fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Dagur í lífi Hugleiks Dagssonar

Um kvíðaköst á morgnana, jalapeno hummusinn úr Costco og kosti þess að horfa á hrikalega vondar kvikmyndir.

Margrét Gústavsdóttir
Þriðjudaginn 3. október 2017 20:30

Hugleikur Dagsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skopmyndateiknarinn Hugleikur Dagsson fæddist á Akureyri þann 5. október 1977. Hann er næstyngstur fimm systkina; á einn yngri bróður og þrjár eldri hálfsystur. Hugleikur gaf út sína fyrstu bók, Elskið okkur, árið 2002, ljósritaða og heftaða í 500 eintökum. Síðan hefur hann skapað sér nafn sem skopmyndateiknari og grínisti bæði innanlands sem utan. Hugleikur býr við Baldursgötu í Reykjavík en er í fjarbúðarsambandi við Ölbu Solís, arkitekt hjá PlúsArk.

Það er mjög misjafnt hvenær ég vakna á morgnana en oftast er það þó fyrir klukkan 11.00. Það fer í raun eftir því hvort kærastan mín gisti hjá mér eða ekki, eða hversu lengi ég var vakandi yfir sjónvarpinu. Þegar hún gistir hjá mér þá vakna ég yfirleitt bara til að kyssa hana bless. Svo sofna ég aftur í svona tíu mínútur, vakna og ligg í kvíðakasti í allavega tuttugu mínútur. Kvíðinn stafar aðallega af því að ég þarf að gera svo mikið en veit ekki á hverju ég á að byrja. Málið er samt bara að byrja, því það er eina leiðin til að losna við kvíðann og koma mér í gang. Í morgun byrjaði ég til dæmis á því að teygja mig í tölvuna og skrifa fréttatilkynningu fyrir stelpurnar í Bíó Paradís.

Tilkynningin var um fyrirbæri sem heitir Prump í Paradís; mánaðarlegar sýningar þar sem ég vel verstu kvikmyndir í heimi og tek svo umræður strax eftir sýningu. Fyrsta myndin verður Cool As Ice með Vanilla Ice en Emmsje Gauti ætlar að spjalla um hana með mér. Ég hef alltaf elskað bíómyndir, bæði góðar og slæmar. Sérstaklega arfaslæmar. Þær fanga hugann á allt annan hátt en góð mynd. Meðan maður horfir á mjög slæma mynd er maður stanslaust að spá í hvernig í andskotanum svona margt gat farið úrskeiðis. Myndir eins og Howard the Duck, The Room og Troll tvö. Þessar myndir eru í raun mun meira heillandi heldur en einhverjar verðlaunamyndir, þótt ég elski þær alveg jafn mikið.

Þegar kvíðinn er horfinn þá get ég hoppað á fætur. Fer inn í eldhús, bý mér til kaffi og fæ mér tvö linsoðin egg sem ég borða á meðan ég horfi á nýjustu YouTube-færslur Stevens Colbert spjallþáttastjórnanda. Sá er grjótharður gegn Donald Trump, eins og reyndar flestir spjallþáttastjórnendur í dag. Þessa dagana er ég að vinna í bók sem heitir President Poopypants og þátturinn gefur mér hugmyndir og efnivið í brandara en svo finnst mér hann líka bara mjög skemmtilegur. Þetta er svona eins og minn fréttatími. Ég er líka að vinna í annarri bók samhliða þessari, sú á annaðhvort að heita Má þetta eða Er þetta frétt? Eftir eggin, kaffið og Colbert þá skrifa ég hugmyndirnar niður, ýmist á blað eða í tölvuna, allt eftir því hvernig þær koma til mín.

Að þessu loknu hitti ég stundum vin minn, Jonathan Duffy, en við erum saman með hlaðvarpsþáttinn Icetralia. Jonathan er Ástrali sem flúði heimaland sitt til að koma hingað í menningarríkið Ísland. Hann er að gera það ágætt sem grínisti, meðal annars í þessu vikulega hlaðvarpi þar sem við ræðum t.d. muninn á því að vera ástralskur og íslenskur en líka muninn á því að vera gagn- og samkynhneigður. Þetta er það sem við eigum ósameiginlegt. Svo ræðum við líka íslensk stjórnmál og fleira. Hann er eiginlega að verða Íslendingur því hann er farinn að hrista hausinn í sama vonleysis, æðruleysis ástandi og Íslendingar gera yfir enn einum pop-up kosningunum.

Ég er meira eins og kanína, japla bara allan daginn eitthvað og fæ mér svo kvöldmat. Ég narta til dæmis í gulrætur, túnfisk beint úr dós og svo elska ég þennan landsþekkta jalapeno hummus sem fæst í Costco. Set hann á hrökkbrauð. Ég las það einhvers staðar að það væri bara fínt að hafa þetta svona. Borða bara smávegis allan daginn en ekki í skipulögðum hollum.

Þegar klukkan er að nálgast 14.00 þá fer ég stundum á kaffihús að vinna. Það fer eiginlega bara eftir því hversu virkur athyglisbresturinn minn er þann daginn. Ef hann er blússandi þá kem ég engu í verk meðan ég er heima. Geng bara í einbeitingarskorti um íbúðina og færi hluti á milli staða. Með því að fara á kaffihús neyðist ég frekar til að sitja kyrr því það er ekki beinlínis félagslega samþykkt að ganga um gólfin þar eins og brjálæðingur. Ég fer gjarna á Vínyl og Kexið en oftast tek ég tvö eða þrjú kaffihús á dag til að svitna ekki of mikið á rassinum. Hvað hádegismatinn varðar þá borða ég eiginlega aldrei neinn sérstakan hádegismat, svona formlega. Ég er meira eins og kanína, japla bara allan daginn eitthvað og fæ mér svo kvöldmat. Ég narta til dæmis í gulrætur, túnfisk beint úr dós og svo elska ég þennan landsþekkta jalapeno hummus sem fæst í Costco. Set hann á hrökkbrauð. Ég las það einhvers staðar að það væri bara fínt að hafa þetta svona. Borða bara smávegis allan daginn en ekki í skipulögðum hollum. Stundum fer ég líka á Snaps og fæ mér eitt eða tvö rauðvínsglös meðan ég teikna.

Seinnipartinn, þegar ég er hættur að vinna, kannski svona milli 17.00–19.00, þá spila ég oft tölvuleik í Playstation. Ég er eiginlega nýbyrjaður á því aftur eftir tveggja áratuga pásu. Það er eins og góð sturta fyrir heilann að spila svona tölvuleik. Ég slaka svo vel á.

Kvöldmaturinn er ekkert endilega mjög skipulagður hjá mér. Þegar ég er að vinna í bók þá redda ég honum gjarna bara í skyndi. Stekk út í Krambúð eða fer og fæ mér steik á Vitabar. Einu sinni fékk ég mér stundum 1944 rétti en svo missti ég örbylgjuofninn í síðasta skilnaði og þá hætti ég því. Eða ekki skilnaði. Meira splitt öppi.

Á kvöldin horfi ég eiginlega alltaf á vídeó alveg þangað til ég sofna. Íbúðin mín er á tveimur hæðum og í kjallaranum er svona „man cave“ eða karlahellir. Þar er ég með sjónvarpið, Playstation-tækið, blue ray-græjurnar og allt vídeósafnið mitt. Kærastan mín horfir stundum með mér, það er að segja þegar hún er ekki með alvöru barnið sitt hjá sér.
Klukkan 3.00 hrekk ég yfirleitt upp í sófanum, reyni að bursta tennurnar og skríð svo upp í rúm. Ég er alltaf að reyna að venja mig af þessu en það er bara svo rosalega kósí að sofna þarna í sófanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram