fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Flassið kom í veg fyrir banaslys

Ferðamaður sem stóð á þaki bifreiðar sinnar á þjóðveginum skapaði stórhættu – „Það er þörf átaki áður en fleiri láta lífið“

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 28. september 2016 12:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hann stóð uppi á þaki bílsins og myndaði Norðurljósin þegar ég kom aðvífandi. Ég hafði orðið var við marga bíla úti í kanti þjóðvegarins nokkru áður enda var glæsileg sýning í boði. Sumir voru með viðvörunarljósin á, aðrir keyrðu inn á afleggjara og einhverjir voru hálfir inni á veginum. Ég fór því varlega og keyrði hægar en vant er,“ segir Kolbrún Ósk Guðjónsdóttir, sem býr í nágrenni Víkur í Mýrdal, í samtali við DV. Blaðamaður hafði samband í kjölfar færslu á Facebook sem hún skrifaði um atvikið.

Varð vör við skært ljós

Kolbrún Ósk var á heimleið í gær þegar að hurð skall nærri hælum á þjóðveginum. Atvikið átti sér stað við brúna yfir Hvammsá og var hún á austurleið. „Ég var með yngsta barnið í bílnum og átti um 50 metra eftir að afleggjaranum heim til mín. Það var niðamyrkur úti. Ég var að koma að brúnni þegar ég sá allt í einu skært ljós í 3 metra hæð. Mér fannst það einkennilegt í meira lagi og skömmu síðar kom annað slíkt ljós. Þá áttaði ég mig á því að um væri að ræða flass og allt í einu sé ég bíl sem var hálfur inn á veginum. Á þaki bílsins stóð ferðamaður að taka myndir af ljósadýrðinni í gríð og erg. Ég rétt náði að sveigja framhjá, flautaði og keyrði síðan heim með öndina í hálsinum. Eftir að ég hafði jafnað mig þá sá ég eftir því að hafa ekki stöðvað bílinn og talað yfir hausamótunum á þessum einstaklingi,“ segir Kolbrún Ósk.

Árvekni hennar bjargaði því að ekki fór verr á Suðurlandsvegi í gær. Að hennar sögn er þörf á átaki áður en fleiri láta lífið í hinni sívaxandi umferð um landið.
Kolbrún Ósk Guðjónsdóttir Árvekni hennar bjargaði því að ekki fór verr á Suðurlandsvegi í gær. Að hennar sögn er þörf á átaki áður en fleiri láta lífið í hinni sívaxandi umferð um landið.

„Þá hefði orðið banaslys“

Hún má ekki til þess hugsa hvað hefði gerst ef að hún hefði ekki orðið vör við flassið. „Hann skapaði stórhættu með þessu framferði sínu. Ef að ég hefði klesst á bílinn þá hefði orðið banaslys, það er á hreinu. Ekki veit ég hver réttastaða mín hefði verið, að því gefnu að ég hefði lifað áreksturinn af. Ætli ég hefði ekki verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi,“ segir Kolbrún Ósk.

Tæpar tvær vikur eru síðan að erlendur ferðamaður lét lífið á Sólheimasandi, skammt vestan við Pétursey. Maður­inn var í tíu manna hópi á tveim­ur bif­reiðum. Bif­reiðarn­ar höfðu verið stöðvaðar í veg­kant­in­um og fólkið farið út úr þeim. Hinn látni varð fyrir bifreið sem kom aðvífandi og var á vesturleið. „Ég starfa í ferðamannabransanum og fagna þeirri aukningu sem hefur átt sér stað. Flestir ferðamenn fara varlega en þó eru margir sem að átta sig ekki á aðstæðum hér og skapa stórhættu. Þetta er okkar hraðbraut en á mælikvarða þeirra sem koma frá stærri löndum þá er þjóðvegurinn okkar eins og sveitavegur. Það er okkar að fræða þessa einstaklinga, í flugvélinni eða hjá bílaleigunum. Það er þörf átaki áður en fleiri láta lífið,“ segir Kolbrún Ósk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí