fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024

Glefsur úr raunveruleika

Þættir af séra Þórarinum og fleirum er sjöunda smásagnasafn Þórarins Eldjárns

Kolbrún Bergþórsdóttir
Fimmtudaginn 8. desember 2016 23:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þættir af séra Þórarinum og fleirum er sjöunda smásagnasafn Þórarins Eldjárns. „Þetta eru ekki sögur sem mynda sagnasveig eða tengjast innbyrðis. Kann þó að vera að eitt og eitt atriði gangi aftur í nokkrum sögum nánast fyrir tilviljun. Þetta er safn og þá tínir maður saman það sem komið er og fer að gramsa í sarpi þar sem liggja ótal hugmyndir og sér þar eitt og annað sem orðið tímabært að verði að sögu og kann að passa vel við hitt, oft með því að vera nógu ólíkt því,“ segir Þórarinn.

Ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér en mér finnst eins og í þessu safni sértu að byggja meir á eigin minningum en í fyrri smásagnasöfnum.

„Það eru þarna einar tvær til þrjár sögur að minnsta kosti sem eru byggðar á bernskuminningum. Slíkar sögur hafa alla tíð slæðst með í smásagnasöfn mín en vera má að þarna hafi þeim fjölgað eitthvað aðeins.“

Hið skapandi minni

Mynd: kristinn magnússon

Þú lýsir ungum drengjum og þeirra brölti mjög skemmtilega. Er bernskan þér svona ljóslifandi í minni? Og ertu barngóður?

„Það er alþekkt þegar menn rekja æviminningar sínar í nokkrum bindum að áhugaverðasta lesningin er alltaf bernskan. Það er af því að þar hlýtur hið skapandi minni að koma til. Þegar ég er að rifja upp eitthvað úr bernsku með jafnöldrum og skólafélögum kemur alltaf í ljós hversu misjafnt það er hver man hvað. Sumir muna stórmerkileg atvik sem ég man ekkert eftir. Á móti man ég svo eitthvað sem allir aðrir hafa gleymt. Það sem menn þó muna sameiginlega er síðan oftast mjög ólíkt.

Ég er mjög barngóður, ekki síst barnabarngóður, enda barnakarl. Svo er ég sjálfur mjög barnalegur. Ekki barnslegur heldur barnalegur og ég ætla mér að versna sífellt með það, enda orðinn löggilt gamalmenni.“

Lokasagan, Ósagt best, um föður og son hans sem er með illkynja æxli er sláandi, en þar eru þeir í bíl og hlusta á grínþátt. Þú ert þarna að lýsa atviki sem gerðist raunverulega í þínu lífi.

„Já, ég er að lýsa einni eða tveimur upplifunum frá erfiðum tíma. Tilgangurinn með því setja slíkt í sögu er ekki að hneykslast eða býsnast eða barma sér. Þetta er hugleiðing þar sem undirtónninn er: Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Ég er þó alls ekki að hvetja til þess að aldrei megi nokkur maður segja nokkurn skapaðan hlut af ótta við að það komi illa við einhvern. Öllum verður okkur einhvern tíma á að segja eitthvað sem er mjög særandi án þess við höfum hugmynd um það. Sennilega er ekkert við þessu að gera. En það er gott að hafa í huga hversu auðvelt er að særa með orðum eða gjörðum þó maður ætli sér það ekki.“

Að luma á sparkinu

Áttu þér uppáhaldssögu í þessu safni?

„Má það? Ég er kannski dálítið svag fyrir sögunni Þér eruð riddari. Hún er í raun eina sagan sem fjallar um þennan margnefnda séra Þórarin. Að því leyti er hún titilsagan. Hann var langalangafi minn og endaði feril sinn sem prófastur í Vatnsfirði og þar gerist sagan. Hún er soðin saman í eina hræru úr ýmsum brotum sem til eru um þennan áa minn og alnafna. Mér finnst það skemmtileg aðferð að hrifsa glefsur úr raunveruleikanum og hrista þær saman við eldri frásagnir. Úrvinnsla úr gömlu hráefni blandast nýju framandi kryddi og leiðir af sér dúndrandi nýsköpun. Mér þykir dálítið vænt um þessa sögu og sú er kannski ástæðan fyrir því að ég set hana svo að segja í titilinn.

Mörgum hefur þótt titillinn skrýtinn, einkum þessi undarlega beyging á nafninu okkar langfeðga. Það kváðu til rituð dæmi um þessa þágufallsmynd allt frá 17. öld, einkum á Suðurlandi. Þannig að eftir á virðist blasa við að sögumaðurinn sem er ekki nafngreindur og enginn veit hver er hljóti að hafa verið Sunnlendingur. Svona geta hlutir hlaðið utan á sig og skýrst eftir að bækur koma út!“

Þú þykir skemmtilegur höfundur. Hefur þér einhvern tíma fundist að það sé krafa frá lesendum þínum að vera alltaf fyndinn?

„Ég hef mun meira fundið fyrir þeirri kröfu að ég eigi að hætta að vera fyndinn.“

Þykir ekki fínt að vera fyndinn?

„Mér hefur alltaf skilist að það sé ófínt en mér er bara alveg sama. Húmor er órofa meginþáttur í mínum köðlum. En fyndni sem lumar ekki á neinu fellur um sjálfa sig. Ég vona að mín sé ekki öll þannig. Mér finnst eftirsóknarvert að vera fyndinn á þann hátt að fólk fari að hlæja en svelgist svo allt í einu á í miðjum hlátri. Eða löngu síðar. Að fyndnin svo að segja lumi á sparkinu eins og múlasni páfans í frægri sögu eftir Daudet.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

,,Hann má taka því rólega í tveimur leikjum gegn okkur“

,,Hann má taka því rólega í tveimur leikjum gegn okkur“
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Telur að rifrildið umtalaða í gær tali sínu máli – ,,Sannfærður um að hann sé á förum“

Telur að rifrildið umtalaða í gær tali sínu máli – ,,Sannfærður um að hann sé á förum“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Málefni Salarins í Kópavogi: Saka bæjarstjóra um takmarkaðan skilning og áhuga á lýðræði

Málefni Salarins í Kópavogi: Saka bæjarstjóra um takmarkaðan skilning og áhuga á lýðræði