mér hlýnaði um hjartarætur:

„Ég ber djúpa og óskipta virðingu fyrir þér sem listamanni – eins og þorri þjóðarinnar – og ég vil þakka þér fyrir verkin sem þú hefur gefið okkur. Hvað þessi mál varðar tel ég aftur á móti að þú sért á villigötum.“

Síðan segir hann mér í þessu opna bréfi frá ýmislegu sem snertir þessi mál, sem hann hefur greinilega kynnt sér vel, eins og að afritunarvarnir hafi ekki dugað í tölvuleikjaiðnaðinum. En hann kemur líka með tillögu um hvernig ég geti bætt mér upp tapið: „Þegar þú undirbýrð næsta verk – skaltu fara af stað með hópfjármögnunarverkefni (e. Crowdfunding). Bjóddu fólki að kaupa mismunandi útgáfupakka fyrirfram. Fyrir grunnpakkann 5.000 kall – færðu bókina senda, beint úr prentun fyrsta upplags ásamt aðgangi að rafrænu eintaki. Fyrir 10.000 færðu áritað númerað eintak og rafbók. Fyrir 25.000 færðu að auki nafn þitt skráð á þakkarlista aftast í bókinni – og ert þar með orðinn ódauðlegur partur verksins, með óbeinum hætti. Að lokum er það Gull Pakkinn – Delux – aðeins 5 í boði á 500.000 stykkið. Með honum fylgir eitt af fyrstu 10 tölusettu eintökum bókarinnar, áritað persónulega með stuttum skilaboðum frá höfundi – og rúsínan í pylsuendanum – höfundur kemur heim til þín og les góðan hluta bókarinnar fyrir þig. (þú ert nú ekki of góður til að lesa hana 2 sinnum í gegn fyrir 2 og hálfa milljón vona ég).

Allir sem taka þátt (með hvaða pakka sem er) – og aðeins þeir sem taka þátt – fá svo aðgang að upplestri úr bókinni þegar hún er tilbúin, áður en nokkur annar fær að heyra bofs. Ég gæti trúað að það yrði einn best sótti upplestur sem þú hefðir haldið – þrátt fyrir að vera lokaður almenningi. Þetta er ekki elítismi – þvert á móti gefur þetta almenningi tækifæri til verða þátttakendur í útgáfu verksins; Patrons of the arts.

Breyttu um stefnu: taktu u-beygju og fagnaðu breyttum tímum. Ég er viss um að Píratar myndu flykkjast í kringum þig – og mikill fjöldi taka þátt í hópfjármögnuninni til að styðja við framfarir á þessu sviði. Með því að verða brautryðjandi þarna myndirðu að sama skapi fá mikla auglýsingu og auka líkur á góðri sölu í Bónus í jólabókaflóðinu.“
Ekki kann ég svör við svona vel meinandi tillögum.

En þá tók til máls Daníel Magnússon myndlistarmaður

Og ég held það sé ekki hægt að orða þetta betur. Daníel sagði meðal annars: „Þá var farið að knýja á um að gerðar væru breytingar á viðskiptamódelum þeirra sem ættu réttinn á framleiðslu og dreifingu höfundarvarins efnis, eða það að listafólk aðlagaði sig að þeirri hugmynd að hægt væri að stunda rán á framleiðslu þeirra þá yrðu þeir að laga sig að þeirri breytingu. Ég hef sjálfur ekki hugmynd um það hvernig slík breyting ætti að vera og mér finnst ekki heldur að ég þurfi að leita leiða fyrir þannig málamiðlun. Ég hef ekki heyrt Pírata biðja sérstaklega um það að aðrir geri viðlíka breytingar á viðskiptamódelum sínum vegna þjófnaðar … Má þá nefna verslanir og fyrirtæki eða bifreiðareigendur … allir verða fyrir barðinu á þjófum nema eigendur höfundarréttar … þeir verða fyrir barðinu á tímanum sem breyttist. Sauðaþjófar geta gengið inná afrétt og skotið sér sauðfé til eigin nota, en enginn biður búmenn um að breyta viðskiptamódeli sínu. Það er hægt að fara inn í hvern einasta sumarbústað í landinu og ræna þar öllu sem menn munar í, en engin biður eigendurna að þeir breyti eignarrétti sínum á bústöðunum svo ekki þurfi að glæpavæða þá sem slíkar gripdeildir stunda. Við öllum þessum dæmum hér að ofan eru viðurlög og öllum finnst sjálfsagt að yfirvald skerist í leikinn með þeim meðölum sem lög kveða á um. Af hverju má það ekki í tilvikum þar sem brotið er á eignarétti þeirra sem framleiða kvikmyndir eða tónlist? Er það kannski vegna þess að það er engin virðing fyrir þeim framleiðendum? eða því sem þeir skapa? Gæti það kannski verið mergur málsins að listafólk nýtur engrar sérstakrar virðingar hvort eð er. Í raun og sanni má ræna hverju sem er … öllu …! það er auðveldara að ræna hjóli en bíl og lítið verk að stela fatnaði og skóm. Einhverjir fara á snúrur hjá fólki en aðrir ná sér í fisk úr vötnum án veiðileyfis. En þeir sem aldrei stela neinu gera það alltaf vegna eins, og það er vegna virðingarinnar fyrir eignaréttinum … einum hornsteina réttarríkisins. Ef við eigum að lúta þeirri hugmynd að rétt sé að breyta því hvernig ein stétt hanterar eigur sínar vegna þess hversu auðvelt sé að ræna þeim, þá bið ég Pírata um að útbúa lista yfir þá sem ekki þurfa að gera það. Ég hef reyndar farið fram á það áður en lenti þá í karpi við flón sem ekki einu sinni skildu eðli og tilgang höfundarlaga … ég nenni þeim ekki og bið því einfaldlegast um þennan lista.“

Þetta voru bara harla skemmtilegar samræður. Og myndlistarmaðurinn langbeittastur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hryllingur á Kanarí – Íslenskri konu nauðgað og fjórir karlmenn úrskurðaðir í gæsluvarðhald

Hryllingur á Kanarí – Íslenskri konu nauðgað og fjórir karlmenn úrskurðaðir í gæsluvarðhald
Fréttir
Í gær

Ekki útlit fyrir að óróanum á Reykjanesi sé að ljúka – Eldgos mun hafa fyrirvara

Ekki útlit fyrir að óróanum á Reykjanesi sé að ljúka – Eldgos mun hafa fyrirvara
Fréttir
Í gær

Forsætisráðherra Íslands fer á kostum – Þrasar í verslunum og var „vippað“ af Angelu Merkel

Forsætisráðherra Íslands fer á kostum – Þrasar í verslunum og var „vippað“ af Angelu Merkel
Fréttir
Í gær

Bókmenntasamfélagið á hliðinni í kjölfar umfjöllunar á Rás 1 – „Jæja gamli… ég myndi nú bara eyða þessu“

Bókmenntasamfélagið á hliðinni í kjölfar umfjöllunar á Rás 1 – „Jæja gamli… ég myndi nú bara eyða þessu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kolbrún segir íslenska auglýsingu vera ofstækisfulla – „Henni þarf að sjálfsögðu að andmæla“

Kolbrún segir íslenska auglýsingu vera ofstækisfulla – „Henni þarf að sjálfsögðu að andmæla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Veitingamaður við Laugaveg lýsir skelfingarástandi hjá ógæfufólki – „Hef aldrei orðið vitni að eins mikilli eymd“

Veitingamaður við Laugaveg lýsir skelfingarástandi hjá ógæfufólki – „Hef aldrei orðið vitni að eins mikilli eymd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjalti opnar sig um morðtilraunina sem sonur hans var dæmdur fyrir – „Áður en hann fékk höggið man hann lítið sem ekk­ert“

Hjalti opnar sig um morðtilraunina sem sonur hans var dæmdur fyrir – „Áður en hann fékk höggið man hann lítið sem ekk­ert“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öflugur jarðskjálfti í morgun en enginn órói í bili

Öflugur jarðskjálfti í morgun en enginn órói í bili