fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Fókus

Ég barði nauðgarann minn

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 11. júlí 2017 19:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 16. september síðastliðinn hlaut Róbert Árni Hreiðarsson eða Robert Downey líkt og hann kallar sig uppreist æru og lögmannsréttindi sín aftur. Hann var dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir barnaníð árið 2007 vegna viðurstyggilegra kynferðisbrota gegn fjórum stúlkum. Tvær ungar konur, Nína og Glódís Tara, sem Róbert braut á grétu þegar þær heyrðu af ákvörðun dómsmálaráðuneytisins. Ég talaði við þær báðar. Eftir samtalið grét ég ekki. Ég var hins vegar illur. Brjálaður. Reiður. Síðan sorgmæddur.

Ég sussa á gömlu tilfinningarnar, raddirnar sem reyna að segja mér að stíga ekki fram. Því skömmin er ekki mín.

Ég er sorgmæddur fyrir hönd samfélagsins, fyrir hönd kvenna, karla, dætra minna, allra þeirra sem hafa verið nauðgað. Ég varð sjálfur fyrir grófu kynferðisofbeldi sem unglingur. Ég var dauðadrukkinn. Ég sagði engum frá. Ég kærði ekki. Ég skammaðist mín. Réttarkerfið færði mér ekki lokun á mitt mál. Þegar víman var runnin af mér fór ég til baka og sá vart út um augun af trylltri heift, niðurlægingu, reiði, sorg og sektarkennd. Í ofsareiði misþyrmdi ég níðingnum mínum hrottalega.

Okkur er kennt og sagt að svoleiðis geri maður ekki. Við eigum að fara að lögum. Við eigum ekki að taka lögin í eigin hendur.

Ef hann hefði kært mig hefði ég líklega fengið fangelsisdóm. Ef ég hefði beitt hann grimmu kynferðisofbeldi á móti hefði ég örugglega sloppið. Þannig er það nú bara. En ég sagði engum. Og ég skammaðist mín.

Kynferðisbrot drepa

Refsingin við að eyðileggja fólk er oft hlægileg og æran býður í þvottavélinni í ráðuneytinu á meðan. Kynferðisbrot drepa líka. Ég átti vinkonu sem framdi sjálfsmorð. Pabbi hennar nauðgaði henni. Hún rogaðist um með skelfilegar minningar og reyndi að drekkja þeim í brennivíni og dópi en ekkert gekk. Minningarnar flutu alltaf upp á yfirborðið og vöfðu sig að lokum utanum hana og þegar þær loks sukku tóku þær hana með niður í djúpið.

Eins og að vinna í lottó

Að kæra er eitt. Við tekur völundarhús með endalausum ranghölum og að ná kynferðisbrotamáli inn í réttarsal er eins og að vinna í lottó. Að sigra í Héraðsdómi og í Hæstarétti er eins og að næla í þann stóra tvisvar á sama árinu. Síðan kemur dómurinn. Hann er yfirleitt skammarlega vægur.

Og þetta allt gerðu unglingsstúlkurnar fjórar. Ákváðu að gera það sem okkur er kennt. Þær kærðu. Þær fengu viðurkenningu á því að Róbert hefði brotið á þeim. Róbert fór í fangelsi. Þær hafa fengið einhverja trú á réttlætið. Síðan líða nokkur ár og þá verða þær vitni að því að fortíð Róberts er þurrkuð út. Þær unnu málið á sínum tíma en þann dag sem Róbert hlaut uppreist æru töpuðu þær. Samfélagið allt tapaði.

Lögmaður Róberts, Jón Steinar Gunnlaugsson spurði:

En það er alveg sama hvað nokkrir starfsmenn í þvottahúsi innanríkisráðuneytisins ákveða … þá verður æra þeirra sem brjóta á börnum aldrei aftur söm.

„Vill fólk að ef manni verður eitthvað á í lífinu að hann sé þá bara dæmdur út úr okkar samfélagi til æviloka? Seinna sagði hann: Fólk á bara láta manninn í friði.“ Brynjar Níelsson talaði um myrkar miðaldir, gapastokka og líkti við útskúfun samkynhneigðra og trúlausra á árum áður að fólki væri misboðið. Forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson var spurður að eftirfarandi spurningu á RÚV:

„Forseti Íslands sagði í hádegisfréttum hjá okkur að honum þætti málið ömurlegt og hann hefði mikla samúð með fórnarlömbum þessa manns. Tekur þú á einhvern hátt undir það sem hann segir?“

Bjarni minntist ekki einu orði á hvort hann hefði samúð með fórnarlömbum Róberts. Hann sagði:

,,Ég myndi frekar hallast að því að í okkar samfélagi viljum við gefa fólki tækifæri aftur í lífinu, sem hefur tekið út sína refsingu. Við getum ekki látið tilfinningar kannski ráða of miklu í þeim efnum.“

En það er alveg sama hvað nokkrir starfsmenn í þvottahúsi innanríkisráðuneytisins ákveða

… þá verður æra þeirra sem brjóta á börnum aldrei aftur söm.

Vertu prúð og góð

Konunum og ættingjum var sagt að þeim myndi líða betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu. Karlmaðurinn hefur lengi ráðið yfir ástarlífi og kynlífi kvenna. Áður var konum drekkt ef þær urðu óléttar eftir nauðgun skyldmennis eða valdsmanns. Og þegar Drekkingarhylur er þornaður upp höfum við í staðinn valdsmenn sem vilja þagga niður í konum með því að segja þeim að vera prúðar og góðar og benda þeim á að fyrirgefa. Ráðamenn eiga ekki að tala um fyrirgefningu eða myrkar miðaldir. Þeir eiga að lyfta stúlkunum upp þegar minningarnar koma öskrandi til baka og vernda okkur hin og börnin okkar fyrir níðingum. Því níðingarnir eru út um allt. Og þeir eru miklu fleiri en fólk heldur.

Og á ég að fyrirgefa manninum sem í stað þess að hjálpa mér þegar ég var ósjálfbjarga, tók niðrum mig gallabuxurnar og nærbuxurnar og stundi í eyrað á mér á meðan hann nauðgaði mér?

Nei, hann má fokka sér.

Ég þarf ekki að fyrirgefa honum til að líða betur og komast yfir fortíðina. Ég á ástvini og hef aðgang að sálfræðingum. Hver finnur sína leið.

Ég stend uppréttur og segi frá. Ég lifði af og mér finnst það skylda mín að fyrst ég stend hér uppréttur, að segja að það sé hægt að eiga bærilegt líf þrátt fyrir þetta skelfilega ofbeldi.

Ég ætla að standa með þessum stelpum og skila skömminni. Ég veit það núna að það kostar ótrúlegt átak að leita réttar síns. Að setja þessi orð á blað hefur tekið vikur.

En ég læt ekki sussa á mig.

Ég sussa á gömlu tilfinningarnar, raddirnar sem reyna að segja mér að stíga ekki fram. Því skömmin er ekki mín.

Ég hef hátt fyrir Glódísi, Höllu, Nönnu Rún, Önnu Katrínu og alla aðrar konur og menn.

Ég hef eins hátt og mér sýnist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Serena Williams um af hverju hún byrjaði á þyngdarstjórnunarlyfi

Serena Williams um af hverju hún byrjaði á þyngdarstjórnunarlyfi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ný plata með Laufeyju komin út

Ný plata með Laufeyju komin út
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslandsvinur lést í mótorhjólaslysi

Íslandsvinur lést í mótorhjólaslysi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hildur lýsir upplifun sinni hjá tannlækninum – „Sé tækin þeirra eins og monstertruck…einhver að tengja?“

Hildur lýsir upplifun sinni hjá tannlækninum – „Sé tækin þeirra eins og monstertruck…einhver að tengja?“