fbpx
Þriðjudagur 09.ágúst 2022

Fann sér tilgang í skáldsögunni

Fyrsta bók Hákonar Jens Behrens, Sauðfjárávarpið, fæst við geðveiki og tilgangsleysi nútímasamfélagsins

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 15. desember 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég missti heilsuna í kringum 2010 og hef ekki getað unnið venjulega vinnu síðan þá. Með því glataði ég eiginlega öllum tilgangi. En það er auðvitað ekki hægt að lifa án tilgangs svo að upp úr því byrjaði ég að skrifa,“ segir Hákon Jens Behrens, sem sendi nýlega frá sér sína fyrstu skáldsögu, Sauðfjárávarpið, sem gefin er út af Ormstungu. Bókin er meinhæðin og skrautleg ádeila á nútímasamfélagið, vangavelta um tilgang og tilgangsleysi, geðveiki og heilbrigði.

Sagan hefst á því að Loftur, ósköp venjulegur öryggisvörður í Kringlunni, fær hugljómun og skilur loksins samhengi allra hluta. Hann áttar sig á því að tilveran er tilgangslaus og líf venjulegs fólks ekki ólíkt lífi sauðfjár, það er nytjað án þess vitundar. Í stað þess að þessar nýju upplýsingar bjargi samferðafólki hans úr ánauðinni er hann talinn hafa misst vitið og sendur á geðdeild. Á deildinni kynnist hann margtóna persónusafni sem er í annars konar tengslum við veruleikann en meðalmaðurinn. Þarna er harðsvíraður lífsstílsbloggari sem hefur týnt sjálfum sér, skáld með ósjálfráðan blygðunarbrotsvanda, geðlæknir sem lifir áfram þrátt fyrir andlegan dauða og sjálf táknmynd geðveikinnar – eiturgrænn api sem syngur Bob Dylan-lög af ógnvænlegri áfergju.

Skrifar til að finna tilgang

Hákon Jens er upprunninn á Stokkseyri, fæddur árið 1973, og hefur fengist við ýmislegt í gegnum tíðina, sjómennsku, byggingarvinnu og svo margs konar störf í kvikmynda- og sjónvarpsbransanum. Hann segist ekki hafa byrjað að skrifa fyrr en hann veiktist andlega, þurfti að hætta hefðbundinni vinnu og finna sér nýjan tilgang.

„Eftir að ég missti heilsuna var ég í ýmiss konar endurhæfingu í þrjú ár. Það var verið að reyna að endurhæfa mig til að geta unnið á kassa á Bónus eða eitthvað álíka – það gekk ekkert. Þegar ég fór svo á stað sem heitir Hlutverkasetur fannst mér í fyrsta skipti vera spurt af einlægni: „Hvað vilt þú gera?“ Þetta er þannig staður að maður þorði að svara: „Ég vil að minnsta kosti ekki vinna á kassa.“ Og þá var bara unnið út frá því,“ segir Hákon.

„Einum iðjuþjálfanum á Hlutverkasetri leist vel á þá hugmynd að ég myndi skrifa. Hún spurði mig hvort ég treysti mér til að mæta klukkan átta á morgnana og byrja? Ég sagði nei. En níu? Nei. Tíu? Nei. Ellefu? Já. Hún spurði hvað ég héldi ég að ég gæti skrifað lengi? Ég svaraði tvo tíma á dag. Hún lét mig standa við það,“ útskýrir hann og viðurkennir að bókin hefði líklega ekki átt sér stað án þessarar hvatningar.

„Þetta er alls ekki sjálfsævisaga, en að vissu leyti er þessi bók mín leið til baka. Við getum ekki lifað án tilgangs. Þótt allt sé tilgangslaust í raun og veru þá verðum við að reyna að gefa lífi okkar einhvern tilgang og hjá mér gerðist þetta að miklu leyti á Hlutverkasetri hjá Helgu Ólafsdóttur iðjuþjálfa.“

Skýrari sýn á jaðrinum

Þó að bókin hafi fæðst nýlega segist Hákon þó lengi hafa gengið með grunnhugmynd sögunnar í maganum. „Stuttu eftir að ég kláraði Kvikmyndaskólann árið 1999 tók ég að mér að vera túlkur fyrir hóp af ítölskum flísaslípurum sem voru að vinna fyrir Ístak – það virtist ekki trufla neinn að ég kynni enga ítölsku. Ég sat yfir þeim og horfði á þá slípa gólfin í Kringlunni á hverri nóttu í átta mánuði. Þegar ég horfði svo á fólkið streyma inn í verslunarmiðstöðina á morgnana til að mæta í vinnu eða eyða peningunum sínum fór ég að hugsa um þetta: við látum eitthvert fólk fá vinnuna okkar og fáum peninga í staðinn, en förum svo bara í búðirnar sem þetta sama fólk á og eyðum peningunum í eitthvert drasl. Strax þá kom þetta nafn: Sauðfjárávarpið, þótt ég hafi ekki vitað þá hvernig ég ætti að segja þessa sögu.“

Eins og áður segir hefst bókin einmitt með slíkri hugljómun í Kringlunni, en sú hugljómun er túlkuð sem alvarlegt taugaáfall af fólkinu í kringum aðalpersónuna. Þetta er svo einn þráðurinn í bókinni – mörk geðveiki og heilbrigði. Líf hinna „heilbrigðu“ birtist manni á vissan hátt sem hugsunarlaust á meðan þeir sem velta fyrir sér erfiðum en eðlilegum tilvistarlegum spurningum – hver er ég, og af hverju er heimurinn eins og hann er – eru stimplaðir geðveikir.

„Ég var sjálfur greindur með mikið og djúpt þunglyndi og í kjölfarið kom ég inn í hóp af fólki sem var með alls konar geðsjúkdóma. Það kom mér á óvart hvað þau bjuggu mörg yfir skýrri sýn á lífið. Þetta er að hluta til vegna þess að það er búið að dæma þetta fólk úr leik. Þau fylgjast með af hliðarlínunni en þá er eins og þau sjái einhvers konar „panorama“ af samfélaginu. „Tragíkin“ er hins vegar að þegar þau sjá það er það alltaf orðið of seint. Maður veltir hlutunum ekkert svo mikið fyrir sér þegar maður er bara að mæta í vinnuna og fara í barnaafmæli og er virkur þátttakandi í samfélaginu.“

Endurhæfingin fyrir atvinnulífið

Það er áhugavert að við tölum stundum um að fólk sem glímir við geðsjúkdóma „missi tengsl við veruleikann“ en það sem þú ert að lýsa er að fólk öðlist að einhverju leyti skarpari sýn á veruleikann.

„Já, og kannski er rangt að tala um að missa tengslin. Það myndast önnur tengsl við veruleikann, en á sama tíma gera þau þig óhæfan til að taka þátt í þeim raunveruleika sem er almennt viðurkenndur.“

Af frásögn Hákonar að dæma er augljóst að í skáldsögunni vinnur hann að einhverju leyti út frá eigin reynslu. Í einni senu í bókinni rökræða sjúklingur og geðlæknir um tilgang endurhæfingar. Frá sjónarhorni geðlæknisins er markmiðið að endurforrita tengsl einstaklingsins við veruleikann svo hann virki aftur sem tannhjól í gangverki samfélagsins, sama hvar og hvernig. Sjúklingurinn veltir því hins vegar fyrir sér hvort lokamarkmiðið eigi ekki þvert á móti að vera að gera hann sáttan í eigin skinni, heilbrigðan og jafnvel hamingjusaman. Er þessi afstaða geðlæknisins nálgun sem þér finnst vera útbreidd í kerfinu?

„Já, að vissu leyti. Þegar það átti að endurhæfa mig til að vinna í búð eða eitthvað slíkt virtist ekki skipta neinu máli að ég var með menntun og tíu ára reynslu í allt öðru starfi. Endurhæfingin virtist snúa miklu meira um þarfir atvinnulífsins, frekar en mína velferð,“ segir Hákon. „En það sem liggur líka í þessu samtali eru fordómarnir sem kvikna innra með manni sjálfum þegar maður missir heilsuna andlega. Það er hætt við að maður fari að segja sjálfum sér og umhverfi sínu að maður sé í raun ekkert veikur heldur bara í einhvers konar uppreisn, maður sé kannski bara að gefa skít í kerfið þegar staðreyndin er sú að maður er fárveikur.“

Vélritun hjá undirmeðvitundinni

Hákon viðurkennir að það hafa verið glíma, langt og erfitt ferli að skrifa og koma bókinni frá sér. „Þetta er í sjálfu sér bara saga af endalausri uppgjöf. Ég hef alltaf verið að gefast upp og byrja aftur, og smám saman lært að þetta er ekki eins og að slá tún eða veiða fisk – það er ekki hægt að gera þetta af hörku. Suma daga kemur ekkert og þá verður maður bara að sætta sig við það, fá sér ís eða eitthvað og vera sáttur,“ segir hann.

„Það má segja að ég hafi tvisvar sinnum reynt að skrifa þessa bók og mistekist í bæði skiptin. Þegar ég hafði gefist upp í annað sinn byrjaði ég að skrifa smásögu í einhverri brjálaðri „frústrasjón“ og þá birtust loksins þessir karakterar sem áttu eftir að taka yfir. Sagan sagði sig svolítið sjálf, ég varð að stíga til hliðar með mitt egó og leyfa þessu að gerast. Það sem hafði mistekist í fyrri tilraununum var að ég var of mikið á staðnum að reyna að vera skáld, drekkja sögunni í orðum. Þetta tókst ekki fyrr en ég leyfði undirmeðvitundinni að sjá um þetta. Að lokum vann ég bara við vélritun hjá undirmeðvitundinni.“

Þú talaðir um að með þessari bók hefðir þú skapað þér tilgang, hver er þá næsti tilgangur, ætlar þú að halda áfram að skrifa?

„Já, þegar ég vissi að þessi bók var farin í prentun, þá losnaði um eitthvað í líkamanum og næsta bók byrjaði að fæðast. Ég er kominn aðeins í gang með hana núna og það virðist ætla að gerast eins. Ég vakna á morgnana, drekk kaffið mitt og byrja að skrifa.“

Að lokum vann ég bara við vélritun hjá undirmeðvitundinni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Rannsaka möguleg tengsl á milli morða á múslimum í Albuquerque

Rannsaka möguleg tengsl á milli morða á múslimum í Albuquerque
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Conor Coady orðinn leikmaður Everton

Conor Coady orðinn leikmaður Everton
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Tveir Íslendingar í gæsluvarðhaldi í Danmörku eftir fólskulega árás á íslenskan mann i húsbíl

Tveir Íslendingar í gæsluvarðhaldi í Danmörku eftir fólskulega árás á íslenskan mann i húsbíl
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Horfðu á markaþátt Lengjudeildarinnar – KV á montréttinn á Rauða ljóninu

Horfðu á markaþátt Lengjudeildarinnar – KV á montréttinn á Rauða ljóninu
Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Miklar áhyggjur af heilsu drottningarinnar

Miklar áhyggjur af heilsu drottningarinnar
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Albert að fara á kostum og skorað tvö í fyrri – Sjáðu mörkin

Albert að fara á kostum og skorað tvö í fyrri – Sjáðu mörkin
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Lið helgarinnar í enska – City og Brighton unnu góða sigra

Lið helgarinnar í enska – City og Brighton unnu góða sigra
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Hörður snapchatperri dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn börnum – Móðir þolanda vonar að hann fái hjálp

Hörður snapchatperri dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn börnum – Móðir þolanda vonar að hann fái hjálp