fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025

Þannig teygist tíminn

Tumi Magnússon myndlistarmaður teygir tíma og rúm í verkum sínum – Húmor, hversdagsleiki og sjónhverfingar

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 29. apríl 2016 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tumi Magnússon er seinn. Ég sest því niður í anddyri Listasafns Íslands og bíð.

Innan úr rýminu vinstra megin, bak við afgreiðsluna, berst hægur svefnhöfugur andardráttur, hann er á mörkum hins mannlega og vélræna, gerður úr hljóðum nokkurra bíla sem keyra fram og aftur hver á sínum skjá í vídeóinnsetningu í myrkvuðu rými handan við svart tjald. Mig syfjar.

Sú hugmynd að andardrátturinn sem ómar um húsið gæti í raun verið lífsmark byggingarinnar verður enn skýrari þegar maður lítur til hægri í stigaganginn og sér tanngarð, auga og nef sem eru ógnvænlega stór og teygð hvert yfir sinn heila flöt. Húsið er lifandi, eins og sofandi risi sem maður situr inni í.

Í anddyrinu leynast tvö önnur lágstemmd verk sem er auðvelt að missa af ef maður gefur sér ekki tíma. Þarna er mynd af hauskúpu í loftinu. Hún er svo teygð og skekkt að hún birtist manni aðeins sem langt strik nema sjónarhornið sé fullkomlega rétt.

Úr nokkrum hátölurum ómar svo lækjarniður, frá inngangi upp stigann og á aðra hæð. Um leið og hljóðið færist milli hátalara hægist ýmist á því eða hraðinn eykst, það flæðir um rýmið og teygir, á einhvern framandlegan hátt, á tímanum.

Árið 2000 tók Tumi myndir af andlitshlutum fjölskyldumeðlima sinna og stækkaði til að fylla út í veggi. Nú hefur verkið verið sett upp í Listasafni Íslands.
Fjölskyldumynd, 2000 Árið 2000 tók Tumi myndir af andlitshlutum fjölskyldumeðlima sinna og stækkaði til að fylla út í veggi. Nú hefur verkið verið sett upp í Listasafni Íslands.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Konsept og nýtt málverk

Tumi Magnússon myndlistarmaður er fæddur 1957. Hann lærði í Hollandi og á Spáni, og hefur verið virkur þátttakandi í íslensku myndlistarlífi allt frá fyrstu einkasýningu sinni árið 1981. Hann hefur verið búsettur í Danmörku síðastliðinn áratug en ég gríp hann í stuttri heimsókn á Íslandi. Um þessar mundir eru fjögur verk eftir hann uppi á sýningunni Kvartett í Listasafni Íslands. Tvö verkanna; hljóðinnsetningin Lækur og ljósmyndaverkið Fjölskyldumynd, verða þó áfram til sýnis eftir að Kvartettinum lýkur.

Þegar Tumi mætir setjumst við á kaffihús Listasafnsins og á meðan við bíðum eftir kaffinu segir að það hafi verið á menntaskólaaldri sem hann ákvað að leggja listina fyrir sig – þó svo hann hafi haft gaman af því að teikna og skapa frá því að hann var lítill.

„Ég var að pæla í ýmsu öðru, en þegar ég var orðinn sautján eða átján ára var ég farinn að sjá að það myndi ekki þýða neitt annað fyrir mig. Eftir menntaskóla fór ég í tveggja ára fornám í Myndlistar- og handíðaskólanum og fann strax að það var rétta leiðin, og hef eiginlega aldrei efast um það síðan. Eftir það fór ég til Enschede í Hollandi. Fyrst og fremst langaði mig bara að fara til útlanda í nám, en svo spilaði líka inn í að eina deildin hér á Íslandi sem ég hefði haft áhuga á að fara í var Nýlistadeildin og pabbi minn stjórnaði henni – það var kannski aðeins of nálægt,“ segir Tumi og hlær, en pabbi hans er Magnús Pálsson listamaður sem kenndi við skólann um áratugaskeið.

„Til að byrja með var ég mest að vinna með ljósmyndir, 8 mm kvikmyndir og skúlptúra. Á þessum tíma var konseptlistin alls staðar ríkjandi, ekki síst í Hollandi og á Íslandi. Ég var mjög spenntur fyrir henni en svo kom einhver uppreisn í mig, mér fannst hún orðin eitthvað leiðinleg og geld svo ég fór að reyna að komast út úr því,“ segir hann.

„Ég fór að teikna, gera teikningar með texta og fleira. Upp úr því fór ég líka að mála. Svo komst ég að því að það voru fleiri á Íslandi og annars staðar í heiminum í svipuðum hugleiðingum svo ég lenti eiginlega alveg óvart inni í þessu „nýja málverkstímabili.“ Mér fannst það spennandi af því að það var langt frá konsepthugsuninni, það var lögð áhersla á að gera hluti „spontant“ og beint án þess að hugsa of mikið um þá. Ég fór á kaf í það en þó aldrei mikið út í expressjóníska hlutann af því. Mín verk voru yfirleitt málverk af einhverjum hlutum í óræðu rými og titlarnir oft mikilvægir. Svo þróaðist þetta hjá mér og konsepthugsunin sem ég hafði lagt af stað með kom aftur skýrt í gegn. Þau áhrif hafa alltaf verið til staðar, þó að ég myndi ekki segja að ég sé konseptlistamaður,“ segir Tumi.

Í vídeóinnsetningunni … sjáum við sex bíla keyra fram og til baka í íslenskri náttúru í takt við svefndrukkinn andardrátt.
Umferð (sofandi), 2013. Í vídeóinnsetningunni … sjáum við sex bíla keyra fram og til baka í íslenskri náttúru í takt við svefndrukkinn andardrátt.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fjölskyldusvipur í stigaganginum

„Fjölskyldumyndin er elsta verkið á sýningunni hér í safninu. Það er gert árið 2000 og var fyrst sýnt í galleríinu hjá Sævari Karli, en var þá miklu minna en núna. Það var eitt af fyrstu veggljósmyndaverkunum sem ég gerði. Þau spruttu eiginlega upp úr veggmálverkum sem ég hafði verið að gera áður. Það voru oft málverk af einhverjum tilteknum efnum. Þetta voru að vissu leyti fígúratíf málverk því þau voru myndir af efnum, til dæmis vökvum,“ segir Tumi, en meðal verka sem hann gerði voru málverk af heilavef, kaffi, hlandi og svo framvegis.

Alltaf þegar ég sýni ljósmyndaverkin mín þarf ég að breyta þeim til að láta þau passa á vegginn. Niðurstaðan er því alltaf dálítið fljótandi.

„Ef þú málar mynd af vökva hefur hann ekkert form, nema bara af ílátinu sem hann er í. Þannig að maður getur ráðið því hvernig flöturinn er í laginu. Ég lét formið því ráðast af rýminu hverju sinni, hvort sem það var strigi á blindramma eða veggflötur. Verkin voru litir ákveðins efnis og stóðu fyrir það og verkin báru nafn efnanna. Þetta voru myndir af einhverju ákveðnu og voru þar af leiðandi ekki langt frá ljósmynd af hlut. Ég skissaði málverkin líka gjarnan í tölvu til að sjá hvernig þau kæmu út á veggnum. Þá fann ég að það var ekki mikill munur á því að mála lit einhvers hlutar á vegg og því að teygja ljósmynd af hlutnum yfir vegginn,“ segir hann og víkur talinu aftur að fjölskyldumyndinni.

„Í þessu tilviki ákvað ég að nota eitthvað einfalt og klassískt eins og mynd af fjölskyldu. Eins og ég hafði látið einn lit standa fyrir ákveðinn hlut, ákvað ég að láta einn hluta úr hverju andliti standa fyrir heildina. Þannig tók ég mynd af auga dóttur minnar, eyra sonar míns, munni konunnar og nefinu mínu. Saman byggir þetta svo eiginlega upp andlit – nema það er bara eitt auga og eitt eyra.“

Það hefur verið svolítið áberandi að undanförnu að lögð sé áhersla á ferlið í listsköpuninni frekar en listhlutinn sjálfan eða niðurstöðuna. Það hljómar hins vegar eins og aðferðin sem þú notar í ferlinu, hvort þú gerir málverk á vegg eða prentir bara ljósmynd á hann, skipti þig ekki höfuðmáli.

Sendiherrarnir (1533) eftir Hans Holbein yngri.
Áhrifavaldur Sendiherrarnir (1533) eftir Hans Holbein yngri.
Í verkinu Holbein kemur Tumi teygðum myndum af ýmsum hauskúpuvarningi, til dæmis leikfangi, lyklakippu og strokleðri, fyrir á gólfi, veggjum og þaki Listasafnsins. Verkin vísa augljóslega í teygða hauskúpu í verkinu Sendiherrarnir eftir Hans Holbein. „Þetta verk kom ekki „spontant“ eins og þau gera oft – en ég sá að ég varð að gera það. Ég hafði verið að vinna  ýmis verk sem voru teygð, bæði í allar áttir til að passa á veggflöt en líka verk sem ég teygði bara á einn veg. Ég lét til dæmis veggmynd af blýanti ná upp í loft og teygði hana svo þannig að hún þakti 11 metra breiðan vegg. Að framan sá maður bara rauðan flöt, en frá hlið sá maður að það var blýantur. Þetta kallaði ég alltaf Holbein-effektinn, því ég  hafði alltaf verið hrifinn af Sendiherrunum og það var alltaf á bak við í þessum verkum. Mér fannst ég því verða að gera svoleiðis verk með hauskúpum líka, til þess að vísa beint í Holbein, gera tilvitunina skýrari.“
Holbein, 2011. Í verkinu Holbein kemur Tumi teygðum myndum af ýmsum hauskúpuvarningi, til dæmis leikfangi, lyklakippu og strokleðri, fyrir á gólfi, veggjum og þaki Listasafnsins. Verkin vísa augljóslega í teygða hauskúpu í verkinu Sendiherrarnir eftir Hans Holbein. „Þetta verk kom ekki „spontant“ eins og þau gera oft – en ég sá að ég varð að gera það. Ég hafði verið að vinna ýmis verk sem voru teygð, bæði í allar áttir til að passa á veggflöt en líka verk sem ég teygði bara á einn veg. Ég lét til dæmis veggmynd af blýanti ná upp í loft og teygði hana svo þannig að hún þakti 11 metra breiðan vegg. Að framan sá maður bara rauðan flöt, en frá hlið sá maður að það var blýantur. Þetta kallaði ég alltaf Holbein-effektinn, því ég hafði alltaf verið hrifinn af Sendiherrunum og það var alltaf á bak við í þessum verkum. Mér fannst ég því verða að gera svoleiðis verk með hauskúpum líka, til þess að vísa beint í Holbein, gera tilvitunina skýrari.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég held að hjá mér sé niðurstaðan mikilvægari. Það er auðvitað alltaf einhver „prósess“ en ég held að maður sjái ferlið yfirleitt í niðurstöðunni. Reyndar eru verkin mín oft þannig að það er hægt að breyta þeim og ég þarf að laga þau að nýjum aðstæðum í hvert skipti. Alltaf þegar ég sýni ljósmyndaverkin mín þarf ég að breyta þeim til að láta þau passa á vegginn. Niðurstaðan er því alltaf dálítið fljótandi. Það er ákveðið ferli í því sem er opið, niðurstaðan er ekki fastnegld og óbreytanleg, heldur opin fyrir sýningarstaðnum.“

Húmor og hversdagsleiki

Maður tekur eftir að í verkunum þínum er hversdagslegum hlutum – sem einhverjir gætu sagt vera „banal“ – oft umbreytt og þeir notaðir í listaverkin. Gulur sími, rauður blýantur eða grænt neyðarútgangsskilti er teygt yfir heilan vegg.

„Kannski er það „banal“ en það er einmitt það sem mér finnst skemmtilegt. Ég nota þessa hversdagslegu hluti hins vegar til að segja eitthvað sem er ekki endilega hversdagslegt. Það sem ég geri við þá er það sem skiptir máli. Til þess að það sem ég geri við hlutina komi skýrt fram – og það er kannski aðalmálið í verkinu – er líka betra að þetta séu hversdagslegir hlutir, frekar en hlutir sem hafa mjög sterka merkingu í sjálfu sér. Ég nota bara það sem er hendi næst, það er óþarfi að leita langt yfir skammt. En kannski er önnur ástæða, sem er að mér finnst ekki gaman að setja hluti á stall eða gera þá eitthvað merkilega. Mér leiðist svoleiðis hátíðleiki.“

*Kannski er þetta ein ástæða þess að verkin þín eru oftar en ekki frekar kómísk, það liggur oft sterkur húmor undir í þeim.

Húmorinn er mjög mikilvægur, en ég geri verkin ekki til þess að vera fyndinn. Þetta eru ekki brandarar!

„Já, húmorinn er mjög mikilvægur, en ég geri verkin ekki til þess að vera fyndinn. Þetta eru ekki brandarar! Það kemur bara af sjálfu sér af því að ég hugsa þannig, húmorinn er bara hluti af mér. Verk sem eru byggð á húmorísku viðhorfi finnst mér oft áhrifameiri en þau sem eru dramatísk og ofuralvarleg. Mér finnst það góð leið til að koma einhverju á framfæri, en ég legg mig samt ekkert sérstaklega fram við að vera fyndinn,“ útskýrir Tumi.

Hver álítur þú gildi myndlistarinnar vera í samtímanum?

„Mér finnst myndlistin hafa mjög mikið gildi. Í henni felst viðhorf listamannsins, sem reynir að losa sig úr viðjum hefðbundinnar hugsunar. Listamaðurinn reynir stöðugt að sjá hlutina á ferskan og nýjan hátt. Þar koma því fram viðhorf sem eru ólík hinu vanabundna – og það er mjög mikilvægt fyrir þjóðfélagið. Þó að myndlistin hafi ekki alltaf ákveðið pólitískt „statement“ er þetta utanfrá-viðhorf engu að síður mjög pólitískt. Þannig að þó að ég hugsi listina mína yfirleitt ekki sem pólitíska þá er hún það eflaust á þennan hátt.“

Teygja, þenja, strekkja

Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vinna öll með teygju, þenslu eða strekkingu á hlutum, bæði í tíma og rúmi. Af hverju finnst þér áhugavert að beita þessari aðgerð á heiminn?

„Að einhverju leyti leiðist mér bara að hengja myndir á veggi á sama hátt og þær eru alltaf hengdar upp í sýningarrýmum. Mér finnst gaman að vinna með formið á rýminu og ég vil gjarnan láta verkin birtast á óvæntum stöðum,“ segir Tumi og nefnir hauskúpuverkin sem dæmi, en þau eru ýmist á gólfum eða í lofti safnsins.

„Veggljósmyndirnar verða að ná yfir heilan vegg, og þá vel ég oft veggi sem eru sjaldan notaðir fyrir myndir. Þá verður samruni. Rýmið ákveður formið á verkinu, en verkið breytir líka rýminu. Það verður sjónhverfing sem breytir skynjun manns á rýminu,“ útskýrir Tumi.

„En mér finnst þetta líka draga fram að hlutirnir sem maður sér í kringum sig hafa ekki neitt endanlegt form. Það er eitthvað sem á eftir að breytast. Glasið sem ég er að drekka úr verður hérna í mesta lagi í nokkur ár en svo breytist það. Efnið sem það er búið til úr verður að einhverju öðru, það teygist og umbreytist. Við erum hérna í stutta stund í heiminum. Allt er hverfult og háð sífelldum breytingum.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Besta deildin: Vestri og ÍA töpuðu heima

Besta deildin: Vestri og ÍA töpuðu heima
Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Svona er hægt að losna við svitalykt úr handarkrikunum

Svona er hægt að losna við svitalykt úr handarkrikunum
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Þorsteinn: „Erum komin með bakið upp við vegg“

Þorsteinn: „Erum komin með bakið upp við vegg“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Kyle Walker í Burnley

Kyle Walker í Burnley
EyjanFastir pennar
Fyrir 16 klukkutímum

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Allir á einu máli um Höllu forseta

Allir á einu máli um Höllu forseta
Eyjan
Fyrir 18 klukkutímum

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni