
Nawat Itsaragrisil, framkvæmdastjóri Miss Universe, lét Ungfrú Mexíkó, Fátima Bosch, heyra það fyrir framan aðra keppendur vegna þess að hún tók ekki þátt í myndatöku fyrir samfélagsmiðla, hann sagði hana sýna keppninni „enga virðingu.“
Itsaragrisil er taílenskur viðskiptamaður og hefur umsjón yfir keppninni sem er haldin þetta árið í Taílandi. Í gær spurði hann keppendur af hverju sumar þeirra tóku ekki þátt í myndatöku fyrir styrktaraðila.
Viðburðurinn var í beinu streymi á Facebook og náðist umrætt atvik þess vegna á myndband.
Sjáðu atvikið í spilaranum hér að neðan.
Heitu orðaskiptin stóðu yfir í fjórar mínútur en enduðu með að Itsaragrisil kallaði Ungfrú Mexíkó „heimska“ (e. dummy) og ákváðu þá aðrir keppendur að standa upp og yfirgefa salinn í mótmælaskyni. Meira að segja gekk núverandi Miss Universe, Victoria Kjær Theilvig, út úr herberginu.
Hún tjáði sig frekar um málið. „Þetta snýst um réttindi kvenna. Við þurfum að gera eitthvað stærra. Við berum virðingu fyrir öllum en svona á ekki að gera hlutina, að drulla yfir aðra stelpu, þetta er svo mikil vanvirðing.“
Itsaragrisil baðst afsökunar í morgun að fólki hafi liðið óþægilega að horfa á atvikið. „Ég reyndi mitt besta að gera þetta sanngjarnt fyrir alla en það er erfitt að hafa stjórn á því,“ sagði hann.
„Samtök Miss Universe Mexíkó gáfu einnig út yfirlýsingu þar sem atvikið var fordæmt. „Það sem gerðist í dag […] er óásættanlegt. Engin kona á skilið að verða móðguð eða niðurlægð. Í dag og alla daga stendur Mexíkó með þér, Fátíma. Styrkur þinn, reisn og rödd eru tákn um það besta sem þjóðin okkar hefur upp á að bjóða.“
Helena Hafþórsdóttir O‘Connor er stödd í Taílandi að keppa fyrir hönd Íslands. Hún blandaðist ekki inn í atvikið og verður gaman að fylgjast með henni á stóra sviðinu þann 21. nóvember.
