fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fréttir

Þjóðarátak gegn mergæxlum: Almenningur hvattur til að taka þátt

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 16. nóvember 2016 10:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum hófst með formlegum hætti í Norræna húsinu í dag þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands skráði sig til þátttöku.

Í tilkynningu frá aðstandendum verkefnisins segir að Blóðskimun til bjargar sé umfangsmikil vísindarannsókn sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands. Verkefnið er leitt af rannsóknarhópi undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar prófessors í blóðsjúkdómum og er frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands verndari þess. Næstu daga munu allir einstaklingar með búsetu á Íslandi sem fæddir eru árið 1975 og fyrr fá í pósti fjólublátt umslag sem inniheldur kynningu á rannsókninni og boð um þátttöku.

Einstök rannsókn

Sigurður Yngvi segir í tilkynningunni að um einstaka rannsókn sé að ræða. „Við ætlum að rannsaka hvort það sé ávinningur að því að skima fyrir forstigi mergæxlis eins og nú er gert fyrir forstigi leghálskrabbameins og brjóstakrabbameins. Ástæða þess að skimað er fyrir þessum tveimur tegundum krabbameina er að rannsóknir sýndu að skimun skilar ávinningi og viljum við leita svara við því hvort það sama eigi við um mergæxli. Forsenda þess að rannsóknin sé marktæk er að við fáum næga þátttöku og því vonumst við til að sem flestir kynni sér innihald fjólubláa umslagsins og skrái sig til þátttöku á heimasíðunni www.blodskimun.is.“

Frú Vigdís Finnbogadóttir segir mikilvægt að fólk taki þátt. „Við Íslendingar stöndum framarlega í baráttunni gegn krabbameini. Nú gefst okkur tækifæri til að leggja lið mikilvægum rannsóknum með því að taka þátt í þjóðarátaki gegn mergæxlum. Sem verndari þessa átaks höfða ég til landsmanna allra að ganga til liðs við færustu vísindamenn okkar sem vinna að þessu verkefni í þágu okkar allra.“

Þátttaka almennings skiptir sköpum

Forsenda þess að rannsóknin skili árangri er góð þátttaka. Til þess að taka þátt í verkefninu þarf að veita upplýst samþykki. Það er hægt að gera á vefsíðu þjóðarátaksins, www.blodskimun.is, eða með því að senda undirritaða samþykkisyfirlýsingu gjaldfrjálst með pósti. Næst þegar þátttakandi fer, einhverra hluta vegna, í blóðprufu, hvar sem er á landinu, mun rannsóknarhópurinn fá hluta af blóðsýninu til skimunar. Því þarf ekki að fara í sérstaka blóðprufu til þess að taka þátt í rannsókninni.

Aukin þekking bætir horfur sjúklinga

Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka hvort ávinningur sé af því að skima fyrir forstigi mergæxlis. Rannsóknin mun einnig gefa ýmis mikilvæg svör, til dæmis varðandi orsakir mergæxla, hentugasta greiningarferli, lífsgæði og hvort unnt sé að lækna þau með því að greina þau snemma og þar með meðhöndla fyrr en nú er gert.
Mergæxli er krabbamein í beinmerg og einkenna sjúkdómsins verður oft ekki vart fyrr en hann hefur haft alvarleg áhrif á heilsuna. Árlega greinast um 25 manns með sjúkdóminn hér á landi og alls um 120 þúsund manns á heimsvísu. Samfara auknum rannsóknum á sjúkdómnum og nýjum og betri lyfjum hafa horfur sjúklinga með mergæxli batnað gríðarlega síðastliðin ár. Hægt er að greina forstig mergæxlis með því að skima fyrir vissum próteinum í blóði. Forstig mergæxlis er þó ekki krabbamein og flestir sem eru með forstigið fá aldrei mergæxli. Með þátttöku í Blóðskimun til bjargar munu þau sem reynast vera með forstig sem þróast yfir í mergæxli mögulega greinast fyrr og því fá meðferð fyrr en ella hefði orðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Taldi sig vera í ástarsambandi við Chat GPT botta – Réðist á lögreglumenn og var skotinn til bana

Taldi sig vera í ástarsambandi við Chat GPT botta – Réðist á lögreglumenn og var skotinn til bana
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump ekki í hátíðarskapi – Harðlega gagnrýndur fyrir að ala á sundrungu – „Ég hata þá“

Trump ekki í hátíðarskapi – Harðlega gagnrýndur fyrir að ala á sundrungu – „Ég hata þá“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Áráttufullur perri í Reykjavík olli konum skelfingu – „Chupa Chupa“

Áráttufullur perri í Reykjavík olli konum skelfingu – „Chupa Chupa“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gullöld Donald Trump: Allt gengur forsetanum í hag

Gullöld Donald Trump: Allt gengur forsetanum í hag