fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Óeining innan Sjálfstæðisflokksins: Þingflokkurinn klofinn

Ekki samstaða um samstarf við Viðreisn og Bjarta framtíð – Líklegasta niðurstaðan engu að síður

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 29. nóvember 2016 07:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er klofinn í afstöðu sinni gagnvart samstarfi með Viðreisn og Bjartri framtíð. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, er mjög áfram um að slíkt samstarf verði að veruleika og nýtur til þess liðsinnis nánustu stuðningsmanna sinna. Á hinn bóginn er hörð andstaða við slíkt samstarf meðal annarra þingmanna flokksins. Er það einkum afstaðan til Evrópusambandsaðildar sem skiptir flokknum en einnig sjávarútvegsstefna.

Viðræður milli flokkanna þriggja voru talsvert á veg komnar í gærmorgun, mánudag, en samkvæmt heimildum DV mun eitthvað hafa dregið úr gangi þeirra seinnipart gærdagsins. Þó var ekki búist við öðru þegar blaðið fór í prentun en að þeim yrði framhaldið í dag. Samkvæmt heimildum DV mun standa til að ná lendingu í öllum helstu ágreiningsmálum milli flokkanna áður en Bjarni óskar eftir því við Guðna Th. Jóhannesson forseta að fá umboð til myndunar stjórnar afhent með formlegum hætti. Hefur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins verið gert viðvart um að mögulega verði boðað til þingflokksfundar með stuttum fyrirvara vegna þessa.

ESB veldur úlfúð

Andstæðingar samstarfsins hafa miklar efasemdir um lendingu mála varðandi Evrópusambandsaðild en fullyrt er að náðst hafi samkomulag um að spurning um aðild verði lögð í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá eru umræddir andstæðingar mótfallnir uppboðsleið í sjávarútvegi en Viðreisn hefur talað mjög fyrir að sú leið verði farin. Hins vegar er fullyrt að sátt hafi náðst milli flokkanna um sjávarútvegsmál og felist sú lausn í að lítill hluti kvóta verði boðinn upp en hærri veiðigjöld jafnframt lögð á útgerðir, þó tengd afkomu þeirra.

Bjarni mun studdur áfram af um tug þingmanna flokksins við myndun stjórnarinnar. Meðal þeirra eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir varaformaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, Teitur Björn Einarsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð, Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson, Vilhjálmur Árnason og Vilhjálmur Bjarnason. Andstæðingar samstarfsins eru færri en vitað er að Haraldur Benediktsson mun andsnúinn því. Þá eru Óli Björn Kárason og Sigríður Andersen einnig sögð andvíg samstarfinu, sem og Kristján Þór Júlíusson. Afstaða annarra þingmanna er óljósari.

Andstæðingum stillt upp við vegg

Staðan innan Sjálfstæðisflokksins er nú sögð sú að þeim sem andæfa samstarfi við Viðreisn og Bjarta framtíð hafi verið stillt upp við vegg og sagt að ekkert annað stjórnarmynstur sé í boði. Helgast það af því að Bjarni mun ekki tilbúinn í önnur stjórnarmynstur, nema því aðeins að Framsóknarflokkurinn verði hluti af slíkri stjórn. Vinstri græn, sem helst hafa verið nefnd í þessum efnum, hafna hins vegar alfarið þátttöku í stjórn með Sjálfstæðisflokknum ef Framsókn fylgir með. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru andvígir samstarfi með Viðreisn og Bjarti framtíð hafa meðal annars velt upp þeim möguleika að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn myndi minnihlutastjórn sem varin væri af Framsóknarflokknum. Ekki mun vera vilji til þess af hálfu Bjarna og hópsins í kringum hann.

Talið er líklegt að náist samkomulag milli flokkanna þriggja muni andstæðingar þess engu að síður beygja sig undir flokksaga og samþykkja myndun slíkrar ríkisstjórnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann