fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Ár pólitískra jarðhræringa

Panamaskjölin felldu Sigmund Davíð – „Wintris is coming“ – Gróa á Leiti reyndist fara með rétt mál

Ritstjórn DV
Laugardaginn 31. desember 2016 10:00

Panamaskjölin felldu Sigmund Davíð – „Wintris is coming“ – Gróa á Leiti reyndist fara með rétt mál

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Liðið er ár einna mestu pólitískra tíðinda á Íslandi frá lýðveldisstofnun, ár jarðhræringa í stjórnmálunum. Fullyrðingin er stór en fyrir henni má færa gild rök. Fátt benti hins vegar til þess í upphafi árs að mikilla tíðinda væri að vænta í innlendri pólitík. Vissulega stóðu fyrir dyrum forsetakosningar en í landsmálapólitíkinni var ekki neins slíks að vænta. Með öðrum orðum mátti búast við „business as usual“. En svo opinberuðust Panamaskjölin og Wintris-málið reis með afleiðingunum sem ekki einu sinni völva DV gat séð fyrir.

Upphaf Wintris-málsins má rekja til þess að milljónum skjala frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca er vörðuðu aflandsfélög og eginarhald á þeim var lekið. Í skjölunum var að finna nöfn fjölmargra Íslendinga, þar á meðal nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Sömuleiðis mátti finna þar nöfn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Ólafar Nordal innanríkisráðherra.

Sigmundur Davíð var meðal þjóðarleiðtoga hvers nöfn var að finna í Panamaskjölunum.
Stór nöfn í Panamaskjölunum Sigmundur Davíð var meðal þjóðarleiðtoga hvers nöfn var að finna í Panamaskjölunum.

„Gefum nú Gróu á Leiti smá frí“

  1. mars birti Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs, færslu á Facebook-síðu sinni sem margir hafa væntanlega klórað sér í kollinum yfir. Anna Sigurlaug upplýsti þar að hún ætti félag sem héti Wintris, sem skráð væri utan landsteinanna, en ekki greindi hún þó frá því að Wintris væri aflandsfélag og skráð á Tortóla. Skrif Önnu Sigurlaugar vöktu athygli vegna þess sem ósagt var í þeim. Þannig skrifaði Anna Sigurlaug: „Gefum nú Gróu á Leiti smá frí. Er ekki betra að beina orkunni í að tala um eitthvað sem skiptir raunverulega máli?“
„Gefum nú Gróu á Leiti smá frí,“ skrifaði Anna Sigurlaug Pálsdóttir á Facebook vegna Wintris-málsins
Gróa reyndist segja satt „Gefum nú Gróu á Leiti smá frí,“ skrifaði Anna Sigurlaug Pálsdóttir á Facebook vegna Wintris-málsins

Tilfellið var hins vegar að fæstir höfðu nokkra einustu hugmynd um hvað Anna Sigurlaug var að fara með þessum skrifum sínum. Vissulega hafði verið fjallað um það áður, í tengslum við þátttöku Sigmundar í pólitík, að Anna Sigurlaug væri sterkefnuð. Almennt höfðu fjármál hennar og Sigmundar hins vegar lítið verið í sviðsljósinu misserin áður en hún birti umrædda Facebook-færslu. Fjölmiðlafólk kveikti hins vegar á því að þarna væri fiskur undir steini og hægt og rólega fór að kvisast út hvað væri um að ræða. Upplýst var tveimur dögum síðar að Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamaður hefði sett sig í samband við Sigmund vegna fyrirhugaðrar umfjöllunar og því þyrfti að skoða pistil Önnu Sigurlaugar í því ljósi.

Wintris kröfuhafi í slitabúin

Næstu daga jókst umræða um málið. DV upplýsti 16. mars að Wintris hefði gert kröfu upp á tæplega 400 milljónir króna í slitabú Kaupþings og gamla Landsbankans. Félagið fékk samþykktar kröfur í slitabúin upp á 260 milljónir og miðað við áætlaðar endurheimtur mætti gera ráð fyrir að félagið fengi um 46 milljónir króna greiddar.

Mynd: Skjáskot

Þessar uppljóstranir hleyptu, og það kannski eðlilega, umræðunni upp. Á sama tíma og ríkisstjórn undir forystu Sigmundar hafði unnið að því að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um stöðugleikaframlög og uppgjör á kröfum hafði eiginkona Sigmundar verið einn kröfuhafanna. Sú staðreynd var ekki til þess fallin að gera málið slétt og fellt.

Í samstarfsflokki Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokki, var uppi mikill titringur vegna málsins alls. Þannig stigu einstakir þingmenn fram opinberlega og gagnrýndu Sigmund fyrir að hafa haldið því leyndu að eiginkona hans væri meðal kröfuhafa í föllnu bankana á meðan hann sjálfur vann að því að lenda samningum við kröfuhafana. Þá voru fluttar af því fréttir að þingmenn Sjálfstæðisflokks ræddu hvort styðja ætti vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á hendur Sigmundi, kæmi hún fram.

Ólöf Nordal skýrði frá því að stofnað hefði verið félag sem hún átti ásamt eiginmanni sínum að fá prókúru að. Af því varð aldrei.
Átti aldrei aflandsfélag Ólöf Nordal skýrði frá því að stofnað hefði verið félag sem hún átti ásamt eiginmanni sínum að fá prókúru að. Af því varð aldrei.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

En málin áttu enn eftir að flækjast og líklega var enginn, nema þeir sem unnu að því að greina upplýsingarnar sem finna mátti í skjölunum frá Mossack Fonseca, undir það búinn sem síðar varð ljóst. Hinn 28. mars var greint frá því að áhrifafólk í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu væru meðal þeirra sem tengjast aflandsfélögum í skattaskjólum. Daginn eftir var greint frá því á vef Ríkisútvarpsins að nöfn þriggja ráðherra væri að finna í skjölunum, sem nú urðu þekkt sem Panamaskjölin. Auk Sigmundar væri um að ræða Bjarna Benediktsson og Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra. Bjarni upplýsti að um væri að ræða félagið Falson & Co, sem skráð hefði verið á Seychelles-eyjum, félag sem hann hefði keypt í fyrir um 40 milljónir króna fyrir um áratug. Tilgangurinn hefði verið kaup á fasteign í Dubai en ekkert hefði orðið af kaupunum og félagið afskráð. Ólöf birti hins vegar yfirlýsingu þar sem hún útskýrði að nafn hennar hefði komið fram í skjölunum vegna þess að Tómas Sigurðsson, eiginmaður hennar, hefði árið 2006 leitað ráðgjafar hjá Landsbankanum um hugsanlegar fjárfestingar í erlendum verðbréfum. Stofnað var erlent fjárfestingarfélag af Landsbankanum í Luxemborg, Dooley Securities, í þessu skyni. Hins vegar tók Tómas, að sögn Ólafar, aldrei við eignarhaldi félagsins vegna breyttra aðstæðna.

Sigmundur Davíð gekk út úr viðtali við Jóhannes Kr. Kristjánsson þegar hann var spurður um Wintris.
Viðtalið fræga Sigmundur Davíð gekk út úr viðtali við Jóhannes Kr. Kristjánsson þegar hann var spurður um Wintris.

Mynd: Uppdrag Granskning

Málið opinberast

Í Kastljósþætti sem sýndur var 3. apríl opinberaðist málið allt. Í viðtali í þættinum neitaði Sigmundur að hafa nokkur tengsl við aflandsfyrirtæki. Spurður sérstaklega um Wintris svaraði hann ekki sannleikanum samkvæmt um eignarhald Önnu Sigurlaugar. Jóhannes Kr. þýfgaði Sigmund frekar um félagið og tengsl hans við það. Við tók mjög undarleg sena, sem endaði með því að Sigmundur gekk út úr viðtalinu. Sú upptaka fór síðan eins og eldur í sinu um heiminn. Ísland var allt í einu orðið holdgervingur Panamaskjalanna.

Í ljós kom að Sigmundur hafði átt helmingshlut á móti Önnu Sigurlaugu í Wintris en hafði selt henni sinn hlut á 1 dollara síðla árs 2009. Þessu neitaði Sigmundur í viðtalinu en gögn sýna að svo var. Wintris hafði þegar gert kröfur á föllnu bankana þegar Sigmundur seldi hlut sinn.

Sigmundur fer frá og í frí

Uppljóstranirnar í þættinum gerðu það að verkum að traust á Sigmundi, Bjarna og Ólöfu, sem og á ríkisstjórninni, hrundi. Mánudaginn 4. apríl lagði stjórnarandstaðan á Alþingi fram vantrauststillögu á ríkisstjórns Sigmundar. Austurvöllur fylltist af mótmælendum og urðu mótmælin þau fjölmennustu í sögu Íslands.

Aldrei hafa mótmæli á Íslandi verið fjölmennari.
Fullur Austurvöllur Aldrei hafa mótmæli á Íslandi verið fjölmennari.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sigmundur tók þá upp á sitt einsdæmi ákvörðun um að halda til Bessastaða til fundar við Ólaf Ragnar Grímsson forseta og fara fram á að Ólafur veitti sér heimild til að rjúfa þing og boða til kosninga. Því hafnaði Ólafur hins vegar. Þetta gerðist 5. apríl. Sigmundur mun ekki hafa haft samráð við einn né neinn, hvorki samflokksmenn sína eða Sjálfstæðismenn, áður en hann tók þá ákvörðun að hitta forseta.

Sigmundur var síðan settur af sem forsætisráðherra. Raunar mun hann hafa gert þá tillögu sjálfur, að hann viki og Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, tæki við, í áframhaldandi samstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Það gerði hann þó ekki fyrr en að ljóst var að Framsóknarþingmenn hyggðust setja hann af og sömuleiðis að þingmenn Sjálfstæðisflokks styddu ekki Sigmund áfram í stóli forsætisráðherra. Daginn eftir var opinberað að Sigurður Ingi myndi taka við sem forsætisráðherra og að kosningum yrði flýtt. Þær færu fram haustið 2016. Sigmundur fór í frí.

Sigurður Ingi Jóhannsson tók við sem forsætisráðherra eftir að Sigmundur var settur af.
Sigurður Ingi tekur við Sigurður Ingi Jóhannsson tók við sem forsætisráðherra eftir að Sigmundur var settur af.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þó fer því fjarri að allt hafi dottið í dúnalogn. Hart var deilt á forsætisráðherra og ríkisstjórnina fyrir að gefa ekki út dagsetningu fyrir alþingiskosningar. Slógu menn þar úr og í og báru fyrir sig að talað hefði verið um að ljúka þyrfti ákveðnum mikilvægum málum áður en hægt væri að ganga til kosninga. Hver þau voru og hvernig þeim var forgangsraðað varð kannski aldrei fyllilega ljóst. Hins vegar var loks boðað, í byrjun september, að kosningar færu fram 29. október.

Sigmundur snýr aftur

Sigmundur tók sér sem fyrr segir tímabundið leyfi frá þingstörfum. Í bréfi til flokksmanna í Framsóknarflokknum, sem hann sendi 25. júlí, boðaði hann hins vegar endurkomu sína í íslensk stjórnmál. Þau tíðindi mæltust misjafnlega fyrir, svo ekki sé meira sagt. Sigmundur hefur alla tíð á harðan kjarna stuðningsmanna og sá kjarni brást honum ekki. En úr honum hafði kvarnast og það verulega.

Innan Framsóknaflokksins höfðu þær raddir orðið æ háværari sem héldu á lofti þeirri skoðun að ótækt væri að halda til kosninga án þess að boðað yrði til flokksþings þar sem forysta flokksins gæti endurnýjað umboð sitt. Það reyndi Sigmundur og stuðningsfólk hans eftir mætti að koma í veg fyrir. Kjördæmisþing flokksins samþykktu hins vegar öll að flokksþing skyldi fara fram, utan kjördæmisþing í Norðausturkjördæmi, kjördæmi Sigmundar.

Sigurður Ingi hafði betur í formannskjöri gegn Sigmundi.
Tekist á um Framsókn Sigurður Ingi hafði betur í formannskjöri gegn Sigmundi.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sigurður Ingi hafði betur

Sigurður Ingi tilkynnti síðan 23. september að hann gæfi kost á sér í embætti formanns Framsóknarflokksins. Sigmundur hugðist hins vegar hvergi gefa eftir og sakaði hann Sigurð Inga meðal annars um að svíkja loforð sem hann hefði gefið sér, um að fara ekki fram í formannsembættið gegn sér. Formannskosningin fór fram 2. október og var mjótt á munum. Fór svo að Sigurður Ingi hafði sigur með 370 atkvæðum gegn 329 atkvæðum Sigmundar. Framsóknarflokkurinn hélt því til kosninga, klofinn í tvær fylkingar.

Píratar kalla til sálfræðing

Á meðan að menn bárust á banaspjótum í Framsóknarflokknum sinntu aðrir flokkar sinni kosningabaráttu í skugga misgóðrar útkomu í skoðanakönnunum. Píratar, sem höfðu mánuðum saman mælst stærsti flokkur landsins, áttu í innanflokksdeilum sem opinberuðust á internetinu æ ofan í æ. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, gaf það út í byrjun júlí að hann hyggðist ekki gefa kost á sér í komandi kosningum. Ástæða þess, þó hún væri aldrei gefin upp opinberlega, var meðal annars óþol hans í garð Birgittu Jónsdóttur samflokksþingmanns síns. Birgitta og Helgi Hrafn tókust harkalega á í upphafi árs og var ástandið slíkt að kallaður var til vinnustaðasálfræðingur til að stilla til friðar í herbúðum Pírata. Tókst að bera klæði á vopnin og ýta deilum og ágreiningi, ef ekki til hliðar þá alla vega undir yfirborðið. Var nú kyrrt um hríð.

Helgi Hrafn Gunnarsson dró sig í hlé, meðal annars vegna deilna við Birgittu Jónsdóttur.
Hættur Helgi Hrafn Gunnarsson dró sig í hlé, meðal annars vegna deilna við Birgittu Jónsdóttur.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í ágúst sprakk hins vegar allt í loft upp þegar svikabrigsl gengu á víxl er vörðuðu kosningar á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi. Fór svo að lokum að oddviti flokksins vék en sá hafði verið sagður lukkuriddari sem ekki hefði tengsl við kjördæmið né hefði starfað með Pírötum. Tókst að lokum að kjósa lista en ljóst var að umræðan skaðaði flokkinn.

Viðreisn meiri ógn en Panamaskjöl

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með mest fylgi flokka í aðdraganda kosninganna og virtist ekki hafa orðið meint af Panamatengingum Bjarna og Ólafar, í það minnsta ekki svo nokkru næmi. Naut flokkurinn vafalaust góðs af því að hitinn og þunginn í umræðum og gagnrýni hafði snúið að Sigmundi Davíð. Það fór enda svo að Bjarni og Ólöf hlutu yfirburðakosningar í prófkjörum flokksins og leiddu lista hans í sínu kjördæminu hvort.

Það var fremur tilkoma nýs flokks, Viðreisnar, sem ógnaði Sjálfstæðisflokknum en uppljóstranir um tengsl flokksmanna við aflandsfélög. Viðreisn, sem flestir litu á sem klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, með réttu eða röngu, náði miklu flugi undir forystu Benedikts Jóhannessonar formanns í aðdraganda kosninganna. Líklegt má telja að miklu hafi skipt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ákvað að ganga til liðs við Viðreisn og leiddi lista flokksins í Kraganum.

Benedikt Jóhannesson leiddi Viðreisn í kosningabaráttunni og náði góðum árangri.
Benedikt kampakátur Benedikt Jóhannesson leiddi Viðreisn í kosningabaráttunni og náði góðum árangri.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Samfylkingin á heljarþröm

Vinstri græn sigldu lygnan sjó og keyrðu loksins skynsama kosningabaráttu. Þar var lögð megináhersla á Katrínu Jakobsdóttur flokksformann enda Katrín einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Hið sama mátti þó ekki segja um hinn vinstriflokkinn, Samfylkinguna. Samfylkingin hafði allt árið átt í slíkum innanmeinum að furðu mátti sæta. Formannskjör var boðað í flokknum í byrjun júní en í aðdraganda þess voru allir og amma þeirra mátaðir í formannsembætti. Árni Páll Árnason, sitjandi formaður, lýsti yfir framboði en dró það síðan til baka. Eftir stóðu þingmennirnir Oddný G. Harðardóttir og Helgi Hjörvar auk fyrrverandi þingmannsins Magnúsar Orra Schram. Oddný hafði sigur í formannskjörinu og Logi Einarsson var kjörinn nýr varaformaður. Það átti eftir að skipta sköpum fyrir Loga sem hann hefur líklega ekki gert sér grein fyrir þegar hann var kosinn.

Logi Einarsson var kosinn varaformaður Samfylkingarinnar í sumar. Hann tók síðan við sem formaður þegar Oddný Harðardóttir sagði af sér eftir afhroð í kosningunum.
Hraður framgangur Logi Einarsson var kosinn varaformaður Samfylkingarinnar í sumar. Hann tók síðan við sem formaður þegar Oddný Harðardóttir sagði af sér eftir afhroð í kosningunum.

Formannsskiptin breyttu engu um slælegt gengi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum en ítrekað leit út fyrir að flokkurinn væri í raunverulegri hættu á að þurrkast út. Hið sama má segja um Bjarta framtíð, enn frekar raunar. Flokkurinn var með böggum hildar allt árið og mældist ekki langtímum saman með þingmenn. Hörð andstaða við búvörusamninga síðastliðið haust olli því hins vegar að flokkurinn náði að nokkru leyti vopnum sínum.

Snúin staða eftir kosningar

Svo rann upp kjördagur. Kjörsókn var dræm, aðeins 79,2 prósent þátttaka og hefur hún aldrei verið lakari á lýðveldistímanum. Úrslit urðu þau að Sjálfstæðisflokkurinn varð stærstur flokka á Alþingi, hlaut 21 þingmann kjörinn. Vinstri græn fengu 10 þingmenn kjörna líkt og Píratar. Framsóknarflokkurinn fékk kjörna 8 þingmenn, þar af bæði Sigmund Davíð og Sigurð Inga. Viðreisn gerði vel og fékk 7 þingmenn kjörna. Björt framtíð bætti verulega við sig fylgi frá því sem skoðanakannanir höfðu sýnt og fékk kjörna 4 þingmenn. Samfylkingin var hársbreidd frá því að falla af þingi, fékk 5,7 prósent atkvæða og 3 þingmenn. Logi Einarsson, varaformaður, varð eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins. Aðrir flokkar náðu ekki kjöri, næst því komst Flokkur fólksins sem fékk 3,5 prósent atkvæða.

Að afloknum kosningum, og raunar fyrir þær í einhverjum mæli, hófu forystumenn flokkanna hver í kapp við annan að útiloka samstarfskosti. Flækti það stjórnarmyndunarviðræður óhjákvæmilega nokkuð. Sú staðreynd að engin tveggja flokka stjórn var möguleg hjálpaði heldur ekki. Bjarni Benediktsson fékk stjórnarmyndunarumboð í hendurnar frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta og fundaði með Viðreisn og Bjartri framtíð, sem gengið hafa eins og síamstvíburar í allar viðræður, um hugsanlegt samstarf. Formlegar stjórnarmyndanir hófust í tvígang en var slitið, einkum vegna þess að flokkarnir náðu ekki saman um sjávarútvegsmál. Raunar er það svo að innan þingliðs Sjálfstæðisflokksins voru afar skiptar skoðanir um samstarfið. Bjarni Benediktsson reyndi eftir megni að koma Framsóknarflokknum inn í þessa hjónasæng en það tóku Viðreisn og Björt framtíð ekki í mál.

Birgitta Jónsdóttir tók upp þráðinn við myndun fimm flokka ríkisstjórnar. Sú tilraun mistókst.
Reyndi og mistókst Birgitta Jónsdóttir tók upp þráðinn við myndun fimm flokka ríkisstjórnar. Sú tilraun mistókst.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í millitíðinni, milli tveggja stjórnarmyndunarviðræðna Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, reyndi Katrín Jakobsdóttir að mynda fimm flokka stjórn Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Upp úr þeim viðræðum slitnaði þegar ljóst varð að himinn og haf væri milli Vinstri grænna og Viðreisnar í efnahagsmálum. Þrátt fyrir það taldi Birgitta Jónsdóttir ástæðu til þess að Píratar leiddu viðræður sömu flokka að nýju en, eins og gera mátti ráð fyrir, strönduðu þær viðræður á nákvæmlega sömu atriðum. Sá sem hefur fundið sig í hvað óvæntastri stöðu í þessum viðræðum er Logi Einarsson sem tók við sem formaður Samfylkingarinnar þegar Oddný Harðardóttir sagði af sér eftir hörmulega útreið í kosningunum.

Viðræður Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar um hugsanlega myndun ríkisstjórnar báru ekki árangur.
Gekk ekki upp Viðræður Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar um hugsanlega myndun ríkisstjórnar báru ekki árangur.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Óvæntasta tilraunin, en jafnframt sú sem virtist njóta hvað mests hljómgrunns úti í þjóðfélaginu, var tilraun Bjarna og Katrínar til að ná Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum saman. Í ljós kom að flokkarnir stóðu allt of langt frá hvor öðrum í veigamiklum málum til að mögulegt væri að þeir gætu starfað saman. Meðan á þessum viðræðum hefur staðið hefur Sigurður Ingi setið á hliðarlínunni og hugsað sitt. Framsóknarflokknum er einfaldlega ekki boðið að borðinu.

Og þetta er staðan nú í árslok. Enginn hefur formlegt stjórnarmyndunarumboð og því hefur verið velt upp að nauðsynlegt muni reynast að boða til nýrra kosninga á árinu 2017. Hins vegar hafa Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð verið í viðræðum yfir hátíðarnar og ekki ætti að útiloka að flokkarnir nái saman um stjórn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fréttir
Í gær

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi