Menntamálaráðherra hefur ekki kost á sér í komandi þingkosningum – „Ég mun kveðja stjórnmálin sáttur, en vissulega með nokkrum söknuði.“
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Þetta tilkynnti Illugi á Facebook-síðu sinni nú rétt í þessu.
„Eftir vandlega yfirlegu hef ég ákveðið að ég muni ekki gefa kost á mér til setu á Alþingi í næstu kosningum.
Allt frá því ég kom heim frá námi árið 2000 hafa stjórnmál verið megin viðfangsefni mitt og ég hef starfað sem aðstoðarmaður forsætisráðherra og utanríkisráherra, gegnt þingmennsku, verið þingflokksformaður og nú síðast ráðherra,“ segir Illugi í færslu sinni.
Þessi tími hefur verið sérstakur í þjóðarsögunni, tími mikilla átaka og stórra atburða sem marka munu íslenskt samfélag til framtíðar. Ég er mjög þakklátur fyrir það tækifæri sem ég hef fengið til að taka virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni og sérstaklega vil ég þakka öllum þeim sem hafa stutt mig með ráðum og dáð á undanförnum árum, bæði í prófkjörum sem og í stjórnmálastarfinu almennt. En mat mitt er að ég standi nú á þeim tímamótum að annað hvort haldi ég áfram í stjórnmálum og geri þau að ævistarfi, fái ég til þess stuðning kjósenda, eða snúi mér að öðrum verkefnum. Í ljósi þessa hef ég komist að þeirri niðurstöðu að um það bil 16 ára vera á sviði stjórnmálanna sé nægjanleg, a.m.k. að sinni og að skynsamlegast og áhugaverðast fyrir mig sé að leita nýrra áskoranna á öðrum vettvangi. Ég mun kveðja stjórnmálin sáttur, en vissulega með nokkrum söknuði. Um leið hlakka ég til að takast á við ný verkefni, hver sem þau kunna að verða.“
Illugi hefur verið alþingismaður frá árinu 2007 en með hléum þó. Árið 2010 tók hann sér leyfi frá þingstörfum vegna setu sinnar í stjórn peningamarkaðssjóðsins Sjóður 9 en málum hans var vísað til athugunar hjá sérstökum saksóknara af rannsóknarnefnd Alþingis. Snéri Illugi aftur úr leyfi árið 2011.