Árásarmaðurinn kærasti fyrrverandi nemanda sem kom að sækja eigur sínar
Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari Framhaldsskólans á Laugum, var kýldur í skólanum á miðvikudag. Fyrrverandi nemandi var þar kominn til að sækja eigur sínar af heimavistinni. Nemandinn, ónefnd stúlka, taldi að eitthvað vantaði upp á og brást kærasti hennar hinn versti við og réðst á skólameistarann.
„Kærastinn vildi meina að ég og skólinn bærum ábyrgð á þessum eigum sem vantaði og þau töldu þær vera þarna í öðru herbergi.“
Sigurbjörn bætir við:
„Ég fékk leyfi til að fara þar inn og þar fannst eitthvað af þessu dóti. Í kjölfarið kom til orðaskipta og ryskinga milli herbergiseiganda og þessa fyrrverandi nemanda. Drengurinn [kærastinn, innsk. blm.] var búinn að segja við mig fyrir að ef til ryskinga kæmi þá myndi hann slá mig fyrir hvert högg sem hann fengi. Því ég bæri ábyrgð á öllu saman. Þegar ég kem fram úr þessu herbergi og er að afhenda henni eigur hennar þá stekkur hann til mín og slær mig.“
„Ég er aðeins marinn og aumur á bak við eyrað,“ segir Sigurbjörn sem hefur kært árásina.