fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Er þetta líka fyrir karla?

Haraldur Agnar Civelek

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. júlí 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Má ég koma núna?“ var eitt það fyrsta sem Haraldur Agnar Civelek sagði þegar hann tók upp símann og leitaði sér aðstoðar við að vinna úr ofbeldi sem hann varð fyrir barnungur. Hann var þá 24 ára gamall, en það var á hárréttu augnabliki fyrir hann sjálfan. Hann leitar ekki gerandans, hann þarf þess ekki en hefur unnið úr afleiðingunum og áhrifum þess sem gerðist í rúman einn og hálfan áratug. Hann segist vona að einn daginn hætti karlar að velta því fyrir sér hvort þeir megi leita sér aðstoðar og drífi frekar í því. Það breytir nefnilega svo mörgu til hins betra.


Halli kemur inn og segist með bros á vör vera búinn að vera að útbúa karamellu allan daginn. Hann er að undirbúa barnaafmæli. Lífið snýst enda um dóttur hans og fjölskylduna sem býr í París. Hann er hönnuður og hefur undanfarið ár verið heima með dóttur sinni á meðan eiginkona hans vinnur sem fyrirsæta í borginni. Þau hafa búið víða um heim en eru sæl með lífið í París þó að það hafi gengið á ýmsu í borginni undanfarið ár. Við sitjum á ritstjórnarskrifstofu DV síðla kvölds. Hann er tilbúinn að ræða hlutina, finnst það raunar ekkert tiltökumál enda hefur margra ára sjálfsskoðun og uppbygging gert honum kleift að ræða málin, vera til staðar fyrir þá sem vilja segja honum frá.

Var barn

„Ég var beittur ofbeldi þegar ég var barn,“ byrjar hann. Ofbeldið stóð yfir í tvö til þrjú ár.
Halli sagði aldrei neinum hvað hafði gerst á meðan hann var að vaxa úr grasi. Hann man hluta af því og veit að það gerðist í blokk þar sem hann bjó sem barn. Halli veit ekki hver braut á honum og vill ekki vita það. Halli þekkir ekki andlitið á honum. Það skiptir hann ekki máli. En minningabrotin hellast stundum yfir hann þegar hann finnur til dæmis lykt eða jafnvel bragð. Það sem honum hefur reynst erfiðast að yfirstíga er að hann telur sig hafa sjálfviljugur hitt manninn sem braut á honum. En hann var bara barn, fjögurra eða fimm ára gamall, og ekki hans að axla ábyrgðina. Í dag er hann meðvitaður um brotið en getur skilið það frá sjálfum sér að vissu leyti. Hann er ekki það sem kom fyrir hann, þó að það hafi vissulega fylgt honum í gegnum tíðina.

En þessi hugarfarsbreyting varð þó ekki fyrr en hann fór loksins, 24 ára gamall, og bað um hjálp. Samtal við aðra manneskju kveikti löngunina til að segja loksins frá, þegar hann gerði sér grein fyrir því að viðkomandi hefði einnig orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það var í fyrsta skipti sem hann orðaði þetta við nokkra manneskju.

Næsta dag ákvað hann að gera eitthvað í málinu.

Hringdi sig inn veikan

„Ég var 24 ára þegar ég hringdi mig inn veikan í vinnunni því ég ætlaði að fara niður í Stígamót. Ég tók upp tólið og hringdi þangað. Ég var mjög stressaður. Ég gekk um gólf og hélt á símanum áður en ég þorði að slá inn númerið. Þó að ég hafi verið ákveðinn í því að fara og hringja, þá var það svo risastórt verkefni að takast á við. Fyrsta spurningin mín var: Er þetta líka fyrir, hérna, karla?“

Konan á hinum enda línunnar svaraði því játandi. Halli spurði því aftur: „Ég held að það hafi eitthvað komið fyrir mig. Má ég koma til ykkar?“ Aftur svaraði röddin játandi. „Má ég koma í dag?“

Hvort hann mátti.

„Ég held að það hafi, í mínu tilfelli, skipt máli. Það skipti mig eflaust meira máli en ég áttaði mig á að í fyrsta skipti sem ég sagði frá því sem kom fyrir var mér sýndur fullkominn skilningur og mér var trúað. Ég veit ekkert hvernig þetta hefði farið ef fyrstu viðbrögðin hefðu ekki verið svona,“ segir Halli og segist vita að hann hafi verið mjög heppinn. Hann sagði fjölskyldunni sinni og sínum nánustu þetta svo smátt og smátt í góðu tómi þegar hann var tilbúinn til þess.

Vantaði „ríkulega frásögn“

Hjá Stígamótum varð hann hluti af karlameðferðarhópi en hafði einnig sinn eigin ráðgjafa. „Mér fannst svolítið erfitt að vera í þessum hópi því mér fannst það sem kom fyrir mig ekki nógu merkilegt. Mér fannst alltaf einhver annar eiga ljótari, átakanlegri og merkilegri sögu. Mér fannst ég ekki eiga skilið að láta aðra hlusta á þetta sem „var ekki neitt“,“ segir hann, en það er mjög algengt meðal karlkyns þolenda. Ranghugmyndir um að þeir eigi jafnvel ekki skilið að segja frá.
„Hún hefur alltaf loðað við mig, þessi hugmynd um brotið,“ segir Halli og segist enn í dag upplifa að þetta sé ekki „nógu merkilegt“.

„Ég hef unnið í áhrifunum, en mér hefur alltaf fundist ástæðulaust að grafa upp þessi brot. Það eru áhrifin og afleiðingarnar sem ég er að kljást við.

Í þessum karlahóp ræddi ég það einmitt einu sinni að ég gæti ekki séð þörf á því að ég færi að grafa eitthvað dýpra. Þetta var ekki aðili innan fjölskyldunnar minnar og tengist mér ekki. Ég vissi nóg. Mér fannst ég ekki í afneitun, ég var kominn þarna til að vinna úr þessu og hef gert það, en ég var þakklátur fyrir að muna þetta ekki allt. Ég get litið svo á að ég hafi komist yfir ákveðinn hluta þess og mér fannst ástæðulaust að grafa meira upp. En það var út af þessu sem mér fannst að það vantaði kannski að ég ætti „ríkulega frásögn“. Ég spurði því ráðgjafann, af einlægni: er ég í afneitun? Er ég að reyna að muna þetta ekki? En fékk þau svör að það væri einmitt ekki ástæða til þess að ég væri að reyna að muna hluti sem ég ekki gæti munað heldur væri mikilvægara að fókusa á mig, þar sem ég var staddur þá í ferlinu,“ segir hann.

Hann gat því einbeitt sér að afleiðingunum. „Mér finnst það í rauninni lúxus, fyrir mig persónulega, að hafa ekki alla þessa vitneskju. Stóra málið var að ég vissi að ég hefði orðið fyrir ofbeldi og að ég væri ofurmeðvitaður um áhrif þess á mig. Ég á alveg nóg með það sem ég þó man. Þó að ég væri með minningabrot stöðugt ómandi í höfðinu, var ég svo þakklátur fyrir að hafa ekki fleiri þúsund smáatriði bergmálandi til viðbótar við allt það sem var þá þegar í gangi í höfðinu. En þakklætið breyttist líka í minnimáttarkennd, því af þessum sömu sökum fannst mér mín upplifun vera „minni“ og ómerkilegri en annarra, sem mundu meira.“

Skrúfaði fyrir kranana

Það kom aldrei til að hann kærði ofbeldið. Það voru tuttugu ár liðin frá því að brotið var á honum. Hann vildi fyrst vinna í sjálfum sér og segir svo: „Á þessum tíma urðu mál líka fyrnd, liggur við á einni helgi.

Ég fann, eftir að ég byrjaði að vinna í þessu, að þetta hefur auðvitað verið kjarni í minni tilvist. En ég fann aldrei fyrir skömm, þannig séð. Þetta var hluti af mér, ég vissi af þessu en ég var ekki að einbeita mér að því. Ég varð aldrei reiður – aldrei sár. Þetta var bara þarna og var alltaf í bakgrunninum. Það spiluðust einhver atriði, lítil minningaskot,“ segir hann. En það var svo fjarri honum að segja einhverjum frá því sem gerðist. Hann líkir þessu við að vera á gangi þar sem margar skólastofur eru og opið inn í þær. Í hverri stofu er skrúfað frá krana. Niðurinn frá vatninu verður smám saman hluti af hljóðmenguninni, en eftir vinnuna og sjálfsskoðunina sem hann fór í gegnum var eins og það væri skrúfað frá einum krana í einu og kyrrðin lagðist yfir.

„Skyndilega var þetta eins og það væri einn krani eftir, ég vissi af honum, en hann truflaði mig ekki lengur. Ég leyfi honum bara að vera. Þetta var hluti af mér, ég sætti mig við það þá og þessi atburður hefur örugglega litað mig. En ég vissi það bara ekki og gat ekki speglað mig í því fyrr en ég varð loksins tilbúinn til að ræða málin. Það varð rof þarna á milli þangað til. Ofbeldið hafði áhrif á mig sem ég, vegna rofsins, ungs aldurs og fleira, átti ekki möguleika á skilja eða vinna úr að neinu leyti. Ég gat ekki áttað mig á áhrifunum og hafði engin tól til að vinna úr neinu sem ég hugsaði. Þegar ég var unglingur heyrði ég og las frásagnir annarra, þótti þær merkilegar og átakanlegar, en, aftur, ég pældi aldrei í að segja frá. Ég var ekki í afneitun, sagði aldrei við sjálfan mig að þetta hefði ekki gerst eða neitt þvíumlíkt. Ég vissi alltaf af þessu, hugsaði stöðugt um þetta, en ég hreinlega spurði mig aldrei nokkru sinni hvort ég ætti eða vildi segja frá. Þessi hugmynd eða þetta konsept – að „segja frá“ – kom aldrei nokkru sinni upp.“

Á ekki að þurfa að vera erfitt

Hann segist hafa lært margt hjá Stígamótum og fer þangað þegar hann þarf á því að halda.

„Það sem sat eftir hjá mér eftir að hafa verið í þessum karlahópi var þessi sérstæða sameiginlega reynsla. Þú heyrir einhvern segja eitthvað og þú tengir fullkomlega við það,“ segir hann. Hann vísar til afleiðinganna, til dæmis á sjálfstraust. Í karlahópnum hans voru mennirnir allir sannfærðir um að þeir væru með óeðlilega litlar geirvörtur, typpin á þeim væru ekki eins og á öðrum karlmönnum eða þá að húðin þeirra væri ekki í réttum litatón. „Það var sérstakt að sjá sömu höfnunartilfinninguna, sömu líkamsskömmina, sama skortinn á sjálfstraustinu. Þetta var breiður hópur, karlar á ólíkum aldri og ólíkir yfirhöfuð en við áttum þetta sameiginlegt,“ segir hann.

Ofbeldi gegn körlum er sjaldnar í kastljósinu og þó að umræðan sé að aukast og vonandi að verða þolendavænni eru enn margir sem eiga erfitt með að leita sér hjálpar.

„Ég veit að það er þannig, enn í dag sextán árum eftir að ég fór að venja komur mínar þangað, að karlar hringja í Stígamót og spyrja hvort það sé tekið á móti þeim. Mér finnst það mjög erfitt.“

Haraldur segist velta því fyrir sér hvort það reynist körlum oft erfiðara að leita sér aðstoðar vegna þess að þeir búa ekki við innbyggða hræðslu um að verða fyrir kynferðisofbeldi. Þegar það svo gerist verði áfallið þegar viðkomandi karl verður fyrir ofbeldi svo stórt og mikið. „Ég held að margar konur geri það, búi við þessa innbyggðu hræðslu, vegna þess að þetta er svo nálægt þeim. Þetta byrjar oft svo snemma. Þegar stelpum var kennt að strákar sem eru vondir við þær séu skotnir í þeim til dæmis,“ segir hann. „Ég er oft forvitinn um það hversu margir karlar fara í viðtöl, hvort þeir komi aftur eftir fyrsta viðtalið, hvernig þeir sinni þessu til langs tíma. Ég óttast stundum að sú sé ekki raunin.“

Þurfum að standa við stóru orðin

Hann segist velta því fyrir sér hvort samfélagið sé tilbúið til þess að sýna brotaþolum raunverulegan skilning, þrátt fyrir loforðin.

„Sálarmorð og svona, ég á mjög erfitt með að fólk sé brennimerkt sem manneskjur sem eigi sér ekki viðreisnar von,“ segir hann og segir það mikilvægt að hætt verði að búa til staðalmynd manneskju sem hefur orðið fyrir ofbeldi. „Það þarf að sýna samkennd, ekki vorkunn.

Fólk verði að fá svigrúm til að byggja sig upp, vinna sig út úr því sem gerðist á eigin forsendum án þess að við ákveðum hver réttu viðbrögðin séu, enda séu þau ekki til.“ Hann segist einnig vona að þeir sem velji þann kost að segja frá hlutunum opinberlega, geri meira en bara segja frá einu sinni. Að þeir leiti sér raunverulega aðstoðar, þurfi þeir þess.

„Þó að ég viti að það sé mikilvægt að vinna í sínum málum, er ég samt stundum hræddur um að fólk finni fyrir pressu til að segja frá. Það er ekki jákvætt í mínum huga. Ég held að maður eigi ekki að gera það fyrr en hann er tilbúin til þess. Ég hef séð fólk segja frá, til dæmis á samfélagsmiðlum, en gera svo ekkert frekar. Það að segja frá opinberlega er kannski bara fyrsta skrefið, það er líka mjög gott skref, en maður verður að vinna þetta lengra, fyrir sig sjálfan. En það er ekki hægt að neyða fólk til að segja frá eða kæra. Það verður bara að gera það á sínum eigin hraða.“

## Vill geta talað
„Ég er að mörgu leyti frjáls frá þessu. Ég er ekki reiður yfir minni reynslu, ég vorkenni ofbeldismanninum miklu meira en ég vorkenni sjálfum mér. Ég hugsaði með mér að ég ætlaði ekki að eyða tíma mínum í að hata. Ef ég fengi nafnið á viðkomandi, hvað myndi ég gera við það? Ég er á þeim stað að ég vil frekar vera góður pabbi og eiginmaður, ég vil geta stutt þá sem lenda í svona sjálfir, ég vil geta talað um þessi mál, og ég vil halda áfram að vinna í sjálfum mér. En svona mál trylla mig auðvitað alltaf. Ég kynni mér þessi mál, ég reyni að fræða aðra og láta gott af mér leiða.“

Hann tekur líka virka afstöðu. Hann velur að trúa þeim sem segja frá, enda var honum trúað og veit að það skiptir öllu máli. Hann vill skapa sitt eigið þolendavæna umhverfi. „Ég tala oft um mitt mál við fólk, svo að það skilji að einhver nær þeim en það heldur, hafi orðið fyrir ofbeldi. Til að fá það til að skilja. Ég geri það líka til að fá fólk til að skilja að þó að einhver hafi orðið fyrir svona ofbeldi, þá sé manneskjan ekki ónýt. Hún á að fá tækifæri til að halda áfram að lifa og þarf að fá aðstoð til þess. Ég tala líka við fólkið sem efast um frásagnir þolenda og segir: „En, maður veit náttúrlega aldrei.“ Mig langar að það skilji, en hlutirnir eru stundum bara svo fjarri því, það getur ekki sett sig í þessi spor. Fyrir vikið samþykkir það kannski frásögn ofbeldismannsins frekar en þess sem var brotið á.

Mér var trúað, ég hef aldrei þurft að berjast fyrir því að koma sannleikanum upp á yfirborðið. Svo er ég heppinn að sá sem braut á mér tengdist fjölskyldunni ekki, og ég þurfti aldrei að horfa á neinn tala fallega um hann eða til hans, eða vera góður við hann á neinn hátt. Ég slapp blessunarlega við alla þannig auka togstreitu og sársauka hvað sjálfan mig varðar – en ég upplifi togstreituna og sársaukann reglulega í gegnum umfjöllun um brot sem aðrir verða fyrir.
Oft þarf ég að setja svona mál í samhengið: Hvað ef þetta væri mamma þín, systir þín, dóttir þín? – sem er ömurlegt, því ég gæti alveg sagt: hvað ef þetta væri bróðir þinn? Hvernig myndi þér líða ef þeim væri ekki trúað og þau fengju viðbrögðin: „En auðvitað veit maður aldrei?“ En ef ég næ til fólks svona þá verður það að vera þannig. Við skiljum hlutina oft ekki fyrr en þeir eru komnir í samhengi við okkar nánasta umhverfi. Vonandi getum við breytt því, með því að trúa fólki strax. Ég var heppinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd