„Í dag varð mælirinn endanlega fullur“
„Í dag sagði ég starfi mínu lausu því mælirinn varð endanlega fullur,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir í pistli á Facebook sem hefur vakið mikla athygli. Guðbjörg hefur starfað sem grunnskólakennari og kennt í rúm ellefu ár í Reykjavík. Ástæðuna má rekja hækkun launa til alþingismanna eftir umdeilda ákvörðun kjararáðs. Guðbjörg er einstæð móðir með tvö börn og vinnur þrjú aukastörf til að framfleyta fjölskyldunni.
„Grunnskólakennarar hafa í tvígang fellt kjarasamning á þessu ári og ástæðan er einföld, launin duga ekki til framfærslu. Í dag er ég með 465 þúsund krónur í mánaðarlaun, hækkunin sem nýr samningur bauð mér var um 9 prósent, dreift á þrjú ár. Það þýðir að í mars 2019 yrðu launin mín rétt rúmlega 500 þúsund. Ég vil taka fram að ég er ekki að tala um útborguð laun.“
Þá segir Guðbjörg einnig:
„Nýlega fór fram umræða hjá hópi kennara á samfélagsmiðlum þar sem kom fram að mjög margir kennarar vinna aðra vinnu með fram kennslunni. Ég er þar ekki undanskilin, ég er einstæð með tvö börn í eigin húsnæði og vinn þrjú aukastörf til að framfleyta fjölskyldunni. Ég er ung og hraust og víla það ekki fyrir mér að vinna mikið en það er augljóst að hvorki mér, né nokkrum öðrum er það hollt að vinna svo mikið til lengri tíma litið.
Hér fyrir neðan má lesa pistilinn í heild sinni:
,,Kjararáð hækkaði laun alþingismanna um 350 þúsund krónur í gær, en þeir fengu líka launahækkun fyrr á þessu ári. Samkvæmt samningi sem kennarar felldu hefði ég fengið um 40 þúsund króna hækkun samtals á tímabilinu október 2016 – mars 2019. Hver er sanngirnin í því?
Kennaraskortur er yfirvofandi í grunnskólum landsins og engu að síður er vilji stjórnvalda til að bæta kjör enginn. Álag hefur aukist, verkefnum fjölgað og þau orðið flóknari, en tíminn til að leysa þau af hendi er sá sami og launin standa í stað.
Ég valdi mér kennslu þar sem ég hef mikinn áhuga á að starfa með börnum og unglingum, ég er fær í mínu starfi og það var ekki auðveld ákvörðun að segja upp á miðjum vetri. Það er því með trega sem ég ákveð að hætta í skemmtilegu, krefjandi og gefandi starfi en mér er einfaldlega ekki stætt á því að halda áfram. Ég vona að ráðamenn átti sig á stöðunni áður en það er of seint og því ég vil að börnin mín sem nú eru í grunnskóla, hafi menntaða kennara á næstu árum, það er alls kostar óvíst eins og staðan er núna.“