fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Hluturinn í Borgun rauk upp stuttu eftir yfirtöku ríkisins

Ríflega 63% hlutur Íslandsbanka margfalt verðmætari en nemur bókfærðu virði – Kröfuhafar framseldu bankann nokkrum dögum fyrir sölu Visa Europe

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 9. febrúar 2016 07:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hlutur Íslandsbanka í greiðslukortafyrirtækinu Borgun er margfalt verðmætari en gengið var út frá þegar kröfuhafar slitabús Glitnis samþykktu í október 2015 að afhenda ríkinu 95% hlut sinn í bankanum án endurgjalds. Þannig er allt útlit fyrir að 63,47% eignarhlutur Íslandsbanka sé yfir tíu milljörðum króna verðmeiri en bókfært virði hans gerir ráð fyrir en samkvæmt nýlegu verðmati sem KPMG ráðgjafafyrirtækið framkvæmdi er hlutafé Borgunar metið á 19 til 26 milljarða króna. Er hlutur Íslandsbanka í greiðslukortafyrirtækinu því metinn á allt að 16,5 milljarða króna en það er hærri fjárhæð en sem nemur bókfærðu virði allra dótturfélaga bankans í árslok 2014.

Aðeins tveimur vikum eftir að kröfuhafar Glitnis samþykktu veigamiklar breytingar á fyrirliggjandi tillögum sínum vegna stöðugleikaframlags til íslenskra stjórnvalda, þar sem mestu munaði um að þeir afsöluðum sér öllum hlut sínum í Íslandsbanka, var tilkynnt um kaup Visa Inc. í Bandaríkjunum á Visa Europe fyrir 21,2 milljarða evra. Þau viðskipti færa eigendum Borgunar – og Valitor – vel á annan tug milljarða í tekjur sem um leið eykur verulega markaðsverðmæti þessara félaga.

Hluturinn kom aldrei til tals

Íslenska ríkið, sem er eigandi að öllu hlutafé Íslandsbanka, mun því að óbreyttu hagnast umtalsvert á því að bankinn hafi verið framseldur til ríkisins í stað þess að söluandvirði hans yrði deilt með kröfuhöfum samkvæmt afkomuskiptasamningi, eins og upphaflega var ráðgert. Samtímis því að kröfuhafar Glitnis samþykktu að framselja 95% hlutinn í Íslandsbanka var heimild þeirra til að skipta út lausum krónueignum yfir í erlendan gjaldeyri hækkuð um 52 milljarða. Ef kröfuhöfum Glitnis hefði verið kunnugt um að þessi eign Íslandsbanka – ríflega 63% eignarhlutur í Borgun – væri mun verðmætari en bókfært virði gæfi til kynna þá má telja afar líklegt að þeir hefðu farið fram á að þeim yrði heimilað að taka út enn meiri krónueignir úr landi. Slíkt kom hins vegar aldrei til tals í samskiptum kröfuhafa og fulltrúa þeirra við ráðgjafa stjórnvalda, samkvæmt heimildum DV. Stöðugleikaframlag Glitnis til stjórnvalda nemur um 230 milljörðum króna miðað við bókfært virði þeirra eigna sem voru framseldar en 95% hlutur í Íslandsbanka var þar af metinn á 185 milljarða.

Greint var frá því í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag að samkvæmt virðismati sem KPMG vann fyrir stjórn Borgunar væri fyrirtækið metið á allt að 26 milljarða króna ef tekið væri fullt tillit til þeirra tekna sem yfirtaka Visa Inc. á Visa Europe myndi skila Borgun. Það þýðir að sá 31,2% hlutur sem Landsbankinn seldi í nóvember 2014 til hóps fjárfesta og æðstu stjórnenda Borgunar er metinn á bilinu 6 til 8 milljarðar en söluverð hans var hins vegar aðeins tæplega 2,2 milljarðar. Hefur verðmæti hans því ríflega þrefaldast á aðeins einu ári. Landsbankinn hefur sagt að hann hafi á þeim tíma ekki getað séð fyrir þær miklu tekjur sem Borgun myndi fá í sinn hlut við sölu Visa Europe.

„Hafði aðgang að öllum gögnum“

Stjórnendur Borgunar fullyrða að Landsbankinn hafi haft aðgang að öllum gögnum í tengslum við söluna á 31,2% hlut bankans í greiðslumiðlunarfyrirtækinu. Í yfirlýsingu fyrirtækisins, sem var send út í gær, mánudag, í kjölfar stjórnarfundar fyrirtækisins á sunnudag, segir að bankinn hafi fengið fullan aðgang að „ítarlegum upplýsingum um Borgun og rekstur félagsins“. Sérstakt gagnaherbergi hafi verið útbúið og upplýsingar um aðild og eignarhlut Borgunar í Visa Europe, og valréttarákvæði milli Visa Inc. og Visa Europe, legið fyrir.

„Borgun bjó aldrei yfir upplýsingum um hvort, hvenær né á hvaða verði Visa Europe yrði selt, fyrr en salan var gerð opinber þann 2. nóvember 2015. Vænt hlutdeild Borgunar í söluandvirði á Visa Europe varð ekki ljós fyrr en 21. desember sama ár. Fyrir þann tíma hafði Borgun engar forsendur til þess að meta eignarhlut sinn í Visa Europe á annan hátt en gert var,“ segir í yfirlýsingunni.

Höfnuðu 9,5 milljarða boði

Stjórnendur Íslandsbanka hafa einnig tekið í sama streng, eins og sagt hefur verið frá í DV, en í júní 2014 höfnuðu þeir tilboði hóps fjárfesta og stjórnenda Borgunar í hlut bankans í félaginu. Var tilboðið samhljóða því sem Landsbankinn samþykkti stuttu síðar í hlut sinn í Borgun. Ríflega ári síðar bauðst breska greiðslumiðlunarfyrirtækið UPG til að kaupa allt hlutafé Borgunar á 15 milljarða króna sem hefði þýtt að þeir fjármunir sem hefðu runnið til Íslandsbanka við slíka sölu hefðu verið um 9,5 milljarðar. Því tilboði var hins vegar hafnað af Íslandsbanka. Sú ákvörðun virðist hafa verið skynsamleg enda bendir núna allt til þess að hlutur bankans í Borgun sé enn meira virði.

Í reikningum Íslandsbanka er ekki gerð sérstaklega grein fyrir því hvað hlutur bankans í dótturfélagi sínu Borgun er metinn á. Hins vegar liggur fyrir að Íslandsbanki mat virði sjö hlutdeildarfélaga sem bankinn eignaðist í árslok 2011 við yfirtöku á Byr sparisjóði, þar á meðal 22% hlut í Borgun, á samtals 1,1 milljarð króna. Því er ljóst að 22% hluturinn í Byr hefur á þeim tíma aðeins verið metinn á hundruð milljóna króna miðað við kostnaðarverð. Í kjölfar yfirtökunnar á Byr náði Íslandsbanki yfirráðum í Borgun með meira en 60% eignarhlut og hefur greiðslukortafyrirtækið því eftir það verið flokkað sem dótturfélag í reikningum bankans.

Dótturfélög á kostnaðarverði

Í ársreikningi Íslandsbanka fyrir árið 2014 eru eignarhlutir í öllum dótturfélögum bankans bókfærðir á tæplega 13 milljarða króna. Fyrir utan 63,5% hlut í Borgun er þar um að ræða meðal annars félög á borð við Íslandssjóði, Allianz á Íslandi, Frumherja, Miðengi, eignarhaldsfélag sem heldur utan um fullnustueignir og rekstrarfélög sem enduðu í fangi bankans, auk fjölmargra smærri félaga. Í árslok 2014 námu eignir Miðengis ríflega 6,5 milljörðum. Fram kemur í ársreikningi Íslandsbanka að fjárfestingar bankans í dótturfélögum séu bókfærðar á kostnaðarverði. Er bókfært virði þessara eigna ekki leiðrétt nema þá aðeins að það liggi fyrir upplýsingar um að markaðsverðmæti þeirra hafi lækkað frá upphaflegu kostnaðarverði.

Þrátt fyrir að bókfært virði eignarhlutarins í Borgun sé ekki sérstaklega sundurliðað í reikningum Íslandsbanka þá má því ljóst vera að markaðsverðmæti hans er sem fyrr segir margfalt meira en Borgun er metin á í reikningum bankans. Hluturinn mun hins vegar ekki hafa beina verðmætaaukningu í för með sér fyrir bankann – og þar með ríkissjóð sem eiganda – nema þegar og ef hann verður seldur og hægt verður að bókfæra hagnað við slíka sölu. Þær milljarðatekjur sem renna til Borgunar við sölu á Visa Europe ættu aftur á móti færa Íslandsbanka strax verulegan fjárhagslegan ávinning í formi hlutdeildar í bættri afkomu og mögulega hærri arðgreiðslum frá Borgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd