fbpx
Þriðjudagur 04.nóvember 2025
Fréttir

Vill leyfa álftaveiði

Tjónið af álftum metið á tugi milljóna árlega – Álftarstofninn tífaldast á hálfri öld

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 12. apríl 2016 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi, sem heimilar veiðar á álft. Álftin hefur verið friðuð á Íslandi, eins og í flestum löndum í rúma öld, eða frá árinu 1913. Ástæður fyrir friðun voru fyrst og fremst fagurfræðilegs eðlis segir í greinargerð með frumvarpinu. Í áliti nefndar sem fjallaði um friðun álftarinnar á Alþingi árið 1913 segir að „Álftin þyki fagur og tignarlegur fugl, auk þess sem lítil hefð hafi verið fyrir því að veiða álftir til matar.“

Talningar benda til að íslenski álftarstofninn hafi ekki verið nema þrjú til fimm þúsund fuglar í kringum 1960. Nokkur fjölgun varð svo fram til 1986 og hélst stofninn stöðugur næsta áratug, en hefur farið vaxandi síðan. Frá árinu 1991 hafi fjölgun í stofninum samkvæmt talningu numið um 2,5% á ári að meðaltali.
Ekki virðast vera til nýrri tölur, en ef miðað er við 2,5% fjölgun áfram má leiða líkur að því að stofninn sé nú að nálgast 35 þúsund fugla.

Í greinargerðinni kemur fram að ágangur gæsa og álfta hafi aukist að sama skapi og að ástæðuna megi m.a. rekja til breyttra búhátta. Ræktun á korni og repju hafi aukist til muna sem leiddi til þess að tjón á ræktarlöndum bænda jókst.

Varnartæki fyrir bændur

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. „Ég er fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni bænda og að þeir hafi tök á að verjast þessum mikla ágangi,“ sagði Silja Dögg í samtali við DV. Hún segir ástæðuna fyrir því að málið komi núna fram vera að hún hafi hlustað á kornræktendur og repjubændur sem hafi greint frá umtalsverðu tjóni vegna ágangs gæsa og álfta. „Bæði hef ég verið á fundum þar sem þessi mál hafa brunnið á fólki og einnig fengið símtöl og átt samtöl við bændur.“

Árin 2014 og 2015 var bændum gefinn kostur á að tilkynna um tjón af völdum álfta og gæsa á Bændatorginu sem er vefsíða þar sem bændur geta m.a. nálgast hagnýtar upplýsingar um búreksturinn. Fyrra árið tilkynntu 130 bændur um tjón í gegnum Bændatorgið en árið 2015 voru þeir aðeins 46.

Í greinargerðinni með frumvarpinu er bent á að kornrækt hafi dregist saman milli áranna og kunni það skýra fækkun á tjónstilkynningum. Álft olli tjóni á 183 hekturum af korni á þessum árum og grágæs á 175 hekturum, heiðagæs á 90 hekturum og aðrir fuglar á 28 hekturum.

Tjónið tugir milljóna

Fjárhagslegt tjón af völdum álfta og gæsa er mest á túnum og samkvæmt útreikningum í greinargerð frumvarpsins nemur það 70 til 90 milljónum króna.

Lagt er til í frumvarpinu að ráðherra geti í reglugerð og að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands aflétt friðun álftar innan sömu tímamarka og gilda nú um gæsir.

Silja Dögg býst ekki við að þetta frumvarp komist á dagskrá þingsins fyrr en í haust, þar sem fjöldi mála bíður afgreiðslu.

Hún segist ekki hafa haft tök á kynna sér afstöðu þingmanna almennt og renni því blint í sjóinn með þetta mál.

En hefur þú borðað álft?

„Nei, það hef ég ekki gert.“

En last þú Dimmalimm þegar þú varst lítil?
„Já, það gerði ég. Svanurinn er mjög fallegur fugl en ég er að hugsa þetta mál fyrir hönd bænda og þeirra sem þurfa að verja lönd sín.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt