Högni Egilsson stal svo sannarlega senunni á undanúrslitakvöldi Söngvakeppninnar í gær með útgáfu sinni á einu af okkar ástsælasta Eurovision-lagi, All Out of Luck.
Líkt og fram kom á dv.is í gærkvöldi héldu sjónvarpsáhorfendur vart vatni yfir útsetningu Högna á laginu og höfðu margir á orði að farsælast væri að senda þetta lag til Stokkhólms í lokakeppnina.
Selma Björnsdóttir flutti lagið upprunalega í Eurovision árið 1999 og náði öðru sæti keppninnar. Hún tjáði sig um lagið á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi og var hún á sama máli og flestir aðrir. Kvaðst hún hafa farið að háskæla heima í sófanum þar sem hún lá með flensu.
„Högni Egilsson, hefðum betur sent þig og Glowie út um árið með þessa útgáfu hún var yndisleg. Hún hefði pottþétt unnið,“ sagði Selma, en söngkonan efnilega Glowie var Högna til halds og trausts.
Myndband af flutningi Högna er nú komið á vefinn og má sjá það hér að neðan.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=4o-bpEZOuoY&w=560&h=315]