Hundar eru þjálfaðir til að vernda nashyrninga í Orrustulæk – Þurfa 400 hunda hið minnsta
Hundar eru gjarnan þjálfaðir til ýmissa verka. Þeir aðstoða fólk sem hefur sértækar þarfir, svo sem blinda einstaklinga, þeir leita að fíkniefnum og sprengjum fyrir lögregluna og oft aðstoða þeir veiðimenn. En í leynilegum búðum í Suður-Afríku, sem kallast Battle Creek, eða Orrustulækur, eru hundar þjálfaðir til þess að elta uppi veiðiþjófa. Margar leiðir hafa verið reyndar í Suður-Afríku til að stemma stigu við drápi á dýrum í útrýmingarhættu. Það eru helst nashyrningar sem verða veiðiþjófum að bráð í Suður-Afríku og víðar í heimsálfunni.
Hundaþjálfunin er verkefni á vegum Ichikowitz-fjölskyldusjóðsins. Hundar og menn eru þjálfaðir í sameiningu með sérsveitarbrögðum. Mennirnir eru umsjónarmenn hundanna og þurfa því talsverða þjálfun.
Hundarnir eru þjálfaðir í að finna skotvopn, finna veiðimenn, sem liggja í leyni, og að síga úr þyrlum. Þjálfararnir og hundarnir fara í eftirlitsferðir sem geta staðið í þrjá daga. Þeir bera vistir sínar sjálfir, eru settir í feluliti til að geta falið sig í náttúrunni og á næturnar sofa hundarnir og þjálfararnir saman í svefnpoka. Æfingabúðirnar í Orrustulæk standa yfir í þrjá mánuði og myndast þá sterk tengsl milli þjálfara og dýrs. Hundarnir eru upp til hópa þýskir fjárhundar eða belgískir Malinois-fjárhundar. Hundarnir eru valdir úr goti sem er ræktað í Orrustulæk, en þar eru nú um 50 hundar. Alls þarf 400 varðhunda í Suður-Afríku til að anna eftirspurn.
Miklar vonir eru bundnar við að hundarnir og þjálfararnir geti komið í veg fyrir veiðiþjófnað, en þegar hafa verið gerðar tilraunir með dróna. Ljósmyndari EPA fór og hitti hundana og þjálfarana í Orrustulæk og kynntist meðal annars þeim Venom, Killer, Alpha og Delta.