3 Doors Down sendi frá sér hvern smellinn á fætur öðrum upp úr aldamótum, til dæmis lögin Kryptonite, Here Without You og When I‘m Gone.
Brad er 46 ára en hann fór til læknis vegna veikinda fyrir skemmstu og var sendur í frekari rannsóknir. Kom þá í ljós að hann er með krabbamein í nýrum sem væri búið að dreifa sér í lungu.
„Það er ekki gott,“ sagði hann í tilfinningaþrunginni yfirlýsingu á samfélagsmiðlum. Hann sagðist þó ekki óttast nokkurn skapaðan hlut og ætla að berjast af fullum krafti til að ná heilsu á nýjan leik. Bað hann aðdáendur sveitarinnar að hafa hann í bænum sínum.
Arnold hefur fengið hlýjar kveðjur frá kollegum í tónlistarbransanum og sagði til dæmis Scott Stapp, söngvari Creed, að ef einhver gæti yfirstigið þessi alvarlegu veikindi væri það Brad Arnold.
„Guð blessi þig, bróðir. Þú sýnir okkur hvernig á að sigra myrkrið með ljósi,“ sagði Gavin DeGraw.