Brandon Rogers 29 ára læknir frá Portsmouth í Virginu sló í gegn þegar hann tók þátt í America Got talent. Brandon heillaði alla í salnum sem og dómarana sem risu allir sem einn úr sætum sínum og klöppuðu fyrir hinum hlédræga lækni. Simon Cowell, einn dómaranna sagði Brandon einn besta söngvara keppninnar. Fjölskylda Brandons samþykkti að áheyrnaprufan yrði birt til að heiðra minningu hans en Brandon lést í bílslysi þann 11. Júní síðastliðinn.
„Ég er á leiðinni á svið eftir augnablik. Ég er dálítið stressaður,“ sagði Brandon við móður sína. Í innlagi í þættinum útskýrði Brandon ástæðu þess að hann gerðist læknir:
„Þegar ég var aðeins sex ára kom ég heim úr skólanum einn daginn og fann móður mína liggjandi í blóði sínu. Við fórum með hana á spítalann og þeim tókst að bjarga lífi hennar. Það fékk mig til þess að langa verða læknir sem myndi gera slíkt hið sama.“
Brandon bætti við að hann væri í starfi þar sem hann léti gott af sér leiða. Starfið væri hins vegar erfitt og notaði hann tónlist til að slaka á eftir erfiðar vaktir eða augnablik. Aðspurður hvort hann syngi fyrir sjúklinga sína svaraði Brandon brosandi: „Já stundum.“
Þegar Brandon hafði sungið risu allir á fætur, einnig dómararnir. Símon sagði:
„Ég hef aldrei sagt þetta áður við lækni. Þú ert sjúkur. Þú ert einn besti söngvari sem við höfum haft í keppninni í ár.“
Brandon hringdi strax í foreldra sína:
„Mamma, er pabbi hjá þér. Ég komst áfram.“
Nokkrum vikum síðar bárust þau sorglegu tíðindi að Brandon væri látinn. Hann sat í framsæti í bíl þar sem bílstjórinn missti stjórn á ökutækinu með þeim afleiðingum að hann ók á tré. Bílstjórinn slapp án meiðsla en Brandon lést á spítala af sárum sínum. Hér fyrir neðan má sjá myndskeið af mögnuðum söng Brandons.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=tAYrh-x7UKo&w=640&h=360]