

Útvarpsmaðurinn Ólafur Páll Gunnarsson, eða Óli Palli, eins og við þekkjum hann best er landsþekktur fyrir útvarpsþætti sína Rokkland, umfjöllun um tónlist og tónleikahald til fjölda ára. En í gær opinberaði Óli Palli nýja hlið á sér í Facebook-hópnum Skreytum hús, þar sem nær 85 þúsund meðlimir deila öllu milli himins og jarðar sem tengist heimilum fólks.
„Ég er nú ekki mjög virkur hér en ákvað að deila nokkrum myndum úr forstofuföndri – ég sá að fólk var að leita að hugmyndum fyrir forstofu. Það var margt hægt að gera með gömlu dóti og drasli og málningu ef maður er í þannig aðstöðu. Mér fannst forstofan ekki nógu skemmtileg (hún er mjög lítil) og ákvað að laga og breyta. Ég átti næstum allt í þetta í kjallaranum og þurfti ekkert að kaupa nema tæpan lítra af málningu. Ég endurnýtti IKEA skóhirslurnar – breytti þeim smá og málaði og svo framvegis. Kannski fær einhver skemmtilega hugmynd sem sér þetta,“
segir Óli Palli galvaskur og birtir nokkrar myndir frá framkvæmdunum.
Forstofan fyrir breytingu:

Það er engu logið hjá honum að forstofan er mjög lítil eins og þær eru nú margar, enda fátt að gera nema fleygja frá sér skóm og yfirhöfn eða fara í slíkan fatnað. En pláss þarf að vera til að geyma allt sem forstofur þurfa að geyma og tala nú ekki um ef margir eru á heimilinu.
Á meðan á framkvæmdum stóð:

Og að framkvæmdum loknum:

Tæp 700 hundruð hafa látið sér líka við færsluna og nokkrir tugir skrifað athugasemd, sem allar hrósa Óla Palla fyrir verkið. „Óli Palli þúsundfjalagaur! Geggjað,“ segir í einni athugasemd.
Aðspurður um framkvæmdirnar og hvort eitthvað sé framundan segir Óli Palli við DV:
„Já það er alltaf eitthvað, ég er búin að gera upp tvö hús frá grunni. Það er reyndar ekkert á döfinni en radarinn er í gangi – það er gaman og skapandi að breyta og fegra umhverfi sitt og skemmtilegast þegar maður getur notað gamalt dót og drasl og gefið því nýtt hlutverk. Þessi forstufuæfing kostaði til dæmis innan við 5.000 krónur. Ég þurfti ekkert að kaupa nema lítra af málningu.“

