fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

„Við ættum bara að loka borginni“

Bjarna Þór blöskrar óþrifnaður í Reykjavík – Enn tvær vikur í að vorhreinsun ljúki

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 29. maí 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Til hvers að eiga höfuðborg ef hún er að drukkna í drullu og rusli?“ spyr Bjarni Þór Þórarinsson, ráðgjafi og íbúi við Víðimel í Vesturbæ Reykjavíkur. Honum blöskrar óþrifnaður í Vesturbænum og segir ástandið aldrei hafa verið jafn slæmt. DV hefur fengið fleiri ábendingar frá borgarbúum í Vesturbænum í sömu veru.

Upplýsingafulltrúi borgarinnar segir í samtali við DV að sú ákvörðun hafi verið tekin að sópa fyrst götur og stíga á þeim svæðum sem lengst þurftu að bíða í fyrra. Hverfi sem hafa póstnúmer 103 og 107 eru þau hverfi sem síðast verða sópuð þetta vorið. Hann viðurkennir í samtali við DV að hann verði meira var við óánægju borgarbúa nú en áður en hvetur þá sem hafa ábendingar um það sem betur má fara til að koma ábendingum á framfæri í þar til gerðan farveg.

Tækin sem borgin notar til þrifa

Tækin sem borgin notar til þrifa

• 2 götusópar með háþrýstisugu,• 4 götusópar,• 6 gangstéttasópar,• 2 dagsópar,• 4 sugur,• 4 stórir vatnsbílar,• 2 litlir vatnsbílar,• 1 stampalosunarbíll.

Bjarni Þór er hundaeigandi og gengur mikið um Vesturbæinn. Hann segir svæðið sérstaklega óþrifalegt þetta vorið, rusl liggi sem hráviði um bæinn og stígar og götur hafi ekki verið hreinsuð. Ekkert hafi verið þrifið síðan í fyrrahaust. „Þetta er skömm og hneisa,“ segir hann í samtali við DV. Rykið og drullan á stígum berist svo af skóm og loppum inn á heimili fólks – íbúum til ama. Mestu muni um laufin frá því í fyrrasumar, sem liggi í hrúgum nánast hvar sem er.

Vesturbærinn síðastur í ár

Á vef Reykjavíkurborgar, reykjavik.is/hreinsun, má sjá hvernig hreinsun gatna og stíga í höfuðborginni vindur fram. Hreinsun stofnbrauta, stofnstíga milli hverfa og helstu stíga átti í allri borginni að vera lokið í viku 17, eða í lok apríl.
Hreinsun gatna, stíga og gangstétta innan hverfa – þar sem húsagötur eru sópaðar og þvegnar – verður lokið í þarnæstu viku, eða þann 11. júní í síðasta lagi. Nú erum við í viku 21 en í henni á að hreinsa götur og stíga í hverfi 105, sem afmarkast af Snorrabraut í vestri, Sæbraut í norðri og Kringlumýrarbraut í austri. Einnig er verið að ljúka við að hreinsa götur og stíga í póstnúmeri 110, en þar er um að ræða Elliðaárdal og Árbæ. Þegar þetta blað kemur út standa þá eftir póstnúmer 101 (miðbær), 103 (Hlíðar) og 107 (Vesturbær) í vesturborginni en póstnúmer 112 (Grafarvogur) og 113 (Grafarholt) í austurborginni. Eins og áður segir á allt að vera orðið hreint þann 11. júní.

Í haust verður svo sópuð ein umferð á götum og gönguleiðum auk þess sem miðbærinn er hreinsaður fimm sinnum í viku.

Ábendingavefurinn besta leiðin

Eins og áður segir nefnir Bjarni Þór, sem hefur búið í Vesturbænum í áratug, að óvenju mikið rusl sé í Vesturbænum. Spurður hvernig hreinsun á því sé háttað segir Jón Halldór Jónasson upplýsingafulltrúi að hverfastöðvar borgarinnar og garðyrkjufólk á vegum hennar sjái um slíkt að stórum hluta. Hann hvetur borgarbúa til að senda inn ábendingar í gegnum ábendingavef borgarinnar – sem er hluti af reykjavik.is. Þær ábendingar rati beint inn í kerfið sem fólkið á vettvangi starfi eftir. Þar færir fólk að lágmarki inn nafn sitt, götuheiti og efni ábendingarinnar. Jón Halldór segir að þetta sé langskilvirkasta leiðin til að koma ábendingu á framfæri. „Þetta er samtengt við verkbeiðnakerfið okkar og þar eru allar okkar verkbeiðnir gefnar út. Við vinnum eftir þessu,“ segir hann við DV.

„Það er jákvætt og gott að fólk láti sig málin varða.“

Beinskeyttari umræða

DV hafa sem áður segir borist allnokkrar kvartanir í þá veru að borgin sé óhrein og stígar illa sópaðir. Spurður hvort starfsmenn borgarinnar hafi orðið varir við aukna óánægju viðurkennir Jón Halldór að hann upplifi umræðuna svolítið harðari en áður. Þar spili samfélagsmiðlar stóra rullu. „En það er jákvætt og gott að fólk láti sig málin varða. Umræðan er beinskeyttari og það er bara ágætt.“

Bjarni Þór segir að íbúar í Vesturbænum, þar sem hann þekkir best til, hafi margir hverjir dregið fram sópinn og hreinsað götur og stíga sem liggja meðfram húsum sínum. Fólk hafi gefist upp á því að bíða. „Það eru ótrúlega margir búnir að fara út að sópa,“ segir hann og bætir við að göturnar sjálfar hafi líklega aldrei verið verr á sig komnar. Hann segir við blasa að þeir sem reka borgina tími ekki að leggja þann pening sem þyrfti í hreinsun. „Við ættum bara að loka borginni ef við getum ekki haldið henni hreinni,“

Jón Halldór hafnar því aðspurður að borgin hafi undanfarin ár skorið niður fé til hreinsunar gatna og stíga. Þrifin séu með svipuðu sniði og verið hafi. DV óskaði eftir upplýsingum um kostnað við götu- og stígahreinsun í Reykjavík 2015 og 2016 en einnig kostnað við ruslhreinsun og gatnaviðgerðir. Svör höfðu ekki borist frá borginni þegar DV fór í prentun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni