„Var áður efsti maður á lista Vinstri grænna í Skagafirði“
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, hafnar því alfarið að nýr skólameistari Borgarholtsskóla hafi verið ráðinn á pólitískum forsendum. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að sá sem var ráðinn hafi áður verið efsti maður á lista Vinstri grænna í Skagafirði.
Í grein sem Ragnar Þór Pétursson, sem sagði sig úr skólanefnd Borgarholtsskóla, skrifaði á Stundina fullyrti hann að búið hafi verið að eyrnamerkja Ársæli, sem væri „innanbúðarmaður“ hjá Illuga, stöðuna og að nær útilokað væri að ráðningin hafi farið fram á faglegum forsendum. Ólöf hafi „látið nota sig“ til að skila þeirri niðurstöðu.
Þessu hafnar Illugi með öllu. Í viðtali við Morgunblaðið segir hann: „Sá sem ráðinn var í þetta embætti var efsti maður á lista Vinstri grænna í Skagafirði í sveitarstjórnarkosningunum 2002 og jafnframt sveitarstjóraefni framboðsins. Mér er það mjög til efs að innanríkisráðherra hafi verið að leggja einhverja sérstaka lykkju á leið sína til að ráða í embætti forystumann úr röðum Vinstri grænna – líkt og gefið er í skyn í þessari bloggfærslu.“
Illugi segir það jafnframt einkennilegt orðalag hjá Ragnari að kalla Ólöfu „lepp“. „Það er sérkennilegt að halda því fram að Ólöf Nordal sé leppur og einhvers konar viljalaust verkfæri í höndum annarra. Það segir mér að hann hefur aldrei hitt ráðherrann.“
Ragnar gagnrýnir sömuleiðis að þegar skólanefndin hafi fengið það hlutverk að meta hæfi umsækjenda hafi henni borist „frekar nákvæm fyrirmæli þar sem meðal annars var mælst til þess að nefndin léti það vera að skoða umsækjendur of vel“.
Umrædd fyrirmæli eru að finna í stöðluðu bréfi sem sent er til allra skólanefnda þegar skipað er í stöðu skólastjórnenda. Bréfið styðst við svokallað umburðarbréf sem sent var skólanefndum við lagabreytingar árið 2009.
Illugi segir að hið staðlaða bréf sem skólanefndum er sent hafi verið í óbreyttri mynd allan þann tíma sem hann hafi verið ráðherra.