Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari.
„Mörg byrja daginn með að stíga á vigtina. Með kvíða í maga og kökk í hálsi. Hvað segir hún núna?“
Ragnhildur segir að það sé algengt að fólk fagni þegar talan fer niður, en verði svekkt ef hún fer upp. Jafnvel skemmi það daginn fyrir sumum.
„Sjálfsmyndin felst í þéttleika buxnastrengs við nafla,“ segir Ragnhildur og bætir við að fólk eigi það til að tala illa um sig sjálft og tekur dæmi: „Ojj sjá þessa bingóvængi,” og „feitabolla.“
„Þetta ferli kannast margir við. Þegar samband þitt við þyngdarafl jarðar á þessum ákveðna tímapunkti ákvarða virðið þitt hefur það alvarleg áhrif á andlega heilsu. Skapið. Tilfinningarnar. Framkomu við annað fólk. Hugsanir í garð skrokksins.
Neikvæðar hugsanir skapa streituástand í líkamanum með hærra kortisóli og leiðir til kulnunar og örmögnunar með tímanum.
Lág sjálfsmynd eykur líkur á þunglyndi, sjálfsskaðandi hegðunar og oft undanfari átraskana.
En lífið er fullt af hlutum sem skipta svo miklu meira máli en stærðin á brókinni þinni.“
Ragnhildur hvetur fólk til að hætta að láta töluna á vigtinni vera mælikvarða hamingjunnar.
„Ef þið byrjuðuð daginn á að tæta hár ofan á vigtinni sem setti af stað niðurtætandi hugsanir og neikvæðar tilfinningar leiðið þá hugann að glimmerinu á öðrum sviðum í lífinu. Börn, vinir, náttúran, hvíld, góður matur, fjölskylda […] Djúp tengsl við annað fólk fóðrar sálina. Þá losast vellíðunarhormónin serótónín og óxýtocín og okkur líður vel í laaaaaangan tíma á eftir.“